Úrskurðarnefndin leggur línur

Það eru tveir þættir í úrskurði Úrskurðarnefndar kirkjunnar í máli Hans Markúsar gegn hinum og þessum sem vekja sérstaka athygli mína. Þar er um að ræða niðurstöður sem gætu haft langvarandi áhrif á starf safnaða í landinu, sér í lagi ef úrskurðurinn er talinn vera stefnumarkandi.

Annars vegar er um að ræða orð í úrskurði um störf Nönnu:

Úrskurðarnefndin telur á hinn bóginn að það hafi verið ámælisvert af hálfu gagnaðila Nönnu Guðrúnar að koma athugasemdum sínum við störf málshefjanda á framfæri við sóknarnefnd með þeim hætti sem hún gerði. Báðir þessir málsaðilar eru vígðir þjónar kirkjunnar. Umkvörtunarefni sín hefði hún átt að bera fyrst undir prófast.

Sami skilningur úrskurðarnefndar kemur auk þess fram í úrskurði um störf sóknarnefndarmanna:

Gagnaðili Nanna Guðrún valdi sóknarnefndarfund sem vettvang fyrir alvarlegar athuga­semdir hennar við störf málshefjanda. Í ljósi þess að hún og málshefjandi eru bæði vígðir þjónar kirkjunnar hefði verið eðlilegra af henni að snúa sér beint til prófasts með athugasemdir sínar, sbr. 26. gr. starfsreglna um prófasta nr. 734/1998.

Þessi niðurstaða er um margt athyglisverð og auðvelt að finna á henni ýmsa vankanta. Þannig hef ég velt fyrir mér hvað hún þýðir í raun. Í því skini útfæri ég ákveðið mál:

Sóknarpresturinn í Grensáskirkju ákveður að bjóða Kristilegu stúdentafélagi að funda í salarkynnum kirkjunnar á laugardögum kl. 20:30-23:00 án endurgjalds. Hann tilkynnir framkvæmdastjóra kirkjunnar ákvörðun sína og bendir á að útvega þurfi kirkjuvörð til að opna og loka. Framkvæmdastjórinn er ekki par hrifinn af ákvörðuninni, telur hana kostnaðarsama og söfnuðurinn hafi hreinlega ekki efni á að greiða kostnaðinn. Ef svo óheppilega vill til að framkvæmdastjórinn er vígður þjónn kirkjunnar, t.d. djákni þá ber honum að vísa málinu til prófasts, en má ekki taka það upp á sóknarnefndarfundi. [Hér er rétt að taka fram að ég vil gjarnan að KSF hittist í kirkjunni og það án endurgjalds, þetta er einvörðungu sett fram sem dæmi.]

Það er auðvelt að sjá í hvílíkum ógöngum hægt er að lenda með þessum skilningi á niðurstöðu sóknarnefnda. Annað tveggja gerist, sóknarnefndir verða gerðar óþarfar og leggjast af sem virkur þátttakandi í lífi og starfi safnaða og við sitjum uppi með kirkju vígða fólksins eða hitt að sóknarnefndir forðist í lengstu lög að ráða vígt fólk til starfa og djáknastéttin reynist andvana fædd.
Önnur niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er í sömu átt.

Greinargerð gagnaðila sr. Friðriks dags. 19. júlí 2004 er stíluð á prófast og afrit hennar var sent til vinnusálfræðings þess sem fenginn var til vinnu í Garðasókn vegna þeirra mála sem þar voru í gangi. Fram kemur í greinargerðinni að hún sé tekin saman að beiðni sóknarnefndar. Úrskurðar­nefnd telur það ámælisvert af hálfu gagnaðila sr. Friðriks að fara að fyrirmælum sóknar­nefndar og taka saman þessa greinargerð. Hann lýtur ekki boðvaldi sóknarnefndar og er ekki starfsmaður hennar. Honum bar því engin skylda til að hlýða þessum boðum sóknar­nefnd­ar um samantekt á greinargerð um samstarf sitt og málshefjanda.

Úrskurðarnefndin telur sem sé að prestar eigi að virða að vettugi beiðni sóknarnefndar um aðstoð í deilumálum. Helstu rökin eru sú að hann lúti ekki boðvaldi nefndarinnar og eigi því að láta vera að gera eins og beðið er um. Rétt er að hér komi fram að ekkert er um að greinargerð sr. Friðriks hafi farið til annarra en prófasts, biskups og vinnusálfræðings sem var ráðinn í tengslum við sáttartilraunir vígslubiskups. Greinargerðin var þannig ekki afhent sóknarnefndinni, hún óskaði einvörðungu eftir að sr. Friðrik tæki saman staðreyndir málsins eins og þær blöstu við honum og sendi til þeirra aðila sem leituðust við að leysa málið.
Þetta er sem sé sama stef og í fyrri athugasemdinni, nema með öfugum formerkjum. Fyrri athugasemdin er að vígt fólk á að láta sóknarnefndir vera, nú blasir við að sóknarnefndir eiga að láta vígt starfsfólk kirkjunnar í friði.
Allir sem vilja sá og skilja, átta sig á að kirkja sem virðir þessar niðurstöður úrskurðarnefndar og leitast við að hlýða þeim á ekki langra lífdaga auðið. Kirkja þar sem sóknarnefndin má ekki heyra um það sem miður fer í starfi safnaðarins og sóknarnefndin má ekki óska eftir aðstoð vígðra þjóna við praktísk úrlausnarefni er veik kirkja. Við slíkar aðstæður er óhætt að segja að hægri höndin megi ekki vita hvað sú vinstri gjörir og það sem verra er, höndunum er gert mjög erfitt um vik að lyfta einhverju saman, því samskiptin eru takmörkuð.

14 thoughts on “Úrskurðarnefndin leggur línur”

  1. Sæll, ég hef einimtt verið að velta þessu fyrir mér. Úrskurðarnefndin er þá einfaldlega að segja að sóknarnefndir séu ekki yfir starfsmönnum sínum ef þeir eru vígðir. Nanna er jú á launum hjá sókninni. Þetta er mjög skrýtið, þannig að ef sóknarnefnd krefst þess að prestur messi alla sunnudaga eins og reglur gera ráð fyrir þá getur hann gefið henni langt nef?

  2. Þetta staðfestir aðskilnað vígðra og leikmanna og að honum er viðhaldið af kirkjuyfirvöldum. Kirkjuskilningurinn sem hér kemur fram er að kirkjan sé valdastofnun og þau völd séu í höndum vígðra. Vígslan er semsagt valdsumboð en ekki sending til þjónustu.

  3. Því miður Ólöf, þá virðist þetta rétt hjá þér. Þrátt fyrir jákvæðar breytingar t.d. í tengslum við fulltrúa á kirkjuþingi og fjölgun leikmanna þar, þá sjáum við enn að staða vígðra er önnur og MEIRI innan kirkjunnar en leikmanna. Við sjáum líka ofuráherslu guðfræðinga á það að fá vígslu til allra mögulegra og ómögulegra starfa sbr. þetta málþing hér.

  4. Mér sýnist hið ágæta félag guðfræðinga vera heldur óraunhæft i bjartsýni sinni á framtíðarstörfum, ef marka má fréttina sem þú, Elli, bentir á. “Trúnaðarprestar til starfa hjá fyrirtækjum…?” Er alvara á bak við þessa umræðu eða eru guðfræðingar orðnir desperat? það er svo sem skiljanlegt miðað við allan fjöldann sem ekki fá embætti. “Trúnaðarprestar hjá fyrirtækjum”? Það væri auðvitað bráðskondið ef biskup Karl vígði séra X til þjónustu hjá Bónus, þessi sami prestur gæti svo leyst af afleysingarprest héraðsprestsins sem jafnframt %er í 27% afleysingarstarfi hjá séra Y en hann er í 3 ára launuðu leyfi. Sóknirnar, sem allar eru meira og minna að drukkna í skuldum og leita leiða til að skera niður safnaðarstarfið, hafa nú varla ráð á því að ráða vígða presta og djákna í stórum stíl. Kannski við gætum leyst málið og vígt organistana, þeir gætu þá sinnt messugjörð og svolítilli sálgæslu í leiðinni. Þá væri líka hægt að spara stórfé!

  5. Spurning til ykkar: Er skýrt í lögum hvernig verkaskiptingu skuli háttað milli sóknarnefndar og sóknarprests? Eða er þetta kafloðið og huglægt eins og svo margt hér í henni veröld?

  6. Þessi umræða er nú nokkuð furðuleg svo ekki sé meira sagt. Elli nefnir tvö dæmi þar sem “gagnaðila” er eitthvað gefið að sök. Málið snýst hins vegar um sóknarprestinn og “aðför” undirmanna hans, djáknanum sérstaklega, að prestinum. Hvernig væri að taka einhver dæmi um hvernig sóknarprestinum er gefið eitthvað ranglega eða óréttlátlega að sök? Elli er jú djákni og virðist vera að verja starfsbróðir sinn. Mér finnst málið einfaldlega vera þannig vaxið að undirmaður er óánægður með yfirmann sinn. Eðlilegt lausn á slíkum vanda er að undirmaðurinn leiti sér að öðrum starfsvettvangi (t.d. með þeim röksemdum að ekki sé hægt að vinna með yfirmanninum). En ég er víst ekki gjaldgengur í þessa umræðu … Eitt að lokum. Hvar er hægt að nálgast þennan úrskurð?

  7. Vissulega er það rétt Torfi að ég er djákni sem vinn í mjög nánum tengslum við sóknarnefnd [og sóknarprest líka, þó það komi þessu máli ekki við]. Þess vegna snerta þessi atriði sem ég bendi á með beinum hætti mitt starf. Ég er með þessari færslu á engan hátt að taka afstöðu til deilnanna í Garðasókn, ég er einvörðungu að benda á tvo dæmi í úrskurðinum sem munu hafa áhrif á starfsemi þjóðkirkjunnar til framtíðar ef þau eru tekin alvarlega.

  8. Já þetta er mjög athyglisverð lesning! Ég fæ ekki betur séð en rótin að vandanum séu samskipti djákna og sóknarprests. Athygli vekur að í niðurstöðu úrskurðarnefndar er djákni gjörsamlega fríaður af öllum ásökunum – og reyndar horft fram hjá sumum þeirra. Það finnst mér ámælisvert enda virðist ágreiningurinn liggja í því að djákni hafi mismunað prestunum í starfi sínu: aldrei í 7 ára “samstarfi” kallað sóknarprestinn að sjúkra- eða dánarbeði en ítrekað kallað prestinn þar að. Hér virðist því vera deilur um prestsverk að ræða og um sálusorgunar- og stjórnunarhlutverk sóknarprestsins sem djákni hafi ítrekað haft að engum – án þess að fá nokkra gagnrýni fyrir. Þetta finnst mér dæmigert fyrir kirkjuna. Deilur um stjórnunar- og skipulagsmál eru sett til hliðar og litið á samstarfsvandamál eingöngu sem persónulegs eðlis. Ekkert er heldur tekið tillit til þess að sóknarpresturinn er yfirmaður djáknans og hún því skyldug að upplýsa hann um störf sín svo sem um andlát í sókninni.

  9. Torfi, ég get tekið undir með þér að þessar fullyrðingar um djáknann eru um margt merkilegar. Hins vegar spyr ég hversu algengt það er að djákni sé við dánarbeð og hafi í sínu valdi að kalla til annan prestinn en ekki hinn. Það er án vafa mjög sjaldgæft. Þá er bent á það í úrskurðinum að djákninn og sóknarprestur hittust vikulega á starfsmannafundum og það verður að ætla að þar hafi farið fram umræða um starfið í söfnuðinum þó sóknarprestinn reki ekki minni til þess. Loks er mikilvægt að fram komi að skv. úrskurðinum og erindisbréfi djákna liggur ekki ljóst fyrir að sóknarprestur sé yfirmaður djáknans og alveg ljóst að djákna ber ekki skylda að upplýsa prestinn um úrlausn einstakra málefna sem djáknanum berast.

  10. Halldór E. Ég man ekki til þess að sagt væri í úrskurðinum að prestur og djákni hittist vikulega á starfsmannafundum. Mig minnir að “sátt” hafi orðið um það að mánaðarlegir fundir skyldu látnir nægja. Að sóknarprestur sætti sig við það sýnir nú frekar sáttarvilja en hitt. Starf djáknans í þessu prestakalli virðist nokkuð sérstakt, fer að öllum líkindum einkum fram á elliheimili eða einhvers konar sjúkrastofnun þar sem andlát eru tíð. Ef satt er að hún kalli prestinn en ekki sóknarprestinn að sjúkra- og dánarbeði, gerir hún sig seka um alvarlega mismunun sem hlýtur að kalla á athugasemdir kirkjustjórnarinnar. Þá kemur ekkert fram í úrskurðinum um yfirmannsstöðu sóknarprestsins og hvort djákninn sé undirmaður eða ekki. Á slíkt er einfaldlega ekki minnst. Ég tel þvert á móti að djákna sé skylt að upplýsa sóknarprestinn um þau málefni sem sóknarpresturinn biður hann. “Þagnarskylda” djákna er ekki skylda gagnvart sóknarpresti. Hins vegar má sóknarprestur ekki fara með þau mál lengr

  11. Það er sjálfsagt rétt Torfi að margt vantar og ýmislegt ósagt í þessum úrskurði. Hvað er satt og hvað gerðist í Garðasókn verður seint útskýrt til fulls. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að úrskurðarnefndin kemst að niðurstöðunni sem er upphaf þessara skrifa sem ég tel mjög merkilega og óraunhæfa.

  12. Ég tel, eftir að hafa lesið yfir úrskurðinn, að þetta mál sýni ekki kærleika að verki innan kirkjunnar, heldur þvert á móti. Þarna er (yfir)maður lagður í einelti, eða réttara sagt frystur úti, útilokaður að mörgu leyti frá sínum embættisskyldum vegna eigin vankunnáttu (verður yfirmaður án nokkurrar prestsreynslu áður) en einnig vegna annarra valdagirni. Þetta mál sýnir einnig hve kirkjan á langt í land með að skapa eðlileg starfsskilyrði fyrir starfsmenn sína. Hér áður voru tíðar sögur af átökum milli presta í tvímenningsprestaköllum. Með núverandi fyrirkomulagi, hierarkíu með sóknarprest sem efstan, prest næstan osfrv, átti að koma í veg fyrir þetta. Það tókst ekki eins og dæmið úr Garðaprestakalli sýnir. Yfirstjórn kirkjunnar þarf því að taka á þessu vandamáli og reyna að sníða þær reglur sem hindra slíkar uppákomur í framtíðinni.

Comments are closed.