Egyptar samtímans

Í tíma í Gamla testamentisfræðum fyrir helgi varð nokkur umræða um grein eftir Norður amerískan frumbyggja, Robert Warrior, sem hafnar því að Exodus sé lesinn sem frelsunarsaga, enda sé enginn frelsun fólginn í meðferð Kananíta. Í tengslum við þessa umræðu var komið inn á orðanotkun í tengslum við BNA sem land frelsisins og hvernig þjóðin liti á sjálfa sig sem Guðs útvöldu þjóð. Mér varð á að segja að Evrópa væri greinilega Egyptaland, enda hefðu pílagrímarnir á leið til BNA komið þaðan og við hefðum sent gyðingana aftur til Ísrael. Mér þótti ég augljóslega nokkuð klár, enda líkingin viðeigandi.

Umræðan hélt þó áfram, talað var um stöðu Egyptalands sem stórveldis í sögunni sem notfærði sér stöðu sína til að kúga smærri þjóðir, hvort sem að sá söguskilningur sé réttur. En alla vega varð kennaranum að orði í umræðum um kúgandi stórveldi að ég færi augljóslega villur vegar í Evróputengingunni minni. Allt hugsandi fólk hlyti að sjá að Egyptaland nútímans væri Bandaríkin.