Stjórnalagaþingsklúðrið og “Nýja Ísland”

Hvernig er það eiginlega? Það eru framkvæmdar kosningar á Íslandi. Framkvæmdinni er verulega ábótavant. Nokkrir einstaklingar kæra framkvæmdina þar sem hún var ekki í samræmi við lög (og þeim mislíkaði niðurstaðan). Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að lögum hafi ekki verið fylgt og ógildir kosninguna. Núna keppast stjórnmálamenn og bloggarar við að skammast í kærendum og Hæstarétti, eins og þeir beri sök.

Ábyrgðaraðilar á kosningaframkvæmdinni, innanríkisráðherra og forsætisráðherra væru manneskjur af meiri að standa upp, verja ákvörðun Hæstaréttar og biðjast afsökunar á mistökum sínum og sinna undirmanna. Að öðrum kosti eru þau sömu mannleysurnar og stjórnmálamennirnir sem leiddu íslensku þjóðina inn í hrunið og geta ekki drullast til að viðurkenna mistök sín.

Ég myndi óska þess að við gætum greint á milli stjórnmálaskoðana og hálfvitaskapar. Léleg vinnubrögð eru alveg jafn slæm hvort sem Þorgerður Katrín eða Jóhanna Sigurðardóttir eiga í hlut. Kæruleysi og sofandaháttur eru ólýðandi hvort sem um er að ræða Ögmund Jónasson, Geir H. Haarde eða Björgvin G. Sigurðsson. Sleggjudómar og bull eru alveg jafn þreytandi úr munni Vigdísar Hauksdóttur og Össurar Skarphéðinssonar. Að ógleymdri sjálfsupphafningunni sem er jafn fölsk hjá Sigmundi D. Gunnlaugssyni, Bjarna Benediktssyni og Lilju Mósesdóttur.

Sjálfsagt eru þetta allt ágætis manneskjur og allt það, en sjálfsblindan sem steypti þjóðinni í hrun, er enn það sem einkennir alla umræðu á Íslandi og mun væntanlega koma í veg fyrir hið “Nýja Ísland” um langa hríð. Auðvitað er sjálfsblindan ekki bundin við heim stjórnmálanna. Hún virðist alsráðandi alstaðar. Það er allt einhverjum öðrum að kenna og ekkert okkur sjálfum.

Öfgar þessarar sjálfsblindu koma annars vegar fram í sjálfstortímandi hugmyndaheimi sem helst er kenndur við Bjart í Sumarhúsum. Þar sem sjálfhverfan og vissan um eigin rétt, drepur allt og alla í kringum okkur.

Hinar öfgarnar felast síðan í fórnarlambshugmyndum, þar sem við erum leikskoppar annarra, óhæf til nokkurra góðra verka. Öfgar sem leiða okkur til að setja allt traust á utanaðkomandi lausnir, hvort sem þær eru heimskuleg slagorð um “skjaldborg heimilanna” eða “þjóðareign á auðlindum”, draumar um að ef einhver annar geri eitthvað verði allt gott hjá okkur.

Er til of mikils mælst að fólk á Íslandi horfi í eigin barm, viðurkenni að hegðun okkar undanfarin 10 ár hefur verið sjálfhverf og út úr korti? Ég vildi óska að Jóhanna og Ögmundur gætu stigið út úr sjálfhverfunni, þó ekki væri nema í stutta stund og viðurkennt mistök sín og ábyrgð sína á Stjórnlagakosningunum. Það væri góð byrjun á “Nýju Íslandi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.