Toshiki Toma skrifar ágæta færslu um mannréttindi á bloginu sínu í dag. Eitt af því sem hann tæpir stuttlega á er grundvallarþáttur þegar kemur að umræðu um mannréttindi og fordóma. Atriði sem ég var minntur harkalega á í Detroit. Vissulega eru fordómar oft hvimleiðir og neikvæðir af mörgum sökum. Hins vegar er það ekki fyrr en þeir sem hafa fordóma eru í ráðandi stöðu sem ástandið verður hættulegt.
Þannig get ég orðið sár út í sum skrif Vantrúarmanna í garð kirkjunnar, fundist þau einkennast af fordómum og stælum, ég get jafnvel beðist undan því að hafa slík skrif á vefsíðunni minni. En orð Vantrúarmanna hafa samt allt annars konar vægi, en þegar yfirmenn kirkjunnar, prestar eða biskupar tala niðrandi og á fordómafullan hátt til trúleysingja. Kirkjan býr við vernd frá stjórnvöldum og afleiðing orða kirkjunnar manna er því bæði meiri og alvarlegri. Þegar sá sem hefur völd/áhrif í krafti tengsla eða stærðar talar fordómafullum orðum í garð fámennari hópa, felst alltaf í því óbein hótun, niðurlæging og/eða minnkun. Þannig notar sá sem valdið hefur stöðu sína til að skilgreina og segja hver sá minni er. Þetta höfum við því miður séð ítrekað í prédikunum kirkjunnar þar sem trúleysingjar eru sagðir siðlausir eða heimskir. Hinir ráðandi telja sig hafa vald og stöðu til að skilgreina hina.
Það er m.a. í þessu ljósi sem ég sendi inn kvörtunina til mbl.is sem er fjallað um hér fyrr á annálnum mínum. Það eru þónokkuð margir sem skrifa á blog.is sem ég tel að skrifi á fordómafullan, jafnvel særandi hátt um þjóðkirkjuna og starfsfólk hennar. Hins vegar eru fordómar ekki hættulegir þegar þeim er beint að þeim sem hafa stöðu, völd og áhrif. Fordómar verða fyrst hættulegir, ógnandi og mótandi fyrir samfélög þegar þeir beinast að minnihlutahópum sem hafa takmarkaða getu til að halda uppi vörnum og þegar fordómum er haldið á lofti eða látin óáreitt (þegjandi samþykki) af þeim sem hafa áhrif og völd.
Þetta merkir á hinn bóginn alls ekki að þeir sem völdin hafa megi ekki tala. Þetta merkir aðeins að ábyrgð þess sem ræður er meiri og gagnrýniverðari en þess sem hrópar í eyðimörkinni.