Sorg

Þar sem ég ók eftir Broad Street nú í kvöld á leiðinni heim úr bíó með 10 ára dóttur minni, tók ég eftir að búið var að leggja tveimur sendibifreiðum fyrir utan eitt einbýlishúsið við götuna. Á bifreiðunum var áróður gegn fóstureyðingum og fremur óhugnanlegar myndir af fóstrum.

Auk þess hafði verið hengd á bílana karton með orðum eins og “murderer”. Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir fáeinum vikum hafði bæjarstjórnin hér í Bexley rætt að beiðni íbúa á Broad Street hvort bann við áróðri “anti-choice” hreyfinga við íbúðarhús í Broad Street væri brot á tjáningarfrelsi.

Þannig er að íbúi við götuna er kvensjúkdómalæknir og starfar á heilsugæslustöð þar sem fóstureyðingar fara fram. Niðurstaðan var sú að áróður framan við húsið væri leyfilegur og viðkomandi læknir, fjölskylda hans og nágrannar yrðu að gera sér myndirnar á bílunum og upphrópanirnar að góðu.

Ég hafði ekki séð bílunum lagt þarna fyrr en í kvöld, og mér var mjög brugðið. Ekki vegna þess að myndirnar væru óhugnanlegar (enda séð svona myndir oft áður), heldur vegna þess að ákvörðunin um mótmælastöðu við heimili læknis núna í kvöld felur í sér alvarlegri hótun en flest önnur kvöld.

Í morgun var nefnilega Dr. Tiller í messuhópi dagsins í Reformation Lutheran Church í Wichita í Kansas. Hann var að bjóða fólk velkomið í kirkju þegar hann var myrtur í andyrinu.

Umræða um morðið hefur verið nokkur hjá félögum mínum á FaceBook í dag. Presturinn í Reformation Lutheran útskrifaðist héðan úr Trinity Lutheran í Bexley fyrir fáeinum árum og því er nálægðin e.t.v. meiri en ella.

Það er auðvelt að halda því fram að ekki allir “anti-choice” stuðningsmenn fremji morð, það sé réttur fólks að mótmæla og fólk verði að sætta sig við ónæðið sem fylgir því að vera nágranni kvensjúkdómalækna. En ég veit það ekki… Í kvöld er alla vega við hæfi að láta kyrrt liggja.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.