1. Mósebók 3. kafli

Adam var ekki lengi í Paradís. Tími sakleysisins entist ekki lengi, frásagan sem hefst í 2. kaflanum kynnir til sögunnar blygðun og skömm, vitneskjuna um gott og illt. Guð er hér eins og í síðasta kafla í nánu samneyti við mannkyn. Tilraun Guðs til að vernda mannkyn frá veruleikanum mistekst, og e.t.v. kallast sagan á við söguna um Búdda og tilraunir föður hans til að halda honum frá eymdinni og óréttlætinu.

Gamla testamentisfræðikennarinn minn í Trinity Lutheran Seminary, benti okkur ítrekað á að þó höggormurinn hafi verið slóttugur, þá ljúgi hann engu, það sama verði ekki sagt um Guð. Þannig deyi konan og maðurinn ekki, þó þau snerti og éti eplið.

Spurningarnar sem við glímum við þegar við lesum kaflann er því hvernig guð það sé sem lýgur að sköpun sinni til að vernda hana frá að sjá illskuna. Hvers lags guð er það sem “hefnir” sín á höggorminum sem laug engu, en benti einfaldlega á það sem satt var? Hvernig guð er það sem virðist taka mark á afsökunarbeiðni mannsins, þegar hann segir: “Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át,” og lætur þjáningarnar bitna fyrst og fremst á konunni. Hvernig guð er það sem heldur manninum og konunni frá því að borða af lífsins tré, kemur í veg fyrir að þau lifi eilíflega?

Er það kannski svo að þessi saga er fyrst og fremst tilraun til að útskýra, leita leiða til að sættast við erfitt hlutskipti, fremur en lýsing á Guði?

Eða er meginmarkmiðið að gera okkur ljóst að Guð vill vernda okkur frá öllu illu. En skömm okkar og sjálfhverfa, þörf okkar fyrir að fara í felur með það hver við erum, höfnun okkar á vernd Guðs og vilji til að redda okkur án Guðs hjálpar, kemur í veg fyrir að vilji Guðs með líf okkar verði að veruleika?

Það er erfitt að fullyrða mikið um upphaflega markmiðið með textanum. Sumir sjá í honum fyrsta spádóminn um komu Jesú Krists, aðrir sjá í honum djöfulinn í formi höggorms og enn aðrir nota hann sem réttlætingu á kúgun kvenna.

Eitt er þó ljóst, textinn lýsir rofi milli Guðs og mannkyns, nándin úr öðrum kafla, er fyrir bí. Í bili að minnsta kosti.

2 thoughts on “1. Mósebók 3. kafli”

  1. Spurningin sem við glímum við þegar við lesum kaflann er því hvernig guð það sé sem lýgur að sköpun sinni til að vernda hana frá að sjá illskuna.

    Hvaðan fékkstu þá hugmynd að guð hafi verið að ljúga að manninum til þess að “vernda” hann frá að sjá illskuna?

    Þetta hljómar trúvarnarlega. Eins og þú sért að reyna að lesa inn í söguna göfugan tilgang á bak við lygarnar.

    Ég sé ekkert í textanum sem bendir til þess að guð hafi mikið verið að velta því fyrir sér að vernda manninn þegar hann laug að honum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.