Áhugaverð söfnunarleið

Á gasreikningnum mínum í þessum mánuði er boðið upp á spennandi nýjung. Columbia Gas of Ohio hefur tekið upp samstarf við Hjálpræðisherinn og er hægt að styrkja herinn um ákveðna upphæð, sem rennur óskipt til að styrkja efnaminna fólk sem hefur engin úrræði til að greiða gasreikninginn. Gasfyrirtækið lofar að leggja til andvirði $1 á móti hverjum $2 sem gefnir eru. Fram kemur að sjálfsögðu að stuðningurinn sé frádráttarbær frá skatti, eins og allur stuðningur hér í BNA og lofað er að senda yfirlit í janúar ár hvert yfir stuðninginn svo hægt sé að gera grein fyrir honum á skattskýrslunni.

Spurningin er hvort ekki sé rétt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur að taka upp slíkt kerfi, þannig að stutt sé við góðgerðarmálefni sem eru ekki beint á verksviði fyrirtækisins. Þannig væri hægt að bjóða notendum að styðja við rækjueldi þeirra sem minna mega sín, skrifstofuuppbyggingu fyrir starfsfólk orkufyrirtækja eða e.t.v. ljósleiðaravæðingu fyrir ríkari hluta höfuðborgarsvæðins.

Eða er e.t.v. búið að setja upp slíkt kerfi á Íslandi? Nema það að Reykvíkingar ráða ekki hvort og hversu mikið þeir styðja við góðgerðarmálefnin.

2 thoughts on “Áhugaverð söfnunarleið”

  1. Þetta er sniðugt. Ég man eftir átaki fyrir nokkrum árum í Bretlandi eða Bandaríkjunum (minnir mig), þar sem hægt að rúnna af upphæð og gefa “afganginn” til góðs málefnis. Svona nokkuð – hvort sem það væri orkuveituleið eða afgangsleið – væri nokkuð sem mætti beita sér fyrir hér á landi, t.d. í þágu Hjálparstarfs kirkjunnar.

  2. Mig minnir að Mál og menning hafi verið með afgangsleiðina fyrir stuttu síðan. Ég man ekki fyrir hverja eða hvenær það var.

Comments are closed.