Í nóvember 2004 leitaðist ég við að útskýra hvað fælist í náminu sem ég stefndi þá á hér í BNA og nefndi til sögunnar nokkur námskeið sem ég myndi hugsanlega taka. Þegar ég rakst á listann aftur núna fannst mér hálfkómískt að ég mun ekki taka eitt einasta námskeið á listanum. Ég hef enda tekið mun hefðbundnari námskeið þetta fyrra ár, ýmislegt sem ég hafði snertiflöt við í BA-náminu. Þannig hef ég tekið tvö námskeið í Kirkjusögu og tvö í Trúfræði, námskeið í Gamla testamentisfræðum og annað í forspjallsvísindum. Aðkoman að þessum námskeiðum hefur þó verið nokkuð önnur en í BA-náminu, þrátt fyrir að hluti námsefnisins hafi verið kunnuglegur.
Önnur námskeið hafa verið sértækari, námskeið um sjálfsmynd einstaklinga í þjónustu kirkjunnar með áherslu á kenningar um fjölskyldumynstur, námskeið um kennslu í safnaðarstarfi og annað um fjölskyldustarf í kirkjum. Þá hef ég tekið námskeið um helgihald og annað um þjónustu kirkjunnar í kjölfar hamfara.
Á næsta ári mun ég síðan horfa til sértækari námskeiða á sviði stjórnunar. Þar á meðal er námskeið sem heitir Organizational Behavior og er kennt í Viðskiptadeild Capital University og er hluti af MBA náminu þeirra. Ég tek námskeið sem glímir við leiðtogahlutverk í safnaðarstarfi, og stöðu prestsins sem leiðtoga. Þá mun ég vonandi taka námskeið í Guðfræðideild Methódista hér í mið-Ohio, um Conflict Management. Ég verð í námskeiði um uppbyggingu og framkvæmd fermingarstarfa, og mun skoða bæði kirkjuna sem alheimsfyrirbæri og kirkjur svartra í BNA í sitt hvorum kúrsinum. Þá hyggst ég taka námskeið um kynlífssiðfræði, en hvort sem okkur finnst efni námskeiðsins áhugavert eður ei, þá er ljóst að kirkjan er í sífelldri klemmu þegar kemur að svefnherbergi fólks. Þá er líka á dagskrá að taka yfirlitsnámskeið í Nýja Testamentisfræðum.
Þessu til viðbótar þarf ég að taka einn kúrs sem ekki er ljóst hver er, en gæti orðið leskúrs á sviði safnaðaruppbyggingar.
Það er mikill munur á nálgun hér í Trinity Lutheran og Guðfræðideildinni þegar kemur að tengingu námsefnisins við kirkjulegt starf. Námskeiðin hér eru starfstengd í mjög miklu mæli, meðan Guðfræðideildin heima er eðlilega með meiri áherslu á fræðilega nálgun, án tillits til kirkjunnar. Þetta á sérstaklega við um námskeið á sviði kennslu og safnaðarstarfs, en slík námskeið voru einfaldlega vart til staðar í guðfræðideildinni og eðlilega. Það getur hafa breyst en þó er það ekki víst.