Jóhannesarguðspjall 6. kafli

Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?

Jesús er ekki allra, það er ljóst í 6. kaflanum. Lærisveinar komu og fóru, sumum þeirra mislíkaði boðskapurinn og kannski helst það að enginn megnar að koma til Guðs fyrir eigin verðleika. Það er Guð sem kemur til okkar. Það getur líka hafa reynt á suma og sér í lagi trúarleiðtogana að heyra að vilji Guðs væri að allir yrðu hólpnir, ekki aðeins þeir sem uppfylltu skilyrðin sem sett voru í skjóli musterisins.

Annars byrjar kaflinn á kraftaverki sem mér þykir alltaf fallegt, sér í lagi eftir að ég einhverju sinni heyrði Karl Sigurbjörnsson biskup útleggja textann og velta upp hvort að kraftaverkið hafi hugsanlega verið fólgið í því að fá mannfjöldann til að taka nestið sitt og gefa með sér. Þannig hafi drengurinn með brauðin fimm og fiskana tvo, verið öðrum fyrirmynd að taka upp mal sinn og deila með sér, í stað þess að barma sér yfir að það væri örugglega ekki nóg fyrir alla.

Ég hef verið í þeirri aðstöðu að vernda nestið mitt, óttast um að vatnið myndi ekki duga til. Ég sat í flóttamannabúðum sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu sett upp á flugvellinum í Jacmel, nokkrum klukkustundum eftir jarðskjálftann á Haiti í janúar 2010. Við vorum hrædd um að við hefðum ekki nægt brauð, nóg af kókóshnetum, nægt hreint vatn. Við vorum hrædd við að deila með okkur, því e.t.v. myndum við ekki hafa nóg fyrir alla.

Þegar Jesús tók gjafir drengsins, braut brauðið og deildi með fólkinu í kringum sig, þá réðst hann á þennan ótta. Hann hafnaði því að við þyrftum að fela það sem við eigum, ef ske kynni að við þyrftum það síðar. Ég sá Jesús í flóttamannabúðunum í janúar 2010, gamla konu með einn banana, sem braut hann í litla bita og gaf þeim sem næst henni sátu. Hún gaf óttalaus af því litla sem hún átti, gaf okkur sem skulfum af hræðslu kjark til að gefa af gnægtum okkar.

Karl biskup talaði um að hann vildi ekki útiloka að kraftaverkið hefði falist í því að brauðunum og fiskunum fjölgaði þvert á náttúrulögmálin við blessun Jesús, en ég spyr hvort að það sé ekki meira kraftaverk þegar óttinn er fjarlægður úr huga og sinni og okkur er gert mögulegt að horfa lengra en á eigin nafla, þegar við lærum að gefa af alsnægtum okkar.

Jesús veit enda vel að það eru ekki yfirnáttúrulegir atburðir og tákn sem kalla okkur til fylgdar við Guð, heldur að við séum mett, sátt við okkur sjálf og þá sem í kringum okkur eru.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.