Sigur fjármagnsins

Í fjölmiðlum í dag er sagt frá því að Davíð og Halldór hafi náð samkomulagi um að draga íþyngjandi ákvæði í garð fjölmiðla til baka úr fjölmiðlafrumvarpinu. Niðurstaðan hlýtur að vera áfall öllum sem styðja lýðræðislega umræðu og lýðræðislega aðferðafræði hér á landi. Jafnframt er ljóst að um er að ræða gífurlegan áfangasigur auðvaldsins, sem í baráttunni beitti óspart eignum sínum til að koma í veg fyrir lagasetninguna. Þá verður að telja skoðanakannanir annan sigurvegara en forseti Íslands vísaði til þeirra sem grundvallarforsendu ákvörðunnar sinnar þegar hann hafnaði lögunum staðfestingu.

Niðurstaða málsins er sú að lög sem réttkosið Alþingi setti í vor, eru felld úr gildi þar sem forseti Íslands mat skoðanakannanir á þann veg að gjá væri milli þings og þjóðar. Vegna þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna höfðu áhyggjur af þessum sömu skoðanakönnunum og hræddust vald fjölmiðlanna sem þeir voru að reyna að hefta var ákveðið að ógilda lögin að mestu án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reyndar fær eitt ákvæði fjölmiðlalaganna að standa, en um það ákvæði sá ég ástæðu til að tjá mig, í ummælum fyrr á þessu sumri:

Annars er undarlegast í þessu frumvarpi að mínu viti, ofuráherslan á lögfræðinga. Hvað í ósköpunum veldur því að 5 ára háskólanám í textagreiningu geri einhvern hæfan til að vera í útvarpsréttarnefnd?

Ef við setjum núverandi niðurstöðu á blað raunverulega sigurvegara og tapara, eins og stundum er gert, þá lítur listinn svona út (ég sé ekki ástæðu til að skilgreina einstaklinga, enda munu þeir gera það sjálfir):

Sigurvegarar

  1. Fjármagnseigendur
  2. Fyrirtækjasamsteypur
  3. Fjölmiðlar Baugsveldisins
  4. Skoðanakannanir
  5. Lögfræðingar (sem eignast útvarpsréttarnefnd)

Taparar

  1. Alþingi Íslendinga
  2. Almenningur
  3. Lýðræðið
  4. Fjölmiðlar utan Baugsveldisins

15 thoughts on “Sigur fjármagnsins”

  1. Það að stjórnarflokkarnir hafa dregið fjölmiðlafrumvarpið til baka er fyrst og fremst sigur fyrir lýðræðislega umræðu á Íslandi, sigur skoðanafrelsins, en ekki ósigur. Tilraun Davíðs og co til að þagga niður í óþægilegri fjölmiðlarödd hefur misheppnast, sbr. Sturlu Böðvarsson í ræðustól alþingis veifandi miðli sem leyfði sér að gagnrýna forsætisráðherrann. Ég segi bara eins og skáldið: “Þetta er dagurinn sem drottinn gjörði / Fögnum og verum glaðir / á honum”!!!

  2. Eru ekki samkeppnislög í landinu? Má ekki beita þeim á fjölmiðla eins og önnur fyrirtæki? Þarf einhver sérstök lög um fjölmiðla frekar en banka eða bakarí? Svo bullar bóndinn á bæjarhellunni að vanda og segir að allir sem barist hafa gegn fjölmiðlafrumvarpinu gangi erinda Norðurljósa! Er hægt að taka mark á slíkri vænisýki? Ef einhver hefur gengið erinda vissra fyrirtækja og sérstaklega eins,nefnilega Íslenskrar erfðagreiningar h.f., hverra stjórnendur hafa haft milljarða af landsmönnum með vafasömum hætti, þá er það bóndinn sjálfur og einkavinur blekkingarmeistarans sjálfs og skólabróður úr MR.

  3. Ástæða þess að samkeppnislög eru ekki fullnægjandi í þessu tilfelli er einfaldlega eðli fjölmiðla sem valdatækis. Á þessum vef hefur enginn sagt að allir þeir sem berjist gegn fjölmiðlafrumvarpinu gangi erinda Norðurljósa, enda er slíkt barnaleg einföldun. Hins vegar er ljóst að hagsmunir eigenda Norðurljósa voru gífurlegir í þessu máli og þeirra sigur allra stærstur. Ásakanir Arnar í garð Íslenskrar erfðagreiningar eru ekki við hæfi í þessari umfjöllun hér, enda ekki stjórnendum þess fyrirtækis að kenna að græðgisglampinn varð fjölmörgum að falli þegar kom að hlutabréfum í lok síðustu aldar. Ef Örn á við eitthvað annað, þá legg ég til að hann fjalli um það á rökstuddan hátt á öðrum vettvangi.

  4. Ég vitnaði í orð forsætisráðherra sem sagði í fréttum í gær, 21. júlí 2004, alla stuðningsmenn þjóaratkvæðis ganga erinda Norðurljósa. Þessi sami maður gekk erinda þess fyrirtækis sem ég nefndi áðan. Græðgisglampinn varð mörgum að falli segir þú. Já, vissulega ber hver ábyrgð á eigin græðgi. En hver og hverjir settu upp svikamilluna? Ef þetta er of viðkvæmt fyrir þennan vettvang þinn þá verður að að vera svo og ég segi ekki meira um málið hér. En ég hvet menn til að skoða alla myndina hjá þeim sem lengst hafa gengið í einkavinavæðingunni.

  5. Já, ég tek undir með Erni Bárði. Viðbrögð Ella við skrifum hans eru furðuleg. Talar í öðru orðinu um ásakanir í garð ÍE eins og það fyrirtæki sé heilög kú, en stimplar Norðurljós sem auðvaldsfyrirtæki sem notar öll meðöl til að koma í veg fyrir fjölmiðlafrumvarpið. Þetta síðasta er auðvitað ekki “ásakanir”! Þá er fyndið að sjá að Elli telur ekki “taparana”, fjölmiðla utan Baugssamsteypunnar, til fjármagnseigenda og fyrirtækjasamsteypna sem ku vera sigurvegarar í þessum slag. Samkvæmur sjálfum sér?

  6. Torfi, margoft hefur verið bent á hvernig dagblöð Norðurljósa hafa beitt sér gegn fjölmiðlafrumvarpinu og færð rök fyrir því. Ásakanir Arnar í garð ÍE, eru í engu rökstuddar og fráleitt að tengja stjórnendur fyrirtækisins við þá græðgisvæðingu sem átti sér stað á hlutabréfamarkaði 1999-2000, sú þróun varð ALLS STAÐAR og tengdist sprotafyrirtækjum um allan heim. Ef Örn á við eitthvað annað en þetta, þá þarf hann að gera grein fyrir því. Ummælavettvangurinn hér er ekki sá vettvangur. Og Torfi, já, ég er samkvæmur sjálfum mér. Fjármagnseigendur sigra, sama hvað þeir eiga. Einstakir fjölmiðlar utan Baugsveldisins tapa, sama hver eigandinn er. Dæmi um slíka niðurstöðu væri sala Mbl til Norðurljósa (sem virðist heimil).

  7. Rétt er að ítreka að ÍE er fyrir mér á engan hátt heilög kú, enda þekki ég aðeins til fyrirtækisins. Ég get tekið undir með Erni að Davíð hefur beitt sér óeðlilega fyrir fyrirtækið, t.d. með tilraunum sínum til að útvega ríkisábyrgð (sem ESA hafnaði). En að halda því fram að stjórnendur hafi haft milljarða af landsmönnum er furðuleg fráleit og órökstudd fullyrðing.

  8. Elli segir: “Margoft hefur verið bent á hvernig dagblöð Norðurljósa hafa beitt sér gegn fjölmiðlafrumvarpinu.” Vissulega er það rett, en má ég beinda á: 1) Fjölmiðlalögin ná ekki yfir dagblöð. 2) Mogginn beitti sér gegn forsetanum í nýafstöðnum forsetakosningum. Þetta er því ekkert einsdæmi. Vandinn við þessi blessuðu fjölmiðlalög er einmitt sá að þau vernda ekki ritstjórnina fyrir ytri þrýsinti. Það þarf að snýðla lögin þannig að tryggi starfsöryggi og frelsi fjölmiðla. Það verður því nú ver og miður ekki gert með ströngum lögum um eignaraðild, því nú ver og miður. Það þarf að nálgast þetta frá allt annari átt. Og enn hef ég ekki fengið almennilegt svar við því hvers vegna ljósvakamiðlar eru hættulegri en dagblöð. Svolítið skondið í ljósi þess að það eru einmitt dagblöðin sem hafa hvað mest verið gagnrýnd, ekki ljósmiðlarnir, sbr. ummæli Ella hér að ofan.

  9. Elli! Þú talar um furðulega fráleita og órökstudda fullyrðingu Arnar Bárðar, en talar í sömu andrá um “dagblöð Norðurljósa” ;-)) Hvernig væri nú að taka því rólega? Svo virðist sem stjórnvöld vilji sátt um málið – og samvinnu við alla aðila um nýtilegt frumvarp um eign á fjölmiðlum. Eigum við hér á annall.is ekki að fylgja því fordæmi og sýna sáttarhug í umræðunni um þetta mál? Ég fagna því að Örn Báður skuli skrifa hér á þessum vettvangi og vona að hann haldi því áfram. Það getur ekki annað en eflt þessa umræðusíðu.

  10. Rosalega var þessi texti minn hassaður. Það borgar sig svo sannarlega að lesa yfir textann áður en maður ýtir á senda 🙂

  11. LOL Einmitt. Ég ætlaði einmitt að spyrja hvernig lyf eru gefin við svona frjókornaveiki. En það var sum sé hassið….:-)

  12. Rökstuðningur fyrir máli mínu varðandi ÍE liggur þegar fyrir í fréttaflutningi undanfarinna ára. Manstu ekki eftir því þegar allir útlendingarnir seldu íslensku, bláeygu, fjárfestunum, þar með töldum lífeyrissjóðunum, allt sitt hlutafé á háu gengi sem síðan hrundi. Og fyrirtækið sem ÍE stofnaði í Lúx til þess eins og kýla upp gengið á gráa markaðnum, hvað varð um það? Gufaði það ekki upp í einhverri skattaparadís á einhverri eyju í einhverju hafi langt í burtu? Hafa forsvarsmenn ÍE gefið fullnægjandi skýringar á þessu öllu? Svarið er: NEI! Aftur og aftur var spilað með fjölmiðla og sagt frá tímamótauppgötvunum í læknisfræði, næstum hreinum kraftaverkum á sviði vísindanna, að því er virðist til þess eins og hækka gengið. Og hver blés upp þessa sápukúlu með Kára í Perlunni forðum daga, og það áður en þingið hafði tekið gagnagrunnsfrumvarpið til umfjöllunar?

  13. Og hver vann ötullega að því að skaffa þessu fyrirtæki ríkisábyrgð? Og svo voru og eru ráðgjafar í kerfinu, bæði innan læknastéttar og a.m.k. einn hátt settur aðili í einu ráðuneyti sem allir hafa talað máli ÍE gangvart kollegum og öðrum aðilum án þess að geta þess um leið að þeir höfðu fengið að gjöf tugi þúsunda hluta í ÍE á genginu $0,40 sem urðu að milljónum ef ekki milljónatugum. Upplýsingar um hlutabréfaeign eru opinberar. Þetta heitir skv. mínum orðaforða að vera vanhæfur og að sitja klofvega á girðingunni. Um þetta vísa ég til greinar Jóhanns Tómassonar, læknis, í Mbl fyrr í sumar.

Comments are closed.