Biblían er uppfull af sögum um misnotkun og kúgun. Saga Hagar er ein af þeim. Kona sem hefur verið hreppt í þrældóm er notuð til að ala eigendunum barn, vegna ófrjósemis eiginkonunnar. Þegar Hagar verður ólétt, kemur upp afbrýðissemi hjá Saraí, og í kjölfarið flýr Hagar með barn undir belti inn í eyðimörkina, flýr frá kvölurum sínum.
En þá kemur inngrip frá Guði, sem ég held að sé einhver allra erfiðasti texti Biblíunnar. “Snúðu aftur til húsmóður þinnar og sættu þig við meðferð hennar.” Mig langar að öskra NEI, NEI, NEI. Hvaða rugl er þetta, Guð gæti aldrei gert svona nokkuð. Þessi texti er ógeðslegur, hann er ólíðandi. Vilyrði Guðs um fjölda niðja breytir engu þar um.
Hver sem merkingin er í textanum, þá býður hann upp á ofbeldi og misnotkun sem fáir aðrir textar bjóða upp á. Hann kallar fólk til að sætta sig við ofbeldi í samböndum. Við heyrum hins vegar ekkert um neinn engill sem bannar Saraí að halda hegðun sinni áfram, það er ekkert í þessum kafla sem grípur inn í illskuna og afbrýðissemina. Það eina sem við lesum er að Hagar eigi að snúa aftur heim.
Þar fæðir Hagar soninn Ísmael, sem skv. Kóraninum er ættfaðir hirðingjaþjóðanna á Arabaskaganum. Lýsingin á Ísmael er svo sem ekki glæsileg í kaflanum, hann er uppi á móti öllum, og andsnúinn bræðrum sínum, en hann er fyrst og fremst þó afkomandi Abrams.
Auðvitað ekki, því eins og þú veist, þá hefur guð svipaðar skoðanir og þú.
Sem manneskja sem kalla mig kristna, þá myndi ég frekar segja að ég leitist við að hafa sömu skoðanir og Guð, fremur en að Guð hafi sömu skoðanir og ég.
Hins vegar er það alveg klárt að svona textar geta sett þá hugmynd mína í uppnám.
Halldór, ef við gefum okkur það að það sé raunverulega til mjög máttug andavera (guð) af hverju í ósköpunum heldurðu að þessi texti hafi eitthvað með hann að gera? Þetta eru goð- og helgisögur einhverra fornaldaþjóða!
Og af hverju í ósköpunum varstu (eða ertu) svo viss um að guðinn þinn myndi aldrei gera eitthvað svona? Ég held (þú mótmælir kannski) að ástæðan sé sú að frá unga aldri hefur þér verið innrætt mynd af góðum guði með mjög nútímalegar og vestrænar hugmyndir, og þær hugmyndir passa ekki við guð biblíunnar. Ég veit ekki hvers vegna þú myndir annars halda (og nú er ég að giska á skoðanir þínar) að þú teljir að guð sé fylgjandi t.d. jafnrétti kynjanna og á móti t.d. slæmri meðferð á dýrum.
Svo verð ég að segja að mér finnst undarlegt að þú teljir þetta vera einn af “erfiðustu” textum biblíunnar (líklega vegna þess að þarna er svo mikil kúgun í gangi). Í lok síðasta kafla var guð að lofa Abram lönd sem hann tilgreinir sérstaklega sem lönd annarra þjóða. Finnst þér það kannski ekki “kúgun” að ráðast inn í önnur lönd og útrýma þeim sem búa þar?
Ég get alveg samþykkt að uppeldi mitt hefur áhrif á guðshugmyndir mínar, annað væri barnaskapur.
Þessar gömlu goðsagnir eins og þú kallar þær eiga sér sögu sem hefur þróast og mótast yfir langan tíma, bæði í munnlegri geymd, þegar þær eru skrifaðar upp, þegar þeim er ritstýrt til að mynda heild (fyrst sem 1. Mósebók, síðar sem hluti Torah, síðar sem hluti Biblíunnar) og auk þess hafa þær verið túlkaðar og endurtúlkaðar í sögunni síðan þá. Þarna mætast hugmyndir um Guð sem ég trúi að geti gefið mér mynd af þeim Guði sem ég trúi á.
Varðandi muninn á þessum texta hérna og eignarlandstextunum, bæði hér í sögunni um Abr(ah)am og síðar hjá Móses. Þá er auðvelt að skilja eignarlandstextana í samhengi við stöðu smáþjóðar sem upplifir sig undir stöðugum árásum frá stórveldunum í kring, slík túlkun á Guði sem stendur með þeim sem stendur veikur fyrir og gefur hinum kúgaða styrk er sístætt þema í GT.
Þetta þema er hins vegar svo sannarlega ekki til staðar í frásögunni af Hagar. Þvert á móti, hér eru það valdhafarnir sem kúga þann veika, og það er ekki annað að sjá en að það sé gert með vitund og vilja Guðs, sem gerir textann erfiðan.
Auðvitað er lestur minn á Biblíunni litaður af því sem þú kallar trúvörn, ég leitast við að sjá Guð í gegnum textann og leitast við að skilja þann Guð sem ég leitast við að trúa á, í gegnum textann.
Fer ég villur vegar? Það má vel vera. Það getur verið að Guð sé ekkert annað en villuhugmynd sem hefur náð að skjóta föstum rótum í hugsanamynstri mínu. Sú persónulega upplifun sem ég hef af Guði, er samt sem áður til staðar, hún mótar líf mitt og hefur haft gífurleg áhrif á hvað ég hef tekið mér fyrir hendur, hverjum ég hef mætt og hvernig ég sé heiminn. Það er alveg ljóst að án þessarar (villu)hugmyndar væri líf mitt allt annars konar í dag, en það er nú.
Ég trúi því að þessi hugmynd opni tækifæri sem ég vil veita sem flestum og trúi því að ég sé í einhverjum skilningi betri manneskja en annars vegna trúarreynslu minnar (það merkir ekki að trúarreynsla eða skortur þar á geri manneskjur betri eða verri almennt, hér tala ég einvörðungu um sjálfan mig).
En hefurðu í raun og veru samþykkt þetta og velt þér fyrir hvað það þýðir? Heldur þú til dæmis, þrátt fyrir að samþykkja, að guð sé fylgjandi jafnrétti kynjanna?
Það sem mig langar að vita er hvers vegna þessir textar geta sett guðsmynd þína í uppnám. Ef það væri í fréttunum á morgun að það hefðu fundist eldgamlir textar frá Ísrael, þar sem sagt væri frá því að Jahve væri að skipa barnafórnir og drepa óhlýðna þræla, myndi það hafa einhver áhrif á þig?
En það er bara ekki hægt að lesa þá texta sem áróður gegn kúgun almennt. Þeir eru fylgjandi kúgun, bara ekki þeirri sem þjóð höfundanna verða fyrir. Þeir eru fylgjandi kúgun á öðrum.
Munurinn á textum sem myndu finnast í uppgreftri á morgun og textum Biblíunnar felst í ritstýringunni og því að sögur Biblíunnar hafa mótast af reynslu kynslóða sem texti sem birtir okkur einhvern sannleika um Guð og ég trúi því að sé af þeirri ástæðu birtur í Biblíunni.
Ritstýringin? Ef ég skil þig rétt þá ertu að segja að þú telur að þessar sögur birti alvöru mynd af guði af því að einhver ákvað að setja hana í Mósebækurnar og/eða biblíuna. Ég skil ekki hverju það breytir.
Ég skil ekki alveg hvað þú átt við, þér finnst það kannski ósanngjarnt og einföldun, en mér finnst þetta hljóma eins og einhver útgáfa af “Af því að fólk hefur trúað því.”
Maður gæti alveg eins spurt, af hverju hafa kynslóðirnar talið að þessar bækur, frekar en t.d. aðrar bækur, eru sérstakar?
Svo verð ég að segja að sérstök staða þessara bóka í gegnum söguna hefur líklega lítið með einhver sérstök gæði hennar að gera, heldur frekar með það að gera að þetta var helgirit ríkjandi trúarbragða.
Birtur af mönnum eða guði í biblíunni?
Ég verð að segja að mér finnst það merkilegasta við svarið þitt hvað þú segir ekki í því. Þú segir ekkert eins og: Af því að bækur biblíunnar eru innblásnar af guði, ekki aðrar.
Nákvæmlega, sérstaðan felst í því að þetta er helgirit ákveðins hóps. Einkenni helgiritsins er að í því er birtur “sannleikur” um Guð sem fólk hefur um aldir talið að hafi eitthvert vægi. Hefur skilningur fólks á inntaki textans breyst og mótast? Já, að sjálfsögðu, en það breytir ekki að textinn og tilvist hans gefa mynd af Guði, mynd sem við skiljum í ljósi sögunnar, reynslunnar og okkar persónulegu upplifunar af Guði.
Ástæða þess að ég notast ekki við “innblásturs” orðið er að það er marklaust og gagnslaust án þess að því fylgi útskýring. Ég lít svo á að innblásturinn felist í frásögunum um Guð og sammannlegri reynslu af Guði sem birtist í Biblíunni og túlkun okkar á þessum sögum og reynslu í gegnum aldirnar. Innblásturinn er þannig ekki “static” heldur “sílifandi”.
Hmmm…mér finnst vera tveir veikleikar í þessu:
1. Annars vegar sé ég ekki að þetta sé helgirit einhvers hóps veiti textum biblíunnar einhverja sérstaka stöðu. Þegar við finnum sögur af einhverjum öðrum guðum (eða Jahve) þá hafa þær sögur líklega ekki eitthvað minni stöðu fyrir það fólk heldur en biblían hefur fyrir þig.
2. Hins vegar sé ég ekki hvers vegna þessi sérstaða, ef við gefum okkur að þessi sérstaða sé raunveruleg, ætti að láta okkur halda að sögurnar í þeim lýsi á einhvern hátt af meira raunsæi hvað þessi ósýnilega persónan sem þið teljið ykkur skynja finnst um hlutina.
Textinn gefur mynd af guði, allt í lagi. En helling af öðrum textum gera það líka. Meira að segja ég get samið texta sem gefur mynd af guðinum þínum!
En þú telur þá biblíuna ekki vera eitthvað sérstaka bók hvað þetta varðar? Þeas eru aðrar bækur sem hafa “frásögur um guð” og “sammannlega reynslu af guði sem birtist í þeim” líka innblásnar.
Vonandi tekur þú því ekki illa að ég sé alltaf að reyna að koma með einhverjar hugsanlegar útskýringar á því hvers vegna skoðanir þínar eru eins og þær eru. En ég verð að segja að mér finnst líklegt að þú hafir bara “erft” þá kristnu skoðun að biblían sé einstök bók. Þessi skoðun var áður fyrr rökstudd með þeirri hugmynd að guð kom einhvern veginn að ritun þeirra. Ef sú er raunin þá er fullyrðingin um að biblían sé einstök mjög skiljanleg. En þú virðist ekki trúa því að guð hafi ekki komið að ritun biblíunnar og því hangir þessi skoðun um einstaka stöðu biblíunnar í lausu lofti.
Þetta eru ágætar pælingar hjá þér og skipta verulega miklu máli. Þ.e. spurningin í hverju sérstaða Biblíunnar felist. Sérstaða Biblíunnar felst auðvitað fyrst og fremst í því að hún fjallar um þann Guð sem ég trúi á, Guð sem skapar himinn og jörð.
Sá Guð sem ég trúi á er virkur í lífi fólks, sem ég trúi að endurspeglist í ritstjórn einstakra hluta Biblíunnar, riturum hennar og þeim frásögum sem þar birtast.
Sérstaða Biblíunnar er í meginatriðum annars eðlis en Kóransins, ef það er það sem þú ert að fiska eftir. Biblían er ekki Orð Guðs í merkingunni að Guð hafi skrifað eða lesið fyrir, heldur miklu fremur vitnisburður fólks um orð Guðs (Jesúm Krist, svo ég noti frasa). Sérstaða Biblíunnar felst í því að þessi vitnisburður snertir við og er virkur í lífi fólks í dag og hefur snert við fólki um aldir.
Nálgun mín og skilningur minn á Biblíunni er í stöðugri mótun. Vissulega hef ég tilhneigingu til að sjá Biblíuna sem einstaka bók, það er hins vegar ekki einvörðungu erfð skoðun og það hvernig ég tala um Biblíuna í dag er öðruvísi en ég talaði fyrir 10 árum, sem er öðruvísi en ég talaði fyrir 15 árum eða 20 árum. Segja má að þróunin sé á þann veg að ég átti mig æ betur á margbreytileika Biblíunnar og hvernig sá margbreytileiki birtir Guðsmynd sem er miklu stórbrotnari en barnatrúarguðinn með hvíta skeggið og galdrabókina af himnum ofan býður upp á.
Hvað varðar Biblíuna vs. önnur rit, þá lít ég þar til hefðar, sögu og reynslu þeirra sem komu á undan, vitandi að mín samviska og reynsla er ekki einráður mælikvarði á rétt og rangt. Þannig treysti ég á handleiðslu Guðs í lífi þess fólks sem telur þessi rit mikilvægari/skýrari/hentugri vitnisburð en önnur rit sem fjalla vissulega líka um Guð.
Ég hef hins vegar notið blessunar og öðlast dýpri skilning á Guði við lestur rita sem standa utan Biblíunnar og trúi því að Guð hafi verið þar að verki, enda trúi ég að Guði sé ekkert óviðkomandi.
Nei Halldór, ég er ekki að reyna að fiska eftir því að þú afneitir algerum “kórönskum” innblæstri. 😉 Ég var bara að tala um einhvers konar aðkomu guðs að biblíunni. En Kóraninn er alveg frábært dæmi, þegar Kóraninn talar um að guð muni láta fólk drekka sjóðandi vatn í helvíti, setja þeir textar “þá hugmynd þína [að þú leitist við að hafa sömu skoðanir og guð] í uppnám”?
Þú heldur áfram að nefna atriði sem eiga að veita biblíunni sérstöðu, en ég sé ekki hvernig þetta sem þú telur upp eigi að gera það að verkum að einhverjar sögur fornaldarmanna um guðinn sinn valdi þér einhverju uppnámi, af því að sögurnar þar eiga að endurspegli einhvern veginn alvöru skoðanir eða eðli guðs.
Sem dæmi, þá nefnirðu að biblían hafi snert við fólki í gegnum aldirnar. Alveg óháð því hvort það sama eigi við um alls konar bækur, þá sé ég ekki hvernig þú færð út frá þeirri fullyrðingu, yfir í það að biblían sé eitthvað sannari þegar hún fjallar um guð.
Og ég verð að bæta við að mér finnst vísun í að fólk hafi undir handleiðslu guð verið mikilvægari/skýrari/hentugri vitnisburður um guð. Guðinn þinn hefur veitt stórum hluta mannskynsins þá handleiðslu að Kóraninn sé betri þegar það kemur að þessu. Eða þá að ritin sjálf endurspegli ekki guð, heldur það að þetta eru helgirit útbreiddra trúarbragða.