Litið til baka – þankar um Katrínu og Gústaf

Nú eru liðnir 20 mánuðir síðan ég hjálpaði Alvin að stafla grjóti sem hann ætlaði að nota í sólpall við húsið sitt, tók þátt í að hreinsa út allt nema berar sperrurnar úr húsinu hans Greg, aðstoðaði við uppsetningu sjálfboðamiðstöðvar og málaði innveggi lítillar lútherskrar kirkju sem hafði gereyðilagst í flóðinu. Ég sé fyrir mér fólkið sem sagði sögur af því að hafa hangið á hurðum og borist með flóðinu, það rifjast upp átakanleg saga af biðinni í ráðstefnuhöllinni og ég velti fyrir mér hvernig gaurunum líður sem héldu úti neyðaraðstoð í bláa húsinu í 9th Ward, í von um að hverfið sem þeir höfðu tilheyrt allt sitt líf yrði endurreist.

Ég hugsa líka til prestanna sem við hittum, sem margir hverjir unnu hörðum höndum að fá fleiri sjálfboðaliða, höfðu í 15 mánuði vaknað á hverjum degi með það eitt að markmiði að hjálpa fleirum, án þess að hirða um eigin heilsu og hunsuðu með öllu áfallastreituna sem var augljóslega til staðar og var hvað greinilegust þegar við nemendurnir settumst niður með þeim dag eða tvo til að fræðast um hvað það þýddi að reyna að þjónusta náungann í ómögulegum aðstæðum.

Ég heyri í fjölmiðlum að skólabílarnir eru núna notaðir til að koma fólkinu í burtu, ég velti samt fyrir mér hvort að kettirnir og hundarnir fái að fara með. Ég sé fyrir mér merkingarnar á húsunum, “1 CAT DEAD”, “1 DOG+2 CATS DEAD”, og hugsa til konunnar sem sagði frá því hvernig hún gat ekki fengið af sér að skilja hundinn sinn eftir og ákvað að sitja af sér Katrínu. Vonandi kemur ekki til þess á morgun að einstaklingar láti lífið vegna þess að kerfið gerði ekki ráð fyrir gæludýrum.

Það er átakanlegt að heyra að varnargarðarnir verði ekki tilbúnir fyrr en eftir þrjú ár. Það er ömurlegt að vita til þess að einungis hefur verið notast við fjórðung þess fjármagns sem er búið að samþykkja í verkið. Það er sársaukafullt af gruna að veggirnir sem séu tilbúnir verji þá efnameiri, en veggirnir um 9th ward hafi verið látnir mæta afgangi. Ég vona samt að grunsemdir mínar byggist á fordómum mínum í garð stjórnvalda, en ekki veruleikanum.

Einhver kann að spyrja um Guð í öllu þessu og það er ekki skrítið. Það er ekki auðvelt að sjá Guð, þegar vatnið lyftist yfir varnargarðana og skellur á íbúðarhúsum. Alla vega er ekki auðvelt að sjá algóðan Guð. Það verður ekki auðvelt að sjá kærleiksríkan Skapara í gegnum mókið og hitasvækjuna þegar vatnið byrjar að sjatna.

En ég trúi því að Guð sé þarna, Guð birtist í augum og höndum einstaklinga sem þjást af áfallastreitu, en fara á fætur, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og leita leiða til að gera lífið betra. Sá Guð sem ég trúi á kallar okkur til að vera hendur sínar, augu og fætur. Það er í gegnum þá sem hlýða kallinu sem við getum séð Guð. En ekki bara í gegnum þá. Guð er líka í þeim sem þarfnast hjálpar, við getum séð Guð í þeim sem líða og þjást. Sá Guð sem ég trúi á er nefnilega ekki bara aðgerðasinni, hann gefur sjálfan sig okkur á vald, þjáist með og fyrir okkur.