1. Mósebók 27. kafli

Persónur Gamla testamentisins minna um sumt á norræn goð eða gríska guði. Það er stundum sagt að fólk hafi ánægju af sápuóperum um ríka fólkið, nú eða slúðurfréttum um þeim frægu, fyrst og fremst vegna þarfarinnar fyrir að við séum öll í sama bát. Þegar Victoria Beckham segir strákunum sínum að “steinhalda kjafti og fylgjast með á fótboltavellinum,” þá vitum við að hún er mannleg eins og við.

Þannig eru sögurnar um norrænu goðin og grísku guðina ekki endilega settar fram sem til að kenna okkur góða siði, heldur sem framsetning sammannlegrar reynslu, þar sem svik, sjálfhverfa, lygar og öfund eru hluti af litrófi lífsins. En á meðan misvel skrifaðar sápuóperur enda að jafnaði á því að allir fá makleg málagjöld og sá sem brotið er á, ber sigur að lokum, þá er það víst ekki alltaf þannig í raunveruleikanum. Frásögnin af blessun Ísaks á Jakob er dæmi um það.

Við vitum öll að það er rangt fyrir foreldra með tvö börn eða fleiri að eiga uppáhaldsbarn. En sama hvað okkur finnst og vitum, þá er ekki farið í felur með það hér að Rebekka elskaði Jakob sinn meira en Esaú, og að sama skapi var Esaú hærra á vinsældalista föður síns en Jakob. Með lygum og blekkingum tekst Rebekku og Jakob að fá Ísak til að veita Jakobi blessun sína, en ekki Esaú. Í blessun Ísaks fólst að Jakob varð aðalerfingi ættarveldisins, en Esaú var skilinn eftir í kuldanum. Það er akuryrkjumaðurinn sem brýtur á rétti hjarðmannsins/veiðimannsins enn á ný.

Þetta er svo sannarlega ekki Esaú að skapi, sem hyggst drepa bróður sinn, en Jakob ákveður að flýja, yfirgefa svæðið og halda í konuleit til ættarlandsins í austri. Það er vert skoðunar hvernig andúð foreldranna beggja á að synirnir taki sér konur af annarri ætt en þeirra eigin er nefnd hér til sögunnar.

One thought on “1. Mósebók 27. kafli”

Comments are closed.