Í gær fóru tveir lútherskir prestar þá leið að nota prédikun í guðsþjónustu til að vekja athygli á málstað sem hefur lítið eða ekkert með Jesú Krist að gera. Annar presturinn er starfandi í fríkirkju, hinn er sóknarprestur í þjóðkirkjunni.
Það verður að segjast að prédikun Hjartar Magna var Fríkirkjunni í Reykjavík til minnkunar, sú leið að níða niður stærstu kirkjudeild heims, með froðusnakki og sleggjudómum í prédikunarstól er vanvirðing við kristna kirkju í heild. Vissulega er ýmislegt sem betur má fara í katólsku kirkjunnni, en það á líka við um þjóðkirkjuna (sem Hjörtur hefur svo sem ráðist að) og Fríkirkjuna í Reykjavík. En nei, flísin í auga bróðurins er stærri en bjálkinn í eigin auga. Auðvitað má Hjörtur Magni hafa sínar skoðanir á katólsku kirkjunni, það er að sjálfsögðu í lagi að halda þeim á lofti. En prédikunarstóllinn í almennri guðsþjónustu er ætlaður í annað.
Sú leið að nota prédikunarstólinn í almennri guðsþjónustu safnaðar til að safna liði í persónulegum deilum starfsmanna í söfnuði, er ekki skárra en að ráðast á einstakar kirkjudeildir. Sú aðferð að nota almenna guðsþjónustu sem stuðningsfund við persónulegan málstað sinn og kalla fjölmiðla á staðinn er með ólíkindum dómgreindarlaust. Guðsþjónustan er gerð að vettvangi fyrir persónur, en á sama tíma týnist Guð. Þessi gjörð hlýtur að kalla á tafarlausar aðgerðir kirkjustjórnarinnar. Ég veit vel að herra Karl getur beitt sér og notað vald sitt. Stundum hefur verið þörf en nú er nauðsyn, sóknarprestur sem misnotar almenna guðsþjónustu safnaðarins á þann hátt sem gerðist að mínu viti í gær, á samstundis að fá áminningu.
7 thoughts on “Um hlutverk prédikunnar”
Comments are closed.
Nú heyrði ég hvorki prédikun séra Hjartar né prédikun hins nafnlausa þjóðkirkjuprests, en ég er sammála sjónarmiði þínu um prédikunarstólinn. Það þarf að kenna tilteknum prestum að blogga svo þeir hætti að misnota aðstöðu sína í guðsþjónustunni. Mörg fleiri dæmi mætti tína til. Ég fer t.d. aldrei í Neskirkju til þess að spilla ekki minni góðu geðprýði.
Mér sýnist reyndar í tilviki Fríkirkjunnar, miðað við það sem heyrist útvarpsmessum, að aðalfagnaðarerindið sé í augum fríkirkjuprests hvað aðrar kirkjudeildir á Íslandi eru kolómögulegar og vitlausar. Sem er óneitanlega nokkuð sérstök nálgun á fagnaðarboðskap Jesú Krists og varpar fyrir mér alveg nýju ljósi á orð guðspjallanna!
Svona svona Elli. Fólk má nú ræða um samskiptamál í prédikunarstóli. Á ekki einnig að prédika lögmálið og segja fólki til syndanna áður en það er dregið að landi í kærleika og blíðu? En fyrst farið er að tala um prédikanir þá varð ég ekki mjög hrifinn við lestur þeirrar sem birtist rétt í þessu hér á annall.is. Þar er verið að gera lítið með fáránlega afstöðu kaþólsku kirkjunar undanfarna áratugi til ýmissa mála en þróun nútíma samfélags gagnrýnd harðlega: að kasta fyrir róða gömlum gildum, svo sem að gera kynlíf frjálst sem og fóstureyðingar. Mér finnst alltaf mjög skrýtið að sjá að ein af fárri gagnrýni klerka kirkjunnar varðandi nútímann er á kynferðissviðinu. Frelsið er allt of mikið osfrv. Sjaldan sér maður almennilega vídalínska gagnrýni á peningahyggjuna í samfélaginu og þá spillingu sem fylgir þessi fáranlega frjálsa markaðskerfi sem við erum að bugast undir. Ég hvet prestana til að lesa Vídalínspostillu áður en þeir byrja að semja prédikanir sunnudagsins.
Að sjálfsögðu Torfi á að ræða samskipti milli manna í prédikunarstól og að sjálfsögðu má gagnrýna það sem miður fer úr prédikunarstóli. En þegar það er gert á forsendum sjálfsréttlætingar þess sem prédikar þá minnir það helst á Faríseann sem fer í bænahúsið og segir: “Þakka þér Drottinn fyrir að ég er ekki eins og þessi tollheimtumaður”. Slík nálgun er EKKI kristinn prédikun.
Ég heyrði ekki prédikunina og get því ekki dæmt um hvort presturinn hafi verið að réttlæta sjálfan sig eða ekki. Heyrðir þú hana? Nú eru miklar fréttir af deilum innan kirkjunnar vegna “óhæfra” presta. Ég sem hélt að búið væri að hreinsa þá burtu úr kirkju hinna réttlátu og vammlausu, en svo virðist ekki vera. En kannski eru allar þessar hreinsanir til einskis því hvergi grassera deilur betur en innan kirkna. Gerð hefur verið könnun í Svíþjóð um það í hvaða stofnunum sé versta starfsumhverfið hvað átök varðar. Sænska kirkjan skar sig úr á því sviði. Menn eru auðvitað ekki sammála um ástæðuna, en ég tel sjálfur að þetta sé ekki síst til komið vegna veikrar stöðu prestsins í lútersku þjóðkirkjunum. Söfnuðurinn virðist hafa örlög “leiðtogans” algjörlega á valdi sínu. Hann verður að sitja og standa eins og safnaðarstjórnin vill. Ef ekki þá fer í hart. Já, gildi fulltrúalýðræðisins er stórum ofmetið í nútíma samfélagi. Full þörf er t.d. á að auka vægi presta í stjórnun kirkjunn
Ég er ekki sammála þér hér. Að mínu viti er vandi kirkjunnar hvað starfsumhverfi varðar byggt á miskildum kærleika og bælingu tilfinninga. Þegar núningur myndast er ekki tekið á vandanum, sem við það eykst þangað til ekki fæst við neitt ráðið. Safnaðarstjórnir eru að sjálfsögðu misjafnar eins og prestar, en það er að mínu viti ekki síður einföldun að benda á þær.
Samskiptavandi innan kirkjunnar byggður á misskilnum kærleika og bælingu tilfinninga? Það tel ég fjarri lagi. Miklu frekar á sjálfsréttlætingu og trú á að þú hafi alltaf rétt fyrir þér. Helsta vandamál fólks sem starfar innan kirkjunnar er sá, að það telur sig vera svo kærleiksríkt og elskulegt að það megi haga sér eins og svín – í nafni kærleikans að sjálfsögðu! “Kristilega kærleiksblómin spretta – kringum hitt og þetta.” Vandmálið er ekki það að fólk tekur ekki á vandanum vegna tillitssemi við náungann heldur þvert á móti. Það býr til vandamál þar sem engin eru, einmitt vegna skorts á kærleika. Hræsnin og yfirdrepsskapurinn er hvergi meiri en innan trúarsamfélaga – allt í nafni kærleikans. Ja svei!