Um aumingjagæsku og hroka

Í orðum Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi í gær felst bæði í senn aumingjagæska og hroki gagnvart kirkjunni.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu, sagði hins vegar að varhugavert væri að setja í lög heimildarákvæði um kirkjulegar vígslur sambands samkynhneigðra án þess að vilji stæði til þess í þjóðkirkjunni. Með því væri í raun verið að stilla kirkjunni upp við vegg. Slíkt teldi hann ekki við hæfi í samskiptum ríkis og kirkju. “Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að við þinglega meðferð frumvarpsins verði þetta atriði skoðað nánar og kallað eftir afstöðu allra hlutaðeigandi. Þá skýrist málið.” (af mbl.is)

Halldór virðist þannig telja kirkjuna varnarlausa stofnun, óhæfa til að takast á við innri málefni og í þörf fyrir að ríkisvaldið verndi hana fyrir sjálfri sér. Í orðum hans felst að án verndar ríkisvaldsins sé kirkjan í miklum vanda. Viðhorf Halldórs ýtir undir þann skilning að kirkjan sé í einhverjum skilning helgisiðastofnun ríkisins, hvorki meira né minna. Hana þurfi að vernda því hún sé aum. Þetta viðhorf að kirkjan geti ekki tekist á við eigin innri mál, lýsa líka miklum hroka, sjálfsagt ekki með vilja, en nafni minn virðist halda að hann sé þess betur komin með aðstoð Alþingis að takast á við vanda kirkjunnar, en kirkjan sjálf.

Nú reynir á kirkjuyfirvöld og allt kirkjunnar fólk að standa upp og hafna þeirri kirkjusýn sem birtist í orðum Halldórs. Kirkjan er þess umkomin að taka afstöðu í réttindabaráttu samkynhneigðra án utanaðkomandi aðstoðar. Afþökkum afskipti ríkisvaldsins. Ef vígslumenn fá rétt til að vígja saman samkynhneigða, þá verður sá réttur að gilda einnig um forstöðufólk trúfélaga, að öðrum kosti verði forstöðumenn einfaldlega slegnir af sem vígslumenn ríkisins í öllum athöfnum.

Það að heimila kirkjunni að annast sumar vígsluathafnir en ekki aðrar, er ekki síðri vanvirðing en að telja kirkjuna varnarlausa stofnun sem ræður ekki við eigin mál.

5 thoughts on “Um aumingjagæsku og hroka”

  1. Ertu að segja að þessi ákvörðun sé ekki að neinu leyti á ábyrgð kirkjunnar? Hefur hún ekki haft neitt með þetta að gera? Hvað gerist ef lögin heimila trúfélögum að gifta samkynhneigða? Fríkirjan og aðrar kirkjur munu samstundin hefja slíkar athafnir en Þjóðkirkjan ekki. Þetta mun því væntanlega koma Þjóðkirkjunni illa því afstaða hennar mun koma í ljós. Ef Þjóðkirkjan fer af stað með þetta mun hún um leið stuða mjög marga innan hennar, bæði presta og leikmenn. Ég er svo vænisjúkur að ég tel meiri líkur en minni að lobbíistar Þjóðkirkjunnar beri töluverða ábyrgð á því að þetta er ekki í lagafrumvarpinu eins og er – en sjáum hvað verður um frumvarpið hjá Alþingi. Kannski verður þessu bætt inn þar.

  2. Það er enginn vafi í mínum huga að til eru áhrifamenn innan kirkjunnar finnst kirkjan aumingjastofnun sem þarf á Halldóri og ríkisstjórn hans að halda. Ég veit að það eru lobbíistar sem telja sig vera að vinna kirkjunni greiða með því að ýta undir þennan sorglega kirkjuskilning sem birtist í orðum Halldórs. Þeim hópi tilheyri ég hins vegar ekki og fæstir aðrir sem ég starfa með frá degi til dags.

  3. Fyrst forstöðumönnum trúfélaga er treyst til að gefa saman gagnelsk pör hví skyldi þeim ekki treyst til vígja samelsk pör? Ekki fæ ég séð að það komi þjóðkirkjunni á nokkurn hátt illa þó að slík lagabreyting yrði gerð og mætti reyndr rökstyðja það með skírskotun til þess að málið er þegar til umfjölluna hjá kirkjunni. Það yrði þá kirkjunnar á ákveða hvort hún vill nýta sér þennan möguleika eður ei. Í dag er staðan hins vegar sú að kirkjunni leyfist ekki að vígja samelsk pör. Það er ólöglegt. Er ekki betra að kirkjan ráði sér sjálf?

  4. Varðandi það að leyfa trúfélögum að annast löggjörning í tengslum við samlíf samkynhneigðra yrði að vera algjörlega skýr heimild til trúfélaga að hafna því að framkvæma slíkan gjörning. Þ.e. lögin þurfa að vera opin en þó ekki þvingandi.

Comments are closed.