Gabb dagsins!

Aprílgabb þeirra Vantrúarseggja er með þeim skemmtilegri sem ég hef séð. Ástæðurnar eru ekki síst þær að gabbið kallar fram sterk viðbrögð, fær fólk til að tjá hug sinn og í einhverjum tilfellum opinbera fordóma sína.

Gabbið er þannig holl ábending til kirkjunnar um þær hugmyndir sem alla vega einhverjir hafa um stöðu hennar (mestmegnis ungir karlmenn á aldrinum 18-35 ára) og ákall til að takast á við þær ranghugmyndir. Þá er og merkilegt að margir tóku gabbið trúanlegt en þó skiljanlegt. Þannig hafa vantrúarmenn sjálfir rætt saman í sínum hópi að sumt sem þeir láta frá sér fara jaðri við lögbrot og/eða fullkomna smekkleysu. Í því samhengi má benda á að Birgir skrifar í athugasemdum hjá Matta að ástæðan séu ákveðnar greinar sem hann nefnir og gefur þannig í skin að hann telji þær á mörkum þess leyfilega.

Eins gefa viðbrögðin í skin að einhverjir fastir lesendur Vantrúar líti svo á að skrif þeirra séu hugsanlega brot á lögum. Enda óhætt að fullyrða að ef ég hefði lokað annálnum mínum í dag og gefið þá skýringu að biskup hefði hótað mér bréflega vegna skrifa minna þá hefðu fáir tekið það trúanlegt.

Þá er auðvitað sérstaklega skemmtilegt að einhverjir vantrúarlesendur séu jafn auðtrúa og raun ber vitni. En þegar allt er tekið saman stendur auðvitað eftir að innlegg þeirra félaga Matta og Birgis er með skemmtilegri aprílgöbbum sem ég hef séð og þeir félagar eiga mikið hrós skilið.

E.s. Ég hef fengið staðfest að færslan birtist ekki á vefnum www.orvitinn.com fyrr en eftir miðnætti, þó dagsetningin gefi annað í skin. Sú ákvörðun þeirra félaga að falsa dagsetninguna er auðvitað umdeilanleg, en skiljanleg.

E.e.s. Þar sem Matti er búin að játa að um aprílgabb sé að ræða er óhætt að birta þessa færslu þó enn séu nokkrar mínútur í miðnætti á Íslandi.

5 thoughts on “Gabb dagsins!”

  1. Ákvörðunin um tímasetningu færslunnar var alfarið mín. Mér fannst þetta annars of augljóst þar sem slóð færslunnar inniheldur dagsetninguna. Það má ekki gleyma því að nýlega hefur ákveðinn einstaklingur ítrekað hotað því að kæra okkur til lögreglu og hefur sent bæði lögreglu og biskupsstofu erindi vegna skrifa okkar. Varðandi lesendur okkar, þá var sett vísun á þetta gabb á b2 og því væntanlega fjöldi fólks sem las þetta án þess að vera reglulegir lesendur Vantrúar. En ég játa það semsagt að dagsetningarfölsunin var vafasöm, en um leið eiginlega nauðsynleg 🙂

  2. Ég held að það hafi komið fáum á óvart að þessi möguleiki væri í raun kominn upp, að þeir yrðu kærðir. Ég var reyndar í vafa um að þjóðkirkjan sjálf hefði lagt fram kæru. Átti frekar von á einhverjum einstaklingi í þesskonar gjörðir. Eitt veit ég og það er að vantrúarmennina dauðlangar að fá á sig kæru. Þeir iða í skinninu eftir að verða kærðir samkvæmt 125gr almennra hegningarlaga en gleyma að það verður mun erfiðara fyrir þá að fá sýknu ef kært er samkvæmt 233.gr.

  3. Þú meinar þessa grein?: [233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.] Vegna kynhneigðar kom inn sem viðbót árið 1996. Þessi lög eru samhljóma dönsku lögunum sem múslímar í Danmörku vilja láta reyna á vegna teikninganna af Muhammeð spámanni. Það væri svo semforvitnilegt að sjá hvað kæmi út úr því að kæra vantru.is en það er í raun í verkahring þess opinbera að gera það, ekki einstaklinga. En eins og allir vita er lítið sem ekkert eftirlit með því hér á landi hvort farið sé eftir lögum eða ekki … (danskur arfur skilst mér)

  4. He he það er líklega rétt. Við erum óttalega löglaus þjóð svona inn við beinið. Reyndar held ég að strangasti dómurinn sem vantrúarmenn fá sé þeirra eigin skrif. Þeir dæma sig nokkurnveginn sjálfir með boðskap sínum.

  5. Þeir dæma sig nokkurnveginn sjálfir með boðskap sínum.

    Já er það ekki bara málið. Skondið samt, í ljósi þessa orða, að afar reglulega eru trúmenn sammála okkur – en þá fyrst og fremst þegar við fjöllum um önnur hindurvitni en þeirra 🙂

Comments are closed.