Ríkiskirkja

Sá óvænti atburður gerðist í Keflavík að valnefnd vegna ráðningar prests komst EKKI að einróma niðurstöðu í Keflavík. Meirihluti vildi fá annálaritarann ágæta Skúla Sigurð Ólafsson, en minnihlutinn ákvað að láta reyna á biskup og vísuðu málinu til hans.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Biskupsstofu að biskup muni leggja til við ráðherra að sr. Skúli verði skipaður sóknarprestur í Keflavík.

Í starfsreglum kirkjunnar nr. 735/1998 er kveðið á um að [n]áist ekki samstaða skila valnefndarmenn álitum sínum til biskups sem sker úr og eins að [h]afi ekki náðst samstaða í valnefnd ákveður biskup með hvaða umsækjanda hann mæli að skipaður verði. Þannig er í starfsreglunum frá 1998 gert ráð fyrir að biskup taki sjálfstæða ákvörðun um ráðningu umsækenda en fylgi ekki (endilega) vilja meirihlutans.

Fram hefur komið í fréttum að undirskriftasöfnun sé í gangi og hátt í 3600 manns hafi mótmælt niðurstöðu biskups, reyndar er það hið nýja eðli undirskriftalista að ekki er hægt að sannreyna nöfn á listanum, ekki er notast við kennitölur í tilfelli Keflvíkinganna og hvergi hægt að sjá hvort nafnið manns sé skráð á listann án heimildar. Það sem hins vegar vakti hvað mesta athygli mína var fullyrðing á NFS um að [r]áðherra er því einungis skylt að fara að tillögu valnefndar um hver verði sóknarprestur ef valnefnd er einróma í vali sínu. Svo var ekki í þessu tilfelli og því kemur það í hlut ráðherra að ákvarða hver verður næsti sóknarprestur.

Hér virðast fréttamenn líta svo á að æðsti yfirmaður þjóðkirkjunnar, alla vega þegar kemur að stöðuveitingum sé ráðherra og hann sé ekki háður ákvörðun biskups. Þessi skilningur fjölmiðilsins hlýtur að vera okkur áhyggjuefni sem viljum sjá sem skýrastan aðskilnað ríkis og kirkju. Aðskilnaðurinn felst nefnilega ekki einvörðungu í lagatæknilegum ferlum, sjálfstæði kirkjuþings eða tilfinningu kirkjufólks. Stór hluti aðskilnaðarins felst í hugmyndum þeirra sem standa fyrir utan. Ef almenningi finnst að Kirkjumálaráðherra sé æðsti yfirmaður kirkjunnar og kirkjan hafi sérréttindi umfram önnur trúfélög, þá nýtur hún aldrei sannmælis sem hluti kirkju Krists á jörðu.

Í kirkjusögunni er talað um tímabil Konstantínusar og í dag las ég skemmtilegar vangaveltur um hvort að það tímabil standi enn. Sagan sýni það eitt að valdið hefur í gegnum tíðina flakkað á milli veraldlegra og kirkjulegra yfirvalda en raunverulegur aðskilnaður hafi ekki átt sér stað. Í ljósi þeirra hugmynda sem starfsfólk NFS virðist hafa um samband ríkis og kirkju virðist sem fátt hafi gerst í þeim málum síðan Konstantín gerði kristni að ríkistrú rómverska ríkisins.

Einhvern tímann velti ég tímabili Konstantínusar frekar fyrir mér. Þar er spennandi að skoða hvort því hafi lokið í Þýskalandi með uppgjöri síðari heimstyrjaldarinnar. Eins má spyrja sig hvort Konstantínusi hafi verið úthýst í frönsku byltingunni? Hvort Frakkar hafi fyrstir sagt upp samningnum frá 320 og eitthvað? Hvort “civil-relgion” í BNA (In God we Trust; One nation under god o.s.frv.) sé í raun ekki mjög sambærileg við kristni Konstantínusar? Allt spennandi vangaveltur sem er örugglega svarað einhvers staðar á vefnum.

3 thoughts on “Ríkiskirkja”

  1. Getur einhver útskýrt fyrir mér, hvernig stendur á því að staða sóknarprests er auglýst laus til umsóknar þegar á staðnum er prestur sem hefur áhuga á að vera og söfnuðurinn vill hafa?

  2. Þetta er ekkert spurning um að „finnast“ sem kirkjumálaráðherra sé æðsti yfirmaður kirkjunnar. Lögin valda því að svona hljóma fréttir um stöðuveitingar presta á Íslandi. Valnefnd vísar á biskup, biskup leggur eitthvað til við ráðherra, ráðherra er sá sem skipar í embættið. Hitt er miklu ankannalegra að telja öllum trú um að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi raunverulega átt sér stað og að skipan ráðherra sé því einungis ómerkilegt formsatriði.

  3. Það er hluti af starfsmannastefnu kirkjunnar að auglýsa allar stöður þannig að ALLIR starfsmenn kirkjunnar hafi möguleika á að færa sig til í starfi eða sækja um störf sem losna. Við megum ekki gleyma því Dagný að kirkjan er ekki bara lókalstofnun í Keflavík, hún er miklu stærri vinnustaður en það. Þannig eru rök Drífu Sigfúsdóttur um nauðsyn þess kirkjan gefi fólki tækifæri á að færa sig til í starfi ef vel gengur gild um allflesta umsækendur í Keflavík.

Comments are closed.