Hver á RÚV?

Enn á ný gerast fáránlegir hlutir á Íslandi. Skyndilega er það ekki hlutverk þeirra sem þjóðin kýs almennri kosningu til Alþingis að skipa fólk og halda utan um stefnumótun Ríkisútvarpsins sem er í eigu allra landsmanna heldur starfsmanna þeirrar stofnunar, jafnvel þótt þeir hafi verið ráðnir til annarra starfa. Sá þjófnaður á sameign þjóðarinnar sem átti sér stað í gær, í skjóli hlutleysis og mótmæla við því að stjórnmálamenn ræki hlutverk sitt er til skammar og okkur öllum til minnkunar.

Starfsfólk RÚV á að skammast sín.

16 thoughts on “Hver á RÚV?”

  1. Ef þeir sem eru skipaðir (útvarpsráð er ekki kosið af þjóðinni) standa sig ekki í sínu starfi (velja óhæfan mann á röngum forsendum) þá er það fólksins að standa upp og mótmæla. Ég er stoltur af starfsmönnum fréttastofu RÚV að hafa staðið vörð um eign þjóðarinnar. Og ef það hefði ekki verið ljóst fyrir þá er það alveg ljóst eftir að Auðun Georg lýgur að fréttamanni RÚV að hann var ekki hæfur í þetta starf.

  2. Það eru nánast engar líkur á uppstokkun í rekstri RÚV ef innanhúss aðili er ráðinn í starf sem tengist rekstri stofnunarinnar einfaldlega út af gömlum vinatengslum sem óhjákvæmilega myndast eftir margra ára starf hjá sama fyrirtæki. RÚV hefur enga sérstaka sérstöðu í starfsmannamálum umfram önnur fyrirtæki. Þótt margir hafi unnið þar alla sína tíð þá er það ekkert einsdæmi, Síminn hefur álíka sérstöðu sem og fleiri gömul fyrirtæki. Það er hægt að nýta almannafé mun betur en gert er í dag. Ekkert mál að skilgreina hlutverk stonunarinnar til hlítar og reka hana samkvæmt því en það verður ekki gert nema til verði kallaður einstaklingur sem hefur mjög mikla reynslu af stjórnun og rekstri stórra fyrirtækja.

  3. Rétt er það hjá Gunnari að Útvarpsráð er ekki kosið af þjóðinni, hins vegar er það skipað af Alþingi í samræmi við niðurstöður kosninga til þingsins. Þannig á við um fjöldan allan af nefndum og ráðum hins opinbera og er hin eðlilega leið lýðræðisins. Gjöræðislegar aðgerðir starfsmanna einnar stofnunar eru hins vegar ólýðræðislegar í meira lagi, sér í lagi þegar fyrir liggur að hvatamenn aðgerðanna eru m.a. einstaklingar sem einfaldlega eru reiðir vegna þess að þeir fengu ekki viðkomandi starf. Það er því ljóst að enginn af fréttamönnunum sem haldið hefur verið á lofti sem betri kandídötum en Auðun er hæfur í þetta starf, enda virðast þeir tilbúnir til að beita fréttastofunni grimmt í persónuleg einkastríð.

  4. Vignir, Auðun Georg var ekki ráðinn til að stokka upp reksturinn eða stýra fjármálum. Ef það hefði verið raunin… að ráða ætti rekstrarstjóra… hefði enginn mótmælt. Auglýst var eftir fréttastjóra og það er allt annar handleggur. Myndir þú ekki vilja að sá sem ætti að skera þig upp á skurðdeild sjúkrahúss hefði góða menntun og reynslu í sínu fagi? Myndirðu frekar vilja að hann hefði reynslu af rekstri af því að skera þyrfti niður í heilbrigðiskerfinu? Ef menntun og reynsla í ákveðnu fagi hafa ekkert að segja þegar ráðið er í stöður, hvar erum við þá stödd?

  5. Sigga, þetta er rétt varðandi fréttastjóra en ég er að benda á annan þátt og hér kemur pælingin í heild sinni. Pólitísk ráðning í helstu stöður eru engin ný sannindi og þess vegna kom ráðningin mér ekkert á óvart. Aftur á móti vaknaði upp spurning hjá mér í ljósi gríðarlegs uppgangs hjá helstu fyrirtækjum landsins. Getur verið að starfsfólk hjá RÚV sé einfaldlega hrætt um framtíð sína ? Þessi stofnun hefur verið rekin fyrir almannafé frá stofnun og ekki þurft að rökstyðja rekstur sinn sem neinu nemur. Helstu fyrirtæki landsins hafa aftur á móti verið stokkuð upp, í mörgum tilfellum kallaðir til utanaðkomandi einstaklingar sem hafa heldur betur tekið til hendinni og hreinsað til, endurskipulagt reksturinn frá A til Ö. Að sjálfsögðu hafa starfsmenn verið fluttir til eða jafnvel sagt upp störfum, deildir lagðar niður og annað til að koma rekstrinum í betra horf.

  6. Það eru nánast engar líkur á uppstokkun í rekstri RÚV ef innanhúss aðili er ráðinn í starf sem tengist rekstri stofnunarinnar einfaldlega út af gömlum vinatengslum sem óhjákvæmilega myndast eftir margra ára starf hjá sama fyrirtæki. RÚV hefur enga sérstaka sérstöðu í starfsmannamálum umfram önnur fyrirtæki. Þótt margir hafi unnið þar alla sína tíð þá er það ekkert einsdæmi, Síminn hefur álíka sérstöðu sem og fleiri gömul fyrirtæki. Það er hægt að nýta almannafé mun betur en gert er í dag. það er vel hægt að skilgreina hlutverk stonunarinnar til hlítar og reka hana samkvæmt því en það verður ekki gert nema til verði kallaður einstaklingur sem hefur mjög mikla reynslu af stjórnun og rekstri stórra fyrirtækja. Og sá aðili ræður til starfa fagfólk til að sinna séhæfðum störfum með það að markmiði að rekstur og hlutverk stofnunarinnar skili sem bestum árangri.

  7. Þessi pæling er góð og gild að mörgu leiti. Ég get líka fullyrt það hér og nú að flestir starfsmenn RÚV væru ánægðir með að fá utanaðkomandi aðila sem hefur vit á rekstri í stöður yfirmanna þar sem rekstrinum og peningamálunum er stjórnað. En það væri fáránlegt að fá menn sem eru flinkir stjórnendur stórfyrirtækja til að stýra t.d. dagskrárstefnu tónlistar, leiklistar eða barnaefnis. Svona maður eins og þú ert að tala um ætti að vera framkvæmdastjóri RÚV. Málið er að þeir sem vinna við dagskrárgerð væru meira en til í uppstokkun. Staðreyndin er nefnilega að það er mjög lítið hlutfall starfsmanna að vinna við sjálfa dagskrárgerðina. Því miður. Of mikil yfirbygging.

  8. Og aðeins meira um stöðu fréttastjóra. Ef þú horfir til annarra landa þá er það fyrst um fimmtugt og eftir áratugi í starfi að þú hefur vigt sem fréttamaður. Sjáðu BBC, CNN, DR o.s.frv. Hér á landi er reynsla vanmetin… og æskudýrkun of mikil. Það kemur niður á mörgu hér.

  9. Sammálla Ella. Mér finnst ráðningin mögulega hafa dregið úr trúverðugleika stofnunarinnar og yfirmanna hennar (útvarpsstjóra, útvarpsráðs, ráðamanna o.s.frv.) en framferði fréttamanna hefur eyðilagt trúverðugleika fréttastofunar. Sumir fréttamenn þar á bæ ættu ekki að segja fréttir að mínu mati aftur. Einnig hefur mér þótt umræðan um að fréttamenn séu boðberar sannleikans og hlutleysis hafa algjörlega verið tekin til gjaldþrotaskipta í þessu máli. Greinilegt er að það er ekki bara gott fólk að vinna á ruv heldur alveg fullt af vitleysingum sem æsa hvorn annan upp í einhverri móðursýki. Hvernig hefði t.d. verið að kæra bara ráðninguna fyrst hún hélt ekki vatni?? Ekki myndi telja neinn öfundsverðann af því að stýra þessum hópi eins og málin standa núna. Ef undirmenn ruv eru óánægðir í vinnunni þá er það bara orðin fyrsta frétt kvöld eftir kvöld og umræðuefni í marga kastljós þætti og frétta pistla.

  10. Sigga fellur í þá gryfju að ræða hæfni og óhæfni umsækenda sem er verulega önnur umræða en framkoma starfsmanna RÚV, misnotkun þeirra á þeirri aðstöðu sem þeir hafa sem starfsmenn fjölmiðils. Ef einhver var óánægður með ráðninguna var og er eðlilegast að leggja fram stjórnsýslukæru og láta málið ganga sinn veg. Þær aðferðir sem notaðar voru fólust hins vegar í ofbeldi. Hæfni Auðuns er ekki og á ekki að vera vangavelta þessarar færslu.

  11. Þetta finnst mér afar barnaleg afstaða. Spilling vegna pólitískra ráðninga er ekki innanhússmál. Fréttastofan hefur ávallt fjallað um slík mál þegar um aðrar stofnanir er að ræða… á hún þá að þegja þegar þetta gerist hjá stofnuninni sjálfri? Eins hefur maður ekki heyrt marga kvarta þegar hefur verið þjarmað að mönnum hingað til og þeir látnir standa fyrir máli sínu, samanber Árna Johnsen og kantsteinamálið. Þess ber líka að geta að almenningur ruglar oft saman öllum fjölmiðlunum þegar það hugsar um umfjöllun um ákveðið mál. Aðrir fjölmiðlar en RÚV hafa tekið mun harðar á þessu máli. Ef þú berð saman umfjöllunina á RÚV og Stöð 2 sérðu það greinilega. Hjá Stöð 2 var þetta fyrsta frétt fleiri en einn dag í röð og fékk mun meiri tíma og harðari umfjöllun en hjá RÚV. Fjallað var um málið allan föstudaginn á Talstöðinni… opnað fyrir síma o.fl. Meðan einungis var sagt frá þessu í fréttum á RÚV. Einng var bannað að flytja viðtalið við Auðun Georg í heild í fréttum og öðrum þáttum.

  12. Áfram heldur þú Sigga að minna á meinta vanhæfni Auðuns, sem hugsanlega var til staðar. Hins vegar er ljóst að starfsmenn RÚV gengu langt út fyrir öll mörk í ummælum og hegðun. Að sjálfsögðu nýtti Talstöðin og Stöð 2 málið til að koma höggi á trúverðugleika RÚV, fjölmiðlar hugsa nefnilega fyrst og fremst um sjálfa sig og fjölmiðlamenn fyrst og fremst um eigið skinn. Starfsmenn RÚV beittu í þessu máli kúgunaraðferðum, hótunum og persónuárásum til að fá sitt fram, slíkt er ofbeldi. Þeir misnotuðu sér aðstöðu sína til að taka yfir stofnunina sem var fram til þessa sameign þjóðarinnar. Markús Örn situr í umboði Menntamálaráðherra, þessi menntamálaráðherra situr í umboði þeirra 35 þingmanna mynda meirihluta á Alþingi. Sá meirihluti situr í umboði 90%+ Íslendinga sem kusu í síðustu kosningum. 180 starfsmenn RÚV rændu RÚV í síðustu viku frá þjóðinni.

  13. Hér er rétt og skylt að taka fram að ég er hvorki stuðningsmaður Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokksins og hef skömm á ýmsum framkvæmdum þeirra. Ég hins vegar bý í lýðræðisþjóðfélagi og tel mikilvægt að leikreglum þjóðfélagsins sé fylgt nema almannaheill sé í veði.Ég tel að svo sé ekki í þessu máli.

  14. Ég er heldur ekki stuðningsmaður þeirra flokka né nokkurra annarra flokka. Enda vil ég að fagmennska ráði í þessu máli og öðrum… allt of mikið um að menn gegni stöðum sem þeir ráða ekki við vegna þess að þeir hafi hvorki menntun né reynslu, hafi verið ráðnir vegna pólitísks ferils. Ekki margir sendiherrar með menntun sem hentar starfinu svo ég nefni dæmi. Þetta er mergurinn málsins. Ég er á móti pólitískum ráðningum almennt. Og ég er ósammála því að hér hafi ekki verið farið eftir leikreglum. Sem betur fer er það hluti af því að búa í lýðræðisþjóðfélagi að mega mótmæla og að málfrelsi ríkir. Það er sennilega of mikil bjartsýni að halda að þetta mál verði til þess að pólistískar ráðningar leggist af… eða að þessu kerfi verði breytt í okkar landi… en maður getur vonað að þetta verði skref til þess að það verði allavega að hafa í hávegum kröfur um menntun og reynslu… og fagmennsku, þegar ráðið er í stöður pólitískt.

  15. Ég get ekki gert upp við mig hvert er verst, lygar fráfarandi fréttastjóra, hlutdrægni starfsmanna almenningsfjölmiðils eða dómgreindarleysi útvarpsstjóra. Það er svona stöðvar 2 bragur á þessu.

Comments are closed.