Sérverkefni

Á hverju ári tek ég ákvörðun um að draga úr sérverkefnavinnu, sér í lagi á sviði umbrots og hönnunar, en á hverju ári segi ég samt já við fleiri verkefnum en e.t.v. ég ætti að gera. Ein af ástæðum já-anna er að þeir sem leita til mín eru oft að gera svo frábæra hluti að mér finnst gaman að fá að taka þátt. Þar eru Skyrgámur og Jól í skókassa auðvitað í sérflokki enda lít ég á þátttöku í þeim verkefnum sem framlag mitt til betri heims, en ekki er síður gaman að fá að setja mark á Landsmót kirkjunnar á Hvammstanga, skrifa greinargerðir um kirkjuleg málefni, hanna merki fyrir æskulýðsmót, taka þátt í vefmótun frjálsra félagasamtaka eða viðhalda útliti og sjá um hönnun fréttabréfs Grensássafnaðar.

Öll þessi verkefni gera mér mögulegt að hlera hvað er í gangi heima, um leið og ég get réttlætt fyrir sjálfum mér og konunni að ég þurfi að eiga MacBook og viðeigandi hugbúnað. Þegar ég fór að atast í svona verkefnum fyrir rúmum 10-12 árum, þá man ég að mörkin fyrir vsk-skyldan rekstur var í 180.000 krónum og ég reyndi að miða við að halda verkefnatekjum neðan þess ramma. Reyndar var ég um tíma með vsk-númer enda starfaði ég freelance í rúmt ár og verkefnatekjurnar þurftu að duga fyrir meiru en viðhaldi hug- og vélbúnaðar.

Upp á síðkastið hafa dottið inn nokkur verkefni sem eru spennandi eða gætu orðið það og því ákvað ég að fletta upp vsk-mörkunum fyrir einstaklinga. Það er af sem áður var. Nú eru vsk-mörkin orðin 500.000 krónur og ljóst að lítil hætta er á að ég ögri þeim að ráði verandi í námi í BNA.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.