Ellimerki

Það var hálfkómískt i Helgisiðafræðum hér í Trinity Lutheran Seminary, hvernig besserwisser-fræðin höfðu mismunandi áhrif á fólk. Einhverjum fundust skilaboðin ekki nægilega sterk en öðrum þótti nóg um. Sér í lagi þótti mér skemmtilegt að síðari hópurinn var það fólk sem ég hef náð mestum tengslum við hér í náminu, og e.t.v. ekki undarlegt þar sem einhverjum varð á að tala um þau sem gítarglamrandi sumarbúðafólkið. Þannig er að í námi með mér er nokkur hópur af ungu fólki sem virðist eiga það sameiginlegt að hafa verið í sumarbúðastarfi lengi, vera lágkirkjulegt og fókusera á fræðslu og boðun. Þannig eru allir MALM-nemarnir í skólanum í hópi sumarbúðafólksins (nema ein eldri kona, sem er að mestu í fjarnámi) og eru flest að taka kúrs í Outdoor Ministry á þessu misseri. Kúrs sem var ekki í námskrá en þau fengu einn prófessorinn til að móta með sér. En nóg um það, ég samsama mig með þessum krökkum enda bakgrunnurinn svipaður og ég hélt að hugmyndir okkar um kirkjuna og helgihald væru ekki svo frábrugðnar, en stundum kemur innri maðurinn í ljós.

Eftir að hafa lesið póstinn minn í dag, sá ég mig tilneyddan til að gera alvarlega athugasemd við misnotkun á skrúðanum í íslensku þjóðkirkjunni, við verkefnastjóra helgisiðasviðs þjóðkirkjunnar, og biðja hann um að kanna málið. Ef sumarbúðaliðið í skólanum mínum vissi af því að ég sé að klaga vitlaust framkvæmt helgihald til helgisiðalöggu kirkjunnar þá yrði ég líklega grýttur eða alla vega kastað á varðeld.

Hvort það sé kennsla Dr. Dahill, vígsla mín sem djákni eða einfaldlega aldurinn sem hefur þessi áhrif á mig, er ekki gott að segja. Hins vegar er ljóst að ef ég held þessu áfram, endar með því að svartstakkarnir þurfa að vara sig. Kannski get ég orðið helgisiðaofurhetja – Halldór helgisiðahetja – eða kannski ekki.

One thought on “Ellimerki”

  1. Rétt er að halda því til haga, að helgisiðaglæpurinn sem vísað er til hér að ofan, hefur verið upplýstur og nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir að hann eigi sér stað.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.