Fermingar í vetur

Það hringdi kona í vinnuna til mín fyrir hádegi. Hún vildi að ég útskýrði af hverju barnið hennar ætti að fara á Biblíusögunámskeið þegar það gæti farið á siðfræðinámskeið í vetur sem biði upp á virka þátttöku, umræður og þroskandi kennslu. Mér þótti spurningin góð.

Það er merkilegt hvað kirkjan hefur eytt litlum tíma í að kynna hvað fram fer á fermingarnámskeiðunum sínum. Kannski vegna þess að allir vita það, kannski vegna þess að þau eru ekki spennandi. Konan sagði mér að henni hefði dauðleyðst þegar hún var í fræðslunni. Um hefði verið að ræða þriggja tíma prédikun á laugardagsmorgnum. Barnið hennar hefði lítinn áhuga á slíku og því teldu þau að Siðmennt byði betur.

Ég spjallaði við konuna nokkra stund, benti henni á að í fermingarfræðslunni hjá okkur væru líka samræður. Ég lagði áherslu á að öll fræðsla byggði á einhvers konar gildismati og fræðarar hafa sterkari stöðu í slíkum samræðum en börnin, hvort sem þar er um að ræða fræðslufulltrúa kirkjunnar eða Siðmenntar. Að þessu loknu benti ég henni á að þeirra væri valið, ég persónulega liti svo á að fermingarfræðslan í kirkjunni væri góður grunnur til að byggja val sitt á og við í kirkjunni leituðumst við að koma því að hjá börnunum að fermingin væri ábyrgðarfullt val.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í að selja þjónustu kirkjunnar á svipaðan hátt og sölumaður í BT reynir að selja myndbandstæki. Ég fann að samskipti mín við guðleysingja á netinu komu þarna að góðum notum. Getan til að ávarpa áhyggjur kaupandans, það að stuðast ekki af hugmyndum um dugleysi kirkjunnar og svo framvegis.

En svo ég komi aftur að upphafinu. Það er svolítið merkilegt að öll þessi börn skuli fara í gegnum fræðslu kirkjunnar, þegar Siðmennt virðist hafa náð að sannfæra fjölmarga foreldra um að námskeiðið þeirra sé miklu betra (stundum kallað BETA-VHS syndrómið).

3 thoughts on “Fermingar í vetur”

  1. Það er svolítið merkilegt að öll þessi börn skuli fara í gegnum fræðslu kirkjunnar, þegar Siðmennt virðist hafa náð að sannfæra fjölmarga foreldra um að námskeiðið þeirra sé miklu betra

    Af hverju er það merkilegt? Kirkjan hefur gríðarlegt forskot á Siðmennt. Endalausa peninga, gríðarlegan fjölda starfsmanna, trúboð í skólastofum og auk þess hefðina á bak við sig. Auk þess er ég ekkert sannfærður um að Siðmennt hafi tekist að sannfæra fjöldann um þetta, vissulega hljóta allir sem kynna sér málið vandlega að vera á þeirri skoðun, en fæstir kynna sér málin mjög vel. Ég mana þig svo til að rökstyðja af hverju þú telur fermingarfræðslu Kirkjunnar betri en fræðslu Siðmenntar. Gott að heyra að karpið við trúleysingjana skilar einhverju 🙂

  2. Ég held að þarna sé hefðarþátturinn ríkjandi og hann er verulega mun sterkari en aðrir þættir sem þú nefnir.

    Ég mana þig svo til að rökstyðja af hverju þú telur fermingarfræðslu Kirkjunnar betri en fræðslu Siðmenntar.

    Ég er alls ekkert viss um að fermingarfræðsla kirkjunnar almennt sé betri en fræðsla Siðmenntar. Reyndar er ég sannfærður um eigin ágæti sem fermingarfræðara en ég get engan veginn yfirfært það að kirkjuna í heild. Samanburður á þessum tilboðum er mjög flókinn. Þannig er hópurinn á námskeiðum Siðmenntar að líkum einsleitari og því auðveldara að ná árangri. Fjölbreytnin þýðir á sama tíma meiri tækifæri fyrir kirkjuna (vannýtt að vísu).

  3. Ég er alls ekkert viss um að fermingarfræðsla kirkjunnar almennt sé betri en fræðsla Siðmenntar.

    Ok, þetta hljómaði kannski dálítið kuldalega hjá mér, en mig langaði bara að heyra rökstuðning fyrir þessu.

    Þannig er hópurinn á námskeiðum Siðmenntar að líkum einsleitari og því auðveldara að ná árangri.

    Ég þekki ekki mjög mikið til, en ég hef þó heyrt að hópurinn sé ansi fjölbreyttur. Alltaf er eitthvað um trúaða sem fermast borgaralega. En vafalítið er hópurinn einsleitari þar sem allir hinir fara í fermingarfræðslu hjá Kirkjunni. Ég geri ráð fyrir að einhverjir snertifletir séu á fermingarfræðslu Siðmenntar og Kirkjunnar en að mínu mati munar ansi miklu um þegar trúboðinu er sleppt. Ég vil meina að það sé því eðlismunur en ekki stigs á þessu tvennu.

Comments are closed.