Prédikun Karls á nýársdag – breytt fyrirsögn

Ég ber mjög mikla virðingu fyrir Herra Karli Sigurbjörnssyni. Hann virkar á mig sem góður trúmaður, einlægur, þægilegur í samskiptum, skemmtilegur og á allan hátt öðlingur. Hins vegar verð ég að segja að nostalgían vegna heimavinnandi húsmóðurinnar fer svakalega í taugarnar á mér.

Nú á dögum erum við mitt í stórfenglegri tilraun sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannkyns. Það er heimur þar sem skuldbindingar hjúskapar og foreldrahlutverksins virðast álitnar valkvæðar, og þar sem æ fleiri ábyrgðarsvið foreldra gagnvart börnum sínum eru fengin öðrum- „átsorsað” – eins og það heitir á viðskiptamálinu! Uppeldi og agi, menntun og fræðsla og umhyggja er falin dagmæðrum, leikskólum og skólum og sérfræðingum. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim mikilvægu stofnunum og því góða fólki sem mannar þær. En án atbeina og þátttöku foreldra dugar jafnvel hinn besti skóli og frábærasti kennari skammt. Æ fleiri foreldrar finna sig vanmáttuga í foreldrahlutverkinu og finnst sem þeir ráði ekki við verkefnið. Sjónvarpið og vídeóið og tölvan verða sífellt mikilvægari gæslu- og uppeldisaðilar á heimilum, samtöl milli foreldra og barna verða æ fátíðari. Aldrei nokkru sinni hefur foreldrahlutverkið verið í meira uppnámi en einmitt nú, og aldrei hefur uppeldishlutverk foreldra verið minna metið en nú. Aldrei fyrr hafa eins margir foreldrar yfirgefið börn sín og nú, á mesta velmegunarskeiði Íslandssögunnar.

Ég er óumræðilega þakklátur fyrir þá gæfu að hafa átt móður sem alltaf hafði nógan tíma fyrir mig og hin börnin sín sjö. Hún naut aldrei neinnar umbunar af hálfu þjóðfélagsins fyrir það, sá tími var hvergi talinn og aflaði henni engra réttinda. Hún hefur satt best að segja verið metin sem hver annar ómagi á okkar þjóðfélagi, heimavinnandi húsmóðir. En hvaða verðmætum hefur hún og hennar líkar í raun aflað okkar landi? Og faðir minn, í annasömum verkahring embættis og fræðistarfa hafði alltaf tíma fyrir okkur systkinin. Hvernig var það annars, voru fleiri klukkustundir í sólarhringnum þá?

Ég veit að foreldrar hans voru og eru frábært fólk eins og hann sjálfur. En þegar hann byrjar að gefa í skin að hlutirnir hafi verið betri í gamla daga og sér í lagi vegna þess að konur voru ekki á vinnumarkaði þá er Karl alveg út að aka. Þessu heldur hann á lofti á sama tíma og embættið hans er í kæruferli fyrir brot á jafnréttislögum, þar sem karl var tekin fram yfir konu, þrátt fyrir meiri menntun og reynslu konunnar.

Kirkjan mín er á tíðum vígi íhaldsseminnar á öllum sviðum. Sumum finnst það jákvætt, en á þann hátt er hætt við að kirkjan týnist í fortíðinni og missi af endurkomu Krists eins og gyðingarnir sem sáu ekki barnið í jötunni, því þeir voru of uppteknir við að lesa lögmálið.

33 thoughts on “Prédikun Karls á nýársdag – breytt fyrirsögn”

  1. Já, ég tek undir þetta með þér Elli. Þessi áhersla kirkjunnar og biskupsins á fjölskyldugildin hljómar eins og slítin plata frá 8. áratugnum eða áróður hægri aflanna í dagsins pólitík. En Karl biskup er þó ekki nein karlremba þótt kirkjan hafi valið karl fram yfir konu án tillit til menntunar eða ekki. Þetta er alltaf erið að gera í blessaðri kirkjunni okkar og mjög algengt að konur sé teknar þar fram fyrir karla. Kirkjan fer ofur einfaldlega ekki eftir sínum eigin reglum og er það harla bagalegt fyrir stofnun sem segist standa vörð um siðferðileg gildi. En erindi mitt hér er þó aðallega að furða mig á þessari tilvísun í kirkjulega íhaldssemi. Þar er vísað til ihald.is og jólahugleiðingu sr. Ólafs Jóhannssonar formann Prestafélagsins á síðunni. Þarna er fleira merkilegt að finna t.d. tilraun til réttlætingar á morðinu í Moskunni í Falluja og grein Jóns Vals Jónssonar. Telja prestar það eðlilegt að skrifa á síðum sótsvörtusta afturhaldsafla landsins?

  2. Ég tel reyndar persónulega ekkert að því að prestar dreifi jólahugleiðingum sem víðast. Ég sé ekki að skrif jólahugleiðingar á vefsíðuna ihald.is sé um leið samþykki við öllum skrifum á síðunni.

  3. Ekki það? Ég held það sé nú betra fyrir presta að gæta að á hvernig síðum þeir skrifa. Menn gætu fengið það á tilfinninguna að þeir hefðu svipaðar skoðanir og síðuskríbentar. Þetta á ekki síst við þegar verið er að mæla því bót að innrásarher ræðst inn í guðs hús í herteknu landi og drepur þar menn, sem eru að reyna að verja þetta sama land, eins og hunda. Ja, svei segi ég bara.

  4. Elli, þú bendir á góðan punkt. Ég held, eins og biskup, að við séum á tímamótum, hið gamla fjölskyldumynstur er að hverfa. Nýtt fjölskyldumynstur með tveimur fyrirvinnum er staðreynd. Ég held að næsta kynslóð verði að finna leiðina til þess að láta þetta ganga upp. Það er ljóst að þessi kynslóð, sem biskup stendur fyrir, getur það ekki. Of nostalgísk og of lítið jafnréttissinnuð.

  5. Carlos ég held ekki að gamla mynstrið sé að hverfa. Það er horfið sem raunveruleiki þeirra sem eru að skapa sér fjölskyldu. Því sem næst allar fjölskyldur sem hafa myndast síðustu 20 árin eru því marki brenndar að allir yfir 16 ára aldri eru úti á vinnumarkaði (breytt).

  6. Talandi um ræðu biskupsins og að vera í takti við tímann, þá vil ég vitna í grein um gamla biskupinn, föður þess núverandi, sem var skrifuð fyrir 38 árum. Hann hélt erindi á tímum sem þessum þegar ameríkanar háðu eina af styrjöldum símum, þá í Víetnam. En biskupinn taldi ekki ástæðu þá frekar en nú að fjalla um stríðsrekstur bandamanna okkar í fjarlægum heimsálfum, heldur fjallaði um mikilvægari hluti, um form og ytri búnað kirkju og klerka. Þótti greinarhöfundi vanta þær kristilegu dyggðir, einlægni og hreinskilni, sem voru við hæfi í kirkju Jóns Vídalín: “Það hefur lengi verið mál manna að andi íslensku þjóðkirkjunnar sé kulnaður, enda þótt grafir hennar séu í sífellu kalkaðar á yfirlætisfyllri hátt.” Ótrúlegt hvernig saga er sífellt að endurtaka sig!

  7. Mér finnst nú bara allt í lagi þó biskupinn minni fólk á að það er sjálft ábyrgt fyrir uppeldi barna sinna en ekki þær stofnanir sem það vistar þau á. Og það er nákvæmlega ekkert að því að hann minnist þeirra góðu samverustunda sem hann átti með foreldrum sínum. Það er algjör óþarfi að gefa í skyn að hann vilji konur út af vinnumarkaðnum. Mér finnst þetta góð áminning um að finna jafnvægið milli vinnu og einkalífs og að hlúa vel að því dýrmætasta sem við eigum, börnunum okkar.

  8. Það er rétt Bjartur að áminningin um uppeldið er ágæt sem slík. Það sem hann gerir hins vegar um leið er að tala um nútímann með neikvæðum formerkjum og lofsyngja fortíðina og hina heimavinnandi húsmóður. Ég hefði líklega ekki gert athugasemd við þetta orðalag, hefði ég ekki séð þetta áður hjá Karli, s.s. í hirðisbréfinu hans. Það að gera athugasemdir við nostalgíu Karls um heimavinnandi húsmæður er nefnilega ekki það sama og hafna ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna.

  9. Missti ég af einhverju? Snerist ekki ræða biskups um börnin og hvaða atlætis þau njóta í uppeldinu? Er það ekki almennt viðurkennt í þjóðfélaginu að allt of mörg börn njóta ekki samneytis við foreldra sína eins og æskilegt væri? Karl biskup minntist vissulega með þakklæti þess tilfinningalega atlætis sem hann naut hjá foreldrum sínum. Var það ekki dæmi um mikilvægi tengslanna. Er einhver ástæða til að tala um nostalgíu í hálfgerðu háð í þessu sambandi. Var þetta ekki fyrst og fremst hvatning til foreldra nútímans að huga að hlutverki sínu og finna sameiginlega leiðir til að sinna því vel. Mikilvægi traustrar tengslamyndunar er ofarlega á baugi hjá uppeldis- og sálfræðingum nú umstundir. Þau tengsl myndast ekki án samneytis sem gefinn er tími. Það er svo bullandi smekkleysa að blanda kærumálum í þessa umræðu. Hún snerist um uppeldi og hjúskapartryggð, ekki jafnréttismál.

  10. Sigurður, ég er fullkomlega sammála þér og Karli um að börnum sé gefin tími. Prédikun biskups stendur hins vegar ALDREI í tómarúmi, þegar hann talar um þá góðu tíma þegar mæður voru heima, þá er biskup að tala um jafnréttismál, sér í lagi í því samhengi að allt sé að fara á verri veg.

  11. Rétt er það, Halldór, ekkert er talað í tómarúmi. En túlkun þess sem sagt er er einnig háð þeim tilvísunarramma sem menn grípa til við túlkun á orðum annarra. Þeir sem hér hafa skrifað hafa flestir gripið til tílvísunarramma jafnréttisumræðunnar fremur en tilvísunarramma umræðunnar um uppeldi. Á umbrotatímum glatast oft annað en óréttlæti sem mátti missa sín, svo tel ég vera um tilfinningalegt atlæti of margra barna. Þótt vísað sé til og þakkað fyrir það sem notið var í fortíðinni felur það ekki sjálfkrafa í sér ósk um sömu þjóðfélagshætti og áður heldur ósk um hliðstætt tilfinningaatlæti börnum til handa.

  12. Er ,,bullandi smekkleysa” ekki heldur djúpt í árinni tekið. Hjúskaparmál og tryggðar geta varla verið fjarri jafnréttismálum þegar hingað er komi í mannkynssögunni. Ekki löstum við hlutinn sem móðir Karls valdi sér og hví skyldum við þá lasta hlut þann sem fjöld kvenna í dag velur sér, stundum vegna löngunar til að standa jafnfætis fullgildum og lofuðum vinnukrafti af hinu kyninu (en feður ættu þá að skila sömu nærveru til barna sinna eins og mæður) og stundum út úr neyð vegna peningaírafárs íslensku þjóðarinnar sem ærir óstöðugan og kæfir þann sem minnst má sín.

  13. Ég sum sé held að vandi mannlegs samneytis, og fylgi ég nú öllum helstu frjálsu viðhorfum í því, sé undir álagi vegna miklu stærra samhengis en hjúskapar og fjölskyldutengsla. Vandinn er breiðari, flóknari og getur aldrei verið skoðaður utan valdabaráttu stjórnmálalegra og fjárhagslegra afla.

  14. Ég stend við það að mér finnst það bullandi smekkleysa að draga óútkljáð kærumál inn í þessa umræðu. Í því samhengi sem það er gert verður ekki annað séð en það þjóni þeim tilgangi einum að gera viðhorf biskups tortryggileg. Hann nefnir hvergi að konur skuli hverfa heim af vinnumarkaði, þótt hann þakki það atlæti sem hann naut frá BÁÐUM foreldrum sínum í æsku, þegar þjóðfélagsgerðin var önnur. Það má svo sem gera alla umræðu að jafnréttisumræðu og/eða pólitískri umræðu. En í ræðu biskups velferð barnanna í sviptingum samtímans í fyrirrúmi. Frelsi og réttur foreldra til sjálfsfremdar takmarkast að mínu mati af réttindum barnsins til þess atlætis af hendi foreldra sinna sem verða mega því til farsældar. Það hlýtur að mega vekja máls á uppeldismálum í samtímanum án þess að látið sé að því liggja að menn séu afturhaldsseggir. Í allri jafnréttisumræðunni hefur réttur barnsins til uppeldis legið í láginni að mínu mati.

  15. Ég get svo gjarnan haldið áfram að gefa einkunnir um smekkleysu og með hverjum hætti þakklæti Karls biskups í garð móður sinnar er notað í umræðunni. Mér finnst fyrirsögnin og fleira í spjallinu anga af þeirri lítilsvirðingu sem heimavinnandi húsmæður hafa mátt þola af hendi margra sem láta sig jafnréttismál varða. Það hlýtur að vera hægt að ræða breytta stöðu konunnar í þjóðfélaginu án þess.

  16. Ég get tekið undir þann skilning sem þú leggur í ábyrgð beggja foreldra, skilning sem ég hafði ekki á ræðu biskups þegar ég heyrði hana fyrst. En má vissulega finna í ræðunni ef hlustað er eftir þeim skilningi, en ég heyrði það ekki fyrr en nú. Hugsanlega hafði fortíðarhyggjan í orðunum; Aldrei nokkru sinni hefur foreldrahlutverkið verið í meira uppnámi en einmitt nú, og aldrei hefur uppeldishlutverk foreldra verið minna metið en nú, þessi áhrif. Samanburður biskups á fortíð og nútíð, þar sem hann notar orðin ALDREI FYRR um hið slæma ástand dagsins í dag. Ég og þú vitum báðir að ástandið í velferðarmálum barna hefur SJALDAN verið betra, þó auðvitað megi gera enn betur. Réttur barna, tækifæri til menntunar og lífs hafa ALDREI verið meiri en einmitt núna. Gagnrýni biskups á hina verstu tíma fylgir lausn í orðunum um heimavinnandi húsmóður. Það er þess vegna sem ég hlýt að gagnrýna orð hans.

  17. Óútkljáð kærumál eru náttúrlega ekkert annað en vísbending um að einhverjir vilja láta hlutlausa um að meðhöndla mál sem þeim er um megn að höndla. Þannig get ég ekki séð að það sé svo djúp smekkleysa að nefna það í samhengi við áskorun biskups til þjóðarinnar um að athuga sinn gang í uppeldismálum og hljómar mjög í takt við feðraveldið en hið eiginlega mæðraveldi sem ég dreg ekki úr. Réttur barnsins verður ávallt undir eins og réttur fátækra, geðsjúkra og annarra sem eiga erfitt um vik með að finna málsverjendur. En að hlutur barnsins sé réttur með hlut mæðra sem sóttur er í fallega en gamla ímynd, það getur ekki verið svarið sem leitandi fólk spyr um. Við leitum einfaldlega að svörum sem svara þeim flókna, og alls ekki alvonda, veruleika nútímans. Skilnaðir geta verið vitnisburður um ærið hugrekki eins og allir vita og á stundum hefur það orðið að lífsbjörg barna en kirkjan kallar “að yfirgefa börnin okkar”!! Eru það máklegar málalyktir fyrir þá sem undir sitja?

  18. Í allri jafnréttisumræðunni hefur réttur barnsins til uppeldis legið í láginni að mínu mati.

    Það er staðreynd að réttindi kvenna annars vegar og barna hins vegar hafa oft verið settar fram sem andstæður í jafnréttisumræðu. Þetta sjáum við t.d. í umræðum um fóstureyðingar og umræðuna um heimavinnandi húsmæður. Finnst okkur í lagi að það sé gert? Annars biðst ég afsökunar á fyrirsögn færslunnar og viðurkenni að hún er á smekklaus í ljósi umræðunnar. Henni hefur nú verið breytt. Eins hef ég breytt eigin ummælum sem ég tel að hefði mátt skilja sem vanvirðingu við heimavinnandi húsmæður.

  19. Er eitthvað nýtt í því að kirkjunnar menn rembist við að túlka orð Biskups á jákvæðan hátt þó við blasi að hann hafi sagt einmitt það sem hann sagði ! Þetta hlýtur að vera þægilegt – þegar maðurinn segir eitthvað umdeildanlegt hrópast á staðinn túlkunarsérfræðingar sem keppast við að lesa ummæli Biskups í ljósi krists 🙂 Ég er nokkuð viss um að mín börn njóta meira samneitis við foreldra sína að jafnaði en flest börn á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. A.m.k. umgangast þau föður sinn mun meira en þá tíðkaðist.

  20. “Óútkljáð kærumál eru náttúrlega ekkert annað en vísbending um að einhverjir vilja láta hlutlausa um að meðhöndla mál sem þeim er um megn að höndla.” Þetta er athyglisverð skilgreining, ég myndi frekar segja að kærumál er þegar einstaklingar/lögaðili óskar eftir því að opinbert og óháð dómsvald leysi úr ágreiningi sínum. Það er það sem nú er í farvegi og enginn veit hverjar lyktir þess máls verða. Ég minni á að biskup er saklaus uns sekt hans er sönnuð. Þangað til annað kemur í ljós er ekki smekklegt að nefna að nú sé rekið mál gegn honum og það notað sem röksemd máli til stuðnings.

  21. Erum við bara ekki of upptekin (karlar og konur) við að afla peninga fyrir bráðnauðsynlegum hlutum eins og flugeldum á gamlárskvöld? Á tímabili kom upp sú skoðun varðandi tíma með börnum að magnið skipti ekki máli, heldur gæðin. Síðan var því snúið við og tíminn skipti meira máli. Í þessu hlýtur að vera að meðalvegurinn sé bestur þar sem mætast magn og gæði. Ég þekki dæmi þess að pabbar þekktu varla börnin sín og “vice versa” fyrr á dögum. Margt hefur áunnist, og annað tapast. Þið talið um lítilsvirðingu fyrir “hinni heimavinnandi húsmóður” .. hvað þá um fordóma í garð “heimavinnandi húsfeðra”? Það er svo margt sem hægt er að segja hér, en kvótinn er 1000 orð svo ég er hætt í bili.

  22. Páll, þarna er ég ósammála þér. Biskupsembættið er ekki eins og hver annar einstaklingur. Þegar biskup tjáir sig um jafnréttismál í prédikunarstóli þá hlýtur það að vekja hugrenningatengsl við þá staðreynd að embættið hefur ítrekað legið undir ámæli fyrir að virða ekki jafnréttislög og -áætlanir sem í einhverjum tilvika embættið sjálft hefur sett á laggirnar.

  23. “ítrekað legið undir ámæli”?? Og þú nefnir dæmi sem að ekki er komin niðurstaða í. Við getum ekki gefið okkur niðurstöður fyrirfram. Vinsamlega fræddu okkur um þau síendurteknu og “ítrekuðu” tilfelli sem þú hefur í huga þar sem mál eru nú þegar til lykta leidd því dæmið sem að notast er við nú er ekki hæft til notkunar…allavega ekki strax.

  24. Verð að bæta við.. ég held að gæðin í samskiptum skipti mjög miklu máli! Sjálf ólst ég upp hjá einstæðri móður sem þurfti að vinna 100% vinnu utan heimilis og annað eins innan heimilis. Samt fékk ég fyrirmyndaruppeldi – og hin systkinin fjögur, ólumst upp við virðingu fyrir náunganum, ágætis samræður o.s.frv. ósködduð af dópi og öðrum vímuefnum. Ég er soldið skotin í “gömlum” gildum eins og aga, virðingu, kurteisi = uppeldi og finnst við hafa svolítið runnið á rassinn þar, en “mamman heim” er ekki lausnin á því, í mínum huga.

  25. Mig langar til að skora á Halldór Elías að fræða okkur fáfróða lesendur um nýja uppeldishugtakið “Quality time” eða “gæðastund” og hvaða þýðingu það hefur í nútímanum með tilliti til sambands og samskipta barns og foreldris og hvernig sambandið hefur e.t.v. breyst gegnum tíðina með innkomu “gæðastundar” sem hálfgerðri friðþægingu foreldris gagnvart barninu sínu, hvaða áhrif þetta hefur á barnið til langs tíma litið og einnig hvernig þróun og viðhorf foreldra er til uppeldis erfingja sinna.

  26. Páll, [breytt] ég hyggst ekki skrifa í annála mína lista yfir deiluefni kirkjunnar á sviði jafnréttismála. Ég skal hins vegar í góðu tómu fara yfir nokkur dæmi með þér. Páll, [breytt] þá er ég sjálfur alls ekki hrifinn af gæðastundarhugtakinu þó á tíðum hafi ég grínast með það og tek undir að hugtakið er aðallega tilraun til friðþægingar foreldra.

  27. Halldór, ég leyfi mér að nota e.t.v. ósmekklegt dæmi. Þó að maður sé sakaður um ósiðlegt athæfi í garð konu þá er ekki sjálfgefið að slíkt athæfi hafi farið fram. Ógeð fólks á verknaðnum er svo mikill að allar skýringar að baki eru óþarfar, það dugir að kalla “það var brotið á mér” án nokkurra nánari útskýringa. Í samhengi við þetta litla dæmi mitt að þá virðist sem svo að það sé orðin einskonar regla að ef að karl og kona deila um mannaráðningar, karlinn hefur betur og konan lætur í sér heyra að þá eru það auto-matiskt viðbrögð samfélagsins að halda með þeim sem að segir að á sér hafi verið brotið án þess jafnvel að hafa hugmynd um söguna að baki eða málavaxtalýsingu af neinu tagi. Það er hættulegt. Nákvæmlega þetta viðhorf endurspeglast þegar Halldór ritar: “… embættið hans er í kæruferli fyrir brot á jafnréttislögum, þar sem karl var tekin fram yfir konu, þrátt fyrir meiri menntun og reynslu konunnar.” Með virðingu, vonlítil samlíking hjá þér sem á allan hátt er órökstud

  28. Það dæmi sem nú er í kæruferli er mjög einfalt. Konan sem um ræðir hefur meiri reynslu sem prestur í árum talið, hún hefur starfað í stjórnunarstöðu sem sóknarprestur hinn umsækjandinn ekki. Konan hefur lengra háskólanám að baki. Ekkert þessara atriða þarfnast lögfræðilegs álits. Hér er reyndar rétt að taka fram að báðir einstaklingarnir eru yndislegt fólk, ég er ekki að varpa rýrð á karlmanninn eins frábær og hann er. Hins vegar er hitt alveg ljóst.

  29. Komið þið sælir. Ég rak augun í ummæli Torfa Stefánssonar um íhald.is. Þar sem ég sit í ritstjórn þess vefrits þykir mér rétt að leggja orð í belg. Þar sem skrifin virðast til þess fallin að koma sr. Ólafi Jóhannssyni í óþægilega aðstöðu fyrir að hafa leyft okkur að birta jólahugvekju sína þykir mér rétt að taka fram að sr. Ólafur hefur ekki önnur tengsl við okkur eða vefritið en þau að hafa góðfúslega orðið við beiðni minni um að rita fyrir okkur hugvekju í tilefni jólanna.

  30. Það er nákvæmlega þetta sem ég var að tala um þegar ég segi að fólk setji sjálft sig í dómara sæti og telji sig geta litið hlutlaust á málin. Ef að svo væri þá væri heimurinn allt öðruvísi sem við lifðum í og við þyrftum ekki á neinum úrskurðaraðilum að halda. En við spyrjum að leikslokum…

  31. Torfi, þú staðhæfir jafnframt að í grein sem birtist 20. des sl. sé ,,tilraun til réttlætingar á morðinu í Moskunni í Faluja”. Ég get ekki talað fyrir greinarhöfund en sé nú ekki betur en að í greininni sé fyrst og fremst verið að gagnrýna fréttaflutning af atburðinum enda segir orðrétt í greininni: ,,Það er ekki tilgangur minn hér að taka upp hanskann fyrir þann hermann sem skýtur óvopnaðan mann með köldu blóði. Ekkert réttlætir slíkt morð.” Þér er að sjálfsögðu frjálst að hafa þína skoðun á síðunni en fróðlegt væri að vita hvað það er í skrifum okkar sem þú telur tilefni til að kalla okkur ,,sótsvörtustu afturhaldsöfl landsins.” Auðvitað eru skiptar skoðanir á skrifum okkar eins og öllum pólitískum deilumálum en þarna þykir mér nokkuð fast að orði kveðið. Kveðja, Þorsteinn

  32. Þorsteinn, höfundur greinarinnar á ihald.is: “Morð í Fallujah?” segist ekki taka upp hanskann fyrir morðið í moskunni í Fallujah en gerir það samt með því að vitna í atburð daginn áður er “slasaður hryðjuverkamaður” í sömu mosku skaut á eina bandarísku frelsishetjuna – og var auðvitað drepinn fyrir. Ef þetta er ekki réttlæting fyrir seinna morðinu þá veit ég ekki hvað það hugtak merkir. Þá er athyglisvert að þessi vinur þinn talar um íraskan hryðjuverkamann. Voru búin að fara fram réttarhöld yfir manninum og sýna fram á að hann hafi verið “hryðjuverkamaður”? Eða eru allir sem snúast til varnar gegn innrás hinn morðóðu Kana kannski hryðjuverkamenn í augum ykkar? Þið kennið ykkur sjálfir við ihald (sbr ihald.is). Ertu þá ekki bara stoltur af því að vera kallaður sótsvartasta afturhaldsafl landsins? Svo óska ég þér til hamingju með val á heimildum, þ.e. skýrslu CIA, eins og grein þín um kosningarnar í Úkraínu vitar um.

  33. Eitthvað virðist umræðan vera farin í kross frá því síðast ég leit hér inn. Hvað er flókið? Ræðan umrædda varð mörgum til umhugsunar vegna þeirra skilaboða sem virtust fylgja henni, sum sé þeirri að alnærvera foreldris, sé lausn við vanda nútímabarna og þá sér í lagi móður. Af því vakna hugrenningatengslin við jafnréttishugmyndir kirkjunnar almennt. Þessa umræðu ber að opna og varnarmenn embættisins slá vindhögg að mínu viti hér þegar látið er eins verið sé að agnúast út í mann og ekki málefni. Þetta er málefni sem brennur á mörgum eftir ýmsar uppákomur í samfélaginu síðasta ár sem höggvið hafa nærri jafnréttinu og alls ekki ómaklegt að velta því upp við stofnun og embættismenn sem lætur sér annt um hugök réttlætis og samfélagshyggju. Tónninn þessi mun hins vegar að ég hygg láta hæst í eyrum þeirra sem minnst mega sín og GETA EKKI staðið undir velmegunarkröfum þessum um heimaveru. Eins og fermingartími sömu barna og foreldra sé ekki nóg áminning um vöntunina samt!

Comments are closed.