Í nóvember 2004 var ég á málþingi í Grikklandi um samskipti milli trúarhópa. Málþingið var um margt spennandi og skemmtilegt en um leið reyndi margt á. Eitt af því sem hefur alltaf setið í mér, var “session” þar sem fimm einstaklingar úr hópnum voru fengnir til að velta upp nokkrum spurningum um stöðuna í Evrópu og af einhverjum ástæðum var ég valinn til þátttöku. Umræðan fór vítt og breitt og ég fann að oft átti ég litla samleið með hinum fulltrúunum. Þegar kom að spurningu um hverjar væru helstu hætturnar í Evrópu á næstu árum, komu fjölbreytt svör.
Mest var skiljanlega horft til fátækragildra í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Í tilraun til að koma með nýja vídd í umræðuna reyndi ég að benda á þá hættu sem fælist í pólítískri rétthugsun í velferðarríkjum Evrópu, þar sem um áratugaskeið öll neikvæð umræða hafi verið bönnuð.
Ég reyndi að benda á að sér í lagi í Danmörku væri undirliggjandi pirringur í garð innflytenda og þegar sá pirringur næði upp á yfirborðið fyrir alvöru myndi það valda miklum hávaða og látum, þar nefndi ég sér í lagi hópa eins og þjóðarflokkinn og ef ég man rétt nefndi ég líka umfjöllun Jyllandsposten, en ég mundi eftir biased umræðu þeirra frá því ég bjó í Danmörku 2000-2001.
Hættan sem ég reyndi að benda á fólst í kúgun hinnar pólítísku rétthugsunar, þegar svo léti undan yrði sprenging. Þessir þankar mínir voru tilraun til mótvægis við fátækragildruáhersluna.
Viðbrögðin við þessum vangaveltum mínum voru sterk. Ég man að þýski múslíminn í panelnum horfði á mig og sagði eitthvað á þessa leið: Heldur þú virkilega að það sem gerist í litlu löndunum í Evrópu, þar sem eru örfáir múslimar, geti mótað samskipti kristinna og múslíma til frambúðar?
Eftir þessa athugasemd, hélt ég mig mest til hlés enda ljóst að skoðanir mínar voru að mati þátttakenda barnalegar. Þetta rifjaðist upp fyrir mér fyrr í vetur þegar slagsmálin í Frakklandi voru hvað mest í fjölmiðlum og ég áttaði mig á að líklega skiptu norðurlöndin ekki máli í samskiptum kristinna og múslíma.
Af einhverjum ástæðum flaug mér þetta í hug á ný rétt í þessu, þar sem ég sit og horfi á Tomorrow Never Dies í sjónvarpinu. Hvaða hag ætli Jyllandsposten hafi af styrjaldarástandi?
Góð skrif hjá þér Halldór E. að mestu. Ég skil þó ekki notkun þína á hugtakinu “pólitísk rétthugsun”. Í Svíðþjóð notuðu menn það sem dæmi um að ekki mætti gagnrýna trúarskoðanir manna, né gera grín að minnihlutahópum (hets mot folkgrupp). Þessi lög í Svíþjóð hafa þó gert það að verkum að Svíar hafa sloppið við hinar hrikalegu deilur sem upp eru komnar. Danir hafa hins vegar aldrei látið “politíska rétthugsun” aftra sér. Danski þjóðarflokkurinn, sem byggir á hugmyndum Grundtvig um danskleika (sá einn er Dani sem er afsprengi danskrar moldar, þ.e. fæddur á danskri jörð og getur rekið danskar ættir sínar margar aldir tilbage), hefur rekið mjög innflytjandi-fjandsamlega pólitík árum saman og nýtur mikils stuðnings. Þessi rasíski flokkur hefur stutt dönsku ríkisstjórnina nú í tvö kjörtímabil og skýrir furðulega afstöðu Anders Fogh gagnvart myndbirtingum Jyllandsposten. Framhald
Teikningar birtust þegar í lok september. Allt síðan hafa ráðamenn í múslimaríkjunum gagnrýnt þær, svo sem tyrkneski forsætisráðherrann og egypskir ráðamenn beint við danska ráðamenn. Anders Fogh og dönsk stjórnvöld hafa alltaf neitað að gera nokkuð í málinu og vísað til tjáningarfrelsins (það er nú reyndar ekki meira virt í Danmörku en svo að danski þjóðarflokkurinn vildi allt frá byrjun reka þá múslima úr landi sem hafa hvatt til mótmæla gegn teikningum Jótlandspóstins!). Ástæðan er eflaust áhrif Þjóðarflokksins á stjórnina. Þessi afstaða danskra stjórnvalda hefur svo sannarlega komið þeim um koll. Það er reyndar nokkuð hjálegt að Norðmenn lenda í þessu sama, vegna þess að það var lítt lesið kristið hægri blað sem birti teikningarnar og norskir ráðamenn hafa alltaf gagnrýnt þær. Danir eru þannig að troða Norðmenn með sér ofan í skítinn. Þó er rasismi einnig sterkur í Noregi eins og fylgi norska framfaraflokksins er til vitnis um. Þá er ónefnd þátttaka Dana í Íraksstríðinu …
Ég fer svolítið frjálslega með hugtakið pólítísk rétthugsun en ég er m.a. að vísa til þess að á 8. og 9. áratuginum, komu til Danmerkur fjölda innflytenda, á þeim forsendum að það væri rétt að leyfa þeim að koma. Þetta var gert þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar væri því í raun andsnúið. Hins vegar í þeirri vinstri bylgju sem stjórnaði, var ekki við hæfi frekar en nú í samkynhneigðu-umræðunni að staldra við og spyrja er þetta það sem við viljum. Það er slík pólítísk rétthugsun sem ég er að reyna að vísa til í Danmörku.
Hvað norsarana varðar, þá benti múslímskur Svíi og meistaranemi í Hagfræði sem sat ofangreinda ráðstefnu á merkilega staðreynd. Þrátt fyrir gífurlegar eignir Norðmanna í olíusjóðnum væri Osló einstaklega illa haldið við. Ástæðan væri sú að norðmenn þyrðu ekki að fjárfesta í eigin landi vegna skorts á vinnuafli. Ef þeir nýttu peningana inn í norskt hagkerfi, myndi annað tveggja gerast verðbólguskot eða straumur innflytenda til að vinna í landinu. Það væri betra að láta Osló grotna niður en fá útlendinga inn í atvinnulífið.
Já, ég er farinn að átta mig á því hvernig þú hugsar! Ekki að undra að öðrum þátttakendum á þessari ráðstefnu hafi mislíkað þínar skoðanir, ekki síst múslimum. Þær enduróma nefnilega gagnrýni hægrimanna á að leyfa innflytjendur. Síðan hægri stjórnin komst til valda í Danmörku hafa verið sett þar ströngustu innflytjendalög sem fyrirfinnast í allri Evrópu. Þá styðja Danir og taka þátt í innrásinni í Írak, styðja Bush og Blair án nokkurra “reservationer” í baráttu þeirra gegn “hryðjuverkum” og leyfa guðlast í blöðum sínum. Er nema von að kveikt sé í sendiráðum Dana, í ræðisskrifstofum, fánum og öðru sem danskt er í löndum múslima, og vörur þeirra sniðgengnar? Pólitísk rétthugsun hægrimanna er að gera Dani að pólitísku viðrini í augum heimsins. Þá vil ég frekar biðja um vinstri rétthugsun fyrir þeirra hönd.
Ég er hræddur um að þú misskiljir mig. Í mínum huga er það rétt ákvörðun að opna landamæri ríkja. Osló er ekki spennandi borg í dag, sökum einangrunarstefnunnar sem þar ríkir. Sjálfhverfa Dana er pirrandi. Hins vegar er gagnslaust og í raun vonlaust að sniðganga raunveruleikann. Danir hafa alltaf litið svo á að þeir væru að gera útlendingum greiða, og þannig endurspeglað nýlendustefnu sína. Af þeim sökum hafa þeir ekki skilið mikilvægi innflytenda og þann hagnað sem þjóðfélag þeirra hefur af veru þeirra. Það er í slíkum þjóðfélögum, þar sem hluti íbúanna skilgreinir sig sem merkilegri, mikilvægari, rétthærri. Það er þar sem erfiðleikarnir verði mestir. Þörf þín fyrir að gera mig að hægri öfgamanni er samt skemmtileg. (breytt)
Svo ég haldi áfram að reyna að útskýra mál mitt. Um tveggja áratugaskeið var hægrislagsíðunni í Danmörku haldið niðri, það var ekki rétt að gagnrýna innflytendastefnuna og óánægjan kraumaði. Þegar loks sauð upp úr, þá fáum við ströngustu innflytendalöggjöf í Evrópu, opnum við fyrir árásir á innflytendur, hatursfréttir og ég veit ekki hvað og hvað. Þögnin um þessi mál og tilraunir til að þagga niður í allri gagnrýni, með orðum eins og forneskja, íhaldssemi, þröngsýni. Valda því að skynsöm umræða hefur aldrei átt sér stað. Dönum finnst eins og innflytendur séu allir afætur á samfélaginu og skilja ekki hvað þeir græða. Enda fjallaði umræðan alltaf um að það væri rétt að hjálpa útlendingum sem ættu svo bátt út í heimi.
Svo það er pólitískri rétthugsun vinstri manna í Danmörku fyrir um 20 árum að kenna að upp úr sauð með myndbirtingu skopmyndanna? Er það ekki nokkuð langsótt skýring? Í Íslandi í dag (Stöð 2) var talað við danskan kennara sem sagði Danir almennt vara andvíga pólitískri rétthugsun. Hún vildi hana þó frekar en núverandi ástand. Guðmundur Andri Thórsson tók svo í sama streng í Fréttablðinu í dag. Mín skoðun er sú, eftir að hafa átt heima hinum megin við Eyrarsund í um sjö ára skeið í allt, að Danir hafa miklar tilhneigingar til rasisma. Ég vil kenna hinum elskaða og virta guðfræðingi, Grundtvig og áhrifum hans um þetta, þ.e. vandamálið er um 200 ára gamalt hið minnsta. Svo tímabundið bann á gagnrýni hefur ekkert með málið að gera… Þá hefur pólitískur rétttrúnaður verið við lýði í Svíþjóð í yfir 30 ár. Þar er samblöndun ólíkra kynþátta (integration) einhver sú besta sem þekkist í heiminum (sjá nýlega grein í New York Times um það) og ekkert bólar þar á átökum.