Enn á ný erum við að fást við háaldrað fólk, þó að í þessu tilfelli sé Abram innan 120 ára markanna sem Guð var sagður hafa sett fyrr í bókinni. Enn á ný gerir Guð sáttmála við Abram, en nú felur sáttmálinn í sér nafnbreytingu Abram verður Abraham. Guð heitir Abraham öllu Kanaanslandi í þriðja sinn (ef ég hef talið rétt) og Guð lýsir því yfir að Guð vilji verða Guð allra afkomenda Ísrael. Hér erum við að fást við frásögu E eða P heimildarinnar, meðan fyrri sáttmálar/vilyrði Guðs voru gerð af Jahve og því væntanlega upprunir úr söguarfi J-heimildarinnar.
Þessi sáttmáli leggur Abraham skyldur á herðar ólíkt hinum fyrri. Merki sáttmála Guðs og Abrahamskyns er umskurn karlmanna á áttunda degi. Sá sem ekki er umskorinn getur ekki verið hluti af þjóð Guðs. Allir í húsi Abrahams eru umskornir til að staðfesta sáttmálann. Hér er sem sé kveðið á um ritual/helgihald, þar sem mikilvægi hins prestslega er í hávegum haft. Það er ekki Jahve stíllinn, alla vega ekki hingað til.
Uppgjörið við umskurn karla í hinum kristna heimi varð 48 e.Kr. og mun ég fjalla um það síðar (við lestur Postulasögunnar). Alvaran er hins vegar klárlega ljós í boði Guðs til Abrahams. Sá sem ekki er umskorinn er ekki hluti samfélagsins. Tengingin er augljós við skírnaratferli kirkjunnar, a.m.k. eins og það þróaðist á annarri öld e.Kr. og síðar.
Guð lofar jafnframt Abraham að Saraí eignist barn og taki upp nýtt nafn, Sara. Það gefur sögunni mannlega vídd að Abraham hlær að loforði Guðs. Loforðið stendur samt, sonur Söru og Abraham, Ísak er ætlað að verða arftaki Abrahams. Ísmael er samt umskorinn og Guð er sagður munu veita honum bætur vegna arfsmissins.