Ég fór í sumarbúðir um helgina með dóttur minni, e.t.v. ekki í frásögur færandi, nema hvað að þetta er í fyrsta sinn síðan 1991 sem ég fer í sumarbúðir án þess að hafa annað hlutverk en það að vera þátttakandi eða vera gefið hlutverk/verkefni þegar ég mæti á staðinn. Þetta var um margt spennandi reynsla, helgi í feðginadagskrá þar sem markmiðið var að njóta þess að vera til.
Hópurinn sem stóð að dagskrá helgarinnar er rétt tæplega 4 ára gamall, stofnaður 2003. En verkefnið sem hópurinn er sprottinn upp úr hófst í kringum 1930, sem hluti af fjölskyldustarfi KFUM (Y) hér í BNA. Opinber saga verkefnisins greinir frá því að tveir einstaklingar, starfsmaður KFUM annars vegar og einstaklingur af frumbyggjaættum hafi tekið tal saman um uppeldisáherslur þar sem fram kom að hjá frumbyggjum Norður Ameríku hafi feður haft mun veigameira hlutverk í uppeldi en í vestrænni hefð.
Í kjölfarið þróaðist verkefni, sem var kallað Indian Princesses (feðgin), Indian Guides (feðgar), Indian Braves (mæðgin) og Indian Maidens (mæðgur). Nöfn sem lýsa vel tíðaranda fyrri hluta 20. aldar. Verkefnið þróaðist síðan um 70 ára skeið en rétt fyrir síðustu aldamót, hófst mjög hörð gagnrýni á verkefnið af hendi hóps frumbyggja, sem töldu annars vegar að það ýtti undir steríótýpiskar myndir af frumbyggjum og ekki síður að menning frumbyggja væri þeirra eign og aðrir en frumbyggjar sjálfir hefðu ekki rétt til að notast við hana, enda leiddi það alltaf til afbökunar. Þessar raddir náðu eyrum ýmissa og þegar fram kom þrýstingur frá fjársterkum aðilum um að leggja verkefnið niður, sá KFUM sig tilneytt til að gera það opinberlega, þrátt fyrir að þátttakendur hefðu verið á annað hundrað þúsund. Hér kom aðallega til sögunnar síðari krafa ýmissa frumbyggja, um að engum nema frumbyggjum sjálfum sé heimilt að notast við menningu þeirra, sem gerði frekari þróun verkefnisins ómögulega, nema endurhanna það með gersamlega nýju orðfæri, táknum, hefðum og venjum.
Það voru samt ekki allir til í að samþykkja þennan skilning ofangreindra frumbyggja, Vissulega var verkefnið ekki fullkomið en ýmsir, m.a. hófsamari einstaklingar meðal frumbyggja í BNA bentu á að verkefnið hefði haft jákvæð áhrif á áhuga, barna og fullorðina og sögu þeirra og stöðu. Verkefnið hefði leitt ýmsa hópa til þess að heimsækja heimaslóðir þeirra ættbálka sem félag viðkomandi var kennt við og félagsleg verkefni og þjónusta við fáttæk sjálfstjórnarsvæði frumbyggja hefðu í einhverjum tilfellum þróast í tengslum við verkefnið. Vissulega væri verkefnið ekki jafn vel unnið alstaðar, en það hefði samfélagslegt og uppbyggjandi gildi fyrir þátttakendur, það yki áhuga á sögu og stöðu frumbyggja og leiddi til jákvæðra samskipta milli frumbyggja og þátttakenda í einhverjum tilfellum. En hávær þrýstihópur leiddi til þess að KFUM dró sig í hlé.
Þeirri ákvörðun var ekki mætt með þegjandi samþykki alls staðar og hópur þátttakenda og fyrrum KFUM-ara, stofnuðu félagsskap 2002 til að halda verkefninu á lífi, fræðsluefni var aðlagað eftir ábendingum hófsamra frumbyggja, þannig er orðið “indíáni” ekki notað, lögð er áhersla í fræðsluefni á að hópar kynni sér sögu og samtíð þeirra ættbálka sem hóparnir eru kenndir við og svo mætti lengi telja.
En aftur að upphafinu. Ég fór í sumarbúðir með dóttur minni um helgina. Ég kunni ekki mikil skil á hópnum sem var að fara, en hef tekið þátt í verkefnum með þeim áður með dóttur minni. Um helgina var mér kynnt saga þessa verkefnis og hvernig pólítísk rétthugsun kallaði KFUM í BNA til að slaufa verkefni sem gaf á annað hundraðþúsund einstaklingum góðar stundir, en hafði hugsanlega neikvæð áhrif á einhvern hluta tiltölulega lítils hóps. Ég velti fyrir mér hvort ákvörðunin hafi verið rétt. Ég hef eiginlega ekki hugmynd. En hitt veit ég, saga um bleikar borðtenniskúlur er til í sumarbúðum um allan heim.