Bjögun

Það eru því miður ekki allar kannanir jafnar þegar kemur að fræðum um faglegt úrtak. Þannig er hér í BNA yfirleitt notast við landlínusíma við gerð símakannanna, sem veldur því að ólíklegra er að fólk undir þrítugu sé spurt. Það á svo sem einnig við um fólk sem er fátækt. Til að bregðast við svona bjögun eru notaðar ýmsar bakgrunnsspurningar m.a. hvað kosið var í síðustu kosningum og þannig er hugsanlega hægt að leiðrétta skekkjuna í úrtakinu eitthvað, eða með því að spyrja einstaklinga um flokksþátttöku. Hér í BNA er nefnilega til ágætar upplýsingar um hlutföll íbúa sem tilheyra hvorum flokki fyrir sig. Þær upplýsingar leiða t.d. í ljós að þeir sem skilgreina sig í Demókrataflokknum eru um það bil 10% fleiri en telja sig tilheyra Repúblikunum.

Nú í ágúst ákváðu hins vegar fjölmörg kannanafyrirtæki að breyta aðferðafræði sinni og miða kannanir við að jafnmargir tilheyri báðum flokkum. Þessi aðferð ásamt velheppnuðu þingi Repúblikanna hefur valdið því að niðurstöður skoðanakannana síðustu vikna hafa sveiflast um allt að 10% McCain í hag.

Ég held að enginn þurfi að efast um að sagan um Sarah Palin hefur farið vel í marga. Ég var sjálfur spenntur fyrir rótækum umbótasinna sem stöðvaði glórulausar vegaframkvæmdir, seldi þotu með hagnaði á eBay til að spara og sagði upp kokkinum í ríkisstjórasetrinu til að sýna ráðdeild. Spennan hefur að vísu minnkað eftir að ég lærði að þotan var ekki seld á eBay og seldist á undirverði, kokkurinn var færður til í starfi vegna þess að Sarah ákvað að búa heima hjá sér en ekki í ríkisstjórabústaðnum og þiggja ferðadagpeninga fyrir að ferðast á milli. Hvað vegaframkvæmdirnar varðar, voru brúarframkvæmdirnar stöðvaðar í Washington, þrátt fyrir baráttu Sarah fyrir peningum í verkið.

En aftur að könnunum. Bjögunin í könnuninni sem er kynnt hér á mbl.is sést best á því að 50% svarenda segjast hafa kosið Bush (sem n.b. ekki allir gangast við hér í BNA í dag), en einvörðungu 40% segjast hafa kosið Tómatsósukonunginn Kerry. Þetta eitt og sér bendir til að ekki sé allt sem sýnist í úrtakinu en í kosningum 2004 fékk Bush 51% atkvæða (62,040,606) en Kerry 48% (59,028,109).

Ég tók ekki Aðferðafræði I í Félagsvísindadeild HÍ, og því ekki dómbær á gildi þess að breyta úrtaki í raðkönnunum. Hins vegar má ætla að þessi breyting stuðli að meiri spennu í skoðanakönnunum hjá Bandarískum fjölmiðlum næstu daga og mánuði. Enda jafnar þessi bjögun leikinn fyrir frambjóðendur. Ef skoðanakannanir hafa áhrif á niðurstöðu kosninga, sem er ekki ósennilegt, það er alltaf ákveðinn hópur sem vill tilheyra sigurliðinu, þá er ljóst að ákvörðun skoðanakannanafyrirtækja um að breyta vinnubrögðum sínum kemur verr við Obama en McCain.

Ég er ekki að halda því fram hér að um samsæri sé að ræða. Hitt er alveg ljóst að kosningar þar sem annar frambjóðandinn hefur 10% forskot í könnunum er ekki gott söluefni. Hvort að það hafi hjálpað kannanafyrirtækjum í ákvarðanatökunni er hins vegar alls óljóst. En tímasetning breytingarinnar í kringum þing flokkanna var snjöll því það auðveldaði kannendunum að réttlæta sveifluna án þess að vísa til þess að vinnubrögð þeirra væru breytt.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.