Nokkrar stærðir úr Excel-inu mínu

Þar sem ég fer á morgun til að greiða utankjörstaða um Icesave lögin, ákvað ég í gær að finna til nokkrar tölur sem setja Icesave skuldina í samhengi við hrunkostnað ríkisins.
Hér er því upptalning á helstu beinu kostnaðarliðum ríkisins vegna hrunsins, ég átta mig á að í einhverjum tilfellum er um fjárfestingu á hlutafé eða ræða og í öðrum um víkjandi lán að ræða. En miðað við reynslu Íslendinga af bankarekstri geri ég ráð fyrir að þessar upphæðir skili sér ekki til baka. Ef það hins vegar gerist, hlýtur það að teljast óvæntur plús. Vissulega vantar eitthvað á listann og er fólki velkomið að benda á það í athugasemdum.

  1. Fall Seðlabanka Íslands – 345,0 milljarðar
  2. Hlutur ríkisins í LÍ (81%) – 122,0 milljarðar
  3. Hlutur ríkisins í Ísl.banka (5%)  – 3,3 milljarðar
  4. Víkjandi lán til Ísl.banka – 25,0 milljarðar
  5. Redding vegna Sjóvá – 11,6 milljarðar
  6. Hlutur ríkisins í Arion (13%) – 9,4 milljarðar
  7. Víkjandi lán til Aríon – 24,0 milljarðar
  8. Endurreisn BYR  – 10,7 milljarðar (óstaðfest)
  9. Endurreisn SpKEF – 5,0 milljarðar (óstaðfest)
  10. Endurreisn annarra sparisj. – 5,0 milljarðar (óstaðfest)
  11. Lán til VBS og Saga Capital – 46,0 milljarðar
  12. Icesave kostnaður – 320 milljarðar*
  13. Hallarekstur ríkissjóðs á fjárlögum 2010 – 100 milljarðar.

Alls gerir þetta 1026,9 milljarða króna sem ríkið hefur nú þegar tekið á sig mestmegnis vegna fjárglæframanna og bankahruns. Ég var að hugsa um hvort ég gæti skoðað hvaða fjárglæfrablokkir hefðu reynst okkur dýrastar, en það er hins vegar mjög flókið þar sem Seðlabankafallið snertir að sjálfsögðu allt bankakerfið og mjög erfitt að greina svo að gagni megi koma í sundur hver fékk peninga hvar. Hins vegar er hægt að setja upp lista yfir ábyrgðaraðila mismunandi þátta. Þar koma sumar upphæðir fram oftar en einu sinni. Slíkur listi liti út eitthvað á þessa leið.

  1. Ráðherra bankamála og fjármálaeftirlitið – 581,9 milljarðar (liðir 2-12)
  2. Stjórn og yfirmenn Landsbankans  – 442 milljarðar (liðir 2 og 12)
  3. Stjórn Seðlabankans – 345 milljarðar (liður 1)
  4. Núverandi ríkisstjórn – 146 milljarðar (liðir 11 og 13)

Auðvitað eru til einstaklingar sem telja Icesave á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar. Með því móti væri hægt að koma núverandi ríkisstjórn í annað sætið, en ég persónulega tel að það sé fremur langsótt. Eins væri hægt að stíga til baka í sögunni og horfa til einkavæðingar bankanna og full ástæða til þess svo sem, en hér er einvörðungu litið til ákvarðanatöku frá 2006 til dagsins í dag.
Það er rétt að taka fram að hér er einungis um að ræða ábyrgðaraðila á einstökum þáttum. Fjárglæframenn sem fengu banka og sparisjóði í lið með sér og náðu að eyða milljörðunum, sem ríkið þarf nú að leggja út fyrir eru verkefni annarrar færslu og meiri vinnu. Eins er rétt að taka fram að hér skoða ég einvörðungu upphæðir sem féllu á íslensk stjórnvöld. Nokkur þúsund milljarðar féllu á erlendar lánastofnanir, erlenda Seðlabanka og erlenda áhættufjárfesta, sem í einhverjum skilningi höfðu treyst á fjármálaeftirlitið á Íslandi.
En hvað um hvað um það, hér er einvörðungu um þanka eins einstaklings að ræða. En þar sem ég var að velta þessu fyrir mér í gærkvöldi fannst mér ástæða til að kasta þessu fram.

* Upphæðin vegna Icesave er byggð á opinberum gögnum, reikningum Þórólfs Matthíassonar og vefsíðu Indefence. Ég lagði sjálfstætt mat á nokkra þætti málsins, setti gögnin upp í Excel, gerði ráð fyrir 5,5% vöxtum, 88% endurheimtum og að jafnaði 2,5% verðbólgu á ári í Bretlandi fram til ársins 2016. Þetta er auðvitað slembitala eins og allt annað, en ég efast um að skekkjan sé meiri en 15%-20%.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.