Á hverjum virkum degi kl. 10:00 er helgihald í Gloria Dei worship center í Trinity Lutheran Seminary. Ég sé ekki fyrir mér að mæta þar daglega, heldur miða við að taka þátt í messunni á miðvikudögum og hugsanlega Taize-stundum á fimmtudögum. Ég ákvað þó sem nýnemi að mæta í gær, enda fyrsta formlega helgistundin á nýju misseri og síðan mætti ég líka í dag.
Það var sérkennilegt að vera við stundina áðan. Hún rifjaði upp fyrir mér tilraunakennt helgihald starfsfólks í Vatnaskógi 2001, en þá taldi ég að sem forstöðumaður væri eitt af hlutverkum mínum að bjóða starfsfólkinu með reglubundnum hætti upp á það sem mér þótti á þeim tíma “ögrandi helgihald. Markmiðið væri að ýta þeim örlítið út fyrir það sem hér í Seminary-inu er kallað “comfort zone í von um að það myndi opna fyrir þeim nýjar leiðir í trúarlífinu og varpa ljósi á nýjar hliðar á þeim Guði sem starfsfólkið játaði. Eitt af því sem við gerðum í helgihaldinu í Vatnaskógi þetta sumar var fótþvottur. Athöfn með djúpa merkingu, vekjandi og ætlað að kalla okkur til þjónustu og skilnings á Kristi sem þjóni allra. Ég hafði á þeim tíma aldrei sjálfur verið viðstaddur slíka stund, en las mér til, leitaði í hefð orthodox kirkjunnar um uppbyggingu stundarinnar og reyndi að búa til andrúm í kapellunni í Vatnaskógi sem hæfði stundinni. Ég man líka að einhverjir treystu sér ekki til að taka þátt og fóru út. Á þeim tíma brá mér svolítið og fannst sem hugsanlega ég hefði ýtt einhverjum of langt út fyrir þægindasviðið trúarupplifana, en lærði í dag að það var ekki endilega svo.
Aftur að stundinni hér í Trinity. Í dag var sem sé “Footwashing. Helgiathöfn, “ritual, sem ég hef ekki verið viðstaddur síðan í kapellunni í Vatnaskógi 2001, svo ég muni. Það er þó ekki víst að ég muni eftir öllu sem ég hef gert síðustu fimm ár.
Það var mjög sterkt að heyra í upphafi stundarinnar í Gloria Dei, upphafsbæn úr Sálmi 51.10-12, sem reyndar var eins og alltaf lokabænin í helgistundinni í Vatnaskógi fyrir rúmum 5 árum. Það var líka sérkennilegt að upplifa það að “geta ekki tekið þátt. Treysta sér ekki til að fara fram og láta þvo fætur sínar, vegna eigin annmarka. Standa í sporum þess sem yfirgaf kapelluna í Vatnaskógi 5 árum fyrr. Ég velti meira að segja fyrir mér að ganga út áður en stundin hófst. Ástæðan ekki trúarleg þó, heldur er ég með opin sár á báðum fótum vegna einhvers konar flugnabits. En vegna þess var ég ekki að fullu með, ég var ekki hluti af helgihaldinu á sama hátt og aðrir. En hvað um það helgihaldið hér í Gloria Dei var einfalt og aðgengilegt að öðru leiti:
Upphafsbæn Sálm 51.10-12
Syndajátning
Syndaaflausn (prestur)
Lestur úr Jh 13.1-17
Fótaþvottur
Þakkarbæn
Blessun