Skapaði Guð illgresið?

Annað kvöld er KSS-fundur með ofangreindri yfirskrift. Ég var beðinn um að vera ræðumaður á fundinum og nú er illt í efni. Hvernig nálgast maður svona efni í samtali við ungt fólk sem er búið að eyða fyrri hluta dagsins á hnjánum í beðinu.

  1. Ég gæti auðvitað borið saman tvíhyggjuhugmyndir grikkja og Guðshugmynd hebrea. Skoðað andstæðurnar sem virðast blasa við í GT annars vegar og hjá Páli hins vegar þegar kemur að hinu illa.
  2. Ég gæti tekið þann pól í hæðina að allt sé góð sköpun Guðs. Illgresið sé hluti þeirrar sköpunar, af einhverjum sökum á röngum stað í sköpunarverkinu.
  3. Ég gæti látið þau vinna verkefni um gott og illt. Velt þar upp spurningum og látið þau útskýra mál sitt.
  4. Ég gæti nálgast yfirskriftina út frá hugmyndum Thorkild Grosbøll um Guð og reynt að æsa KSS-ingana upp.
  5. Ég gæti kveikt á kerti og spilað Taize-tónlist. Lagt áherslu á Jh 17 og sagt að þrátt fyrir mismunandi skilning getum við öll hvílt í Drottni.

Leiðirnar eru fjölmargar, en fundurinn á morgun. Ef þú hefur hugmynd að nálgun, átt gamla prédikun eða gott fundarefni. Tjáðu þig þá.

8 thoughts on “Skapaði Guð illgresið?”

  1. Hvað er illgresi? Hvaða mælikvarða notum við þegar það er metið hvort tiltekin jurt er illgresi eða góðgresi (ef svo má að orði komast)?

  2. Hvað með að predika trúarlega tilgangshyggju: Guð skapaði illgresið til þess að tryggja ungmennum sumarstörf, því ef ekki væri blessað illgresið þyrfti að halda uppi skólastarfi allt árið. Þetta yrði áreiðanlega stutt kennslustund og gagnleg.

  3. Illgresi er bara nafn sem við gefum ákveðnum jurtum, af því okkur finnast þær ekki fara vel í beðunum okkar. En auðvitað eru engar jurtir “betri” eða “verri” en aðrar, heldur vitnar “illgresið” bara um fjölbreytnina sem þróunin hefur getið af sér. Dæmalaust hvað þessi mannskepna er alltaf viljug að skipta hlutunum upp í “gott” og “illt” eftir því hvað hentar henni.

  4. Ég velti fyrir mér hvernig illgresið myndi passa inn í fyrri sköpunarsöguna í 1M. Það ljóð er eins konar óður til sköpunarinnar allrar og hún er þar lýst góð í heild sinni, illgresið er ekki tekið sérstaklega út og undanskilið yfirlýsingunni: “og sjá, það var harla gott …” Annars er ég (aldrei þessu vant) sammála Birgi, svart-hvít hugsun er ekki æskileg því veröldin í kringum okkur býr yfir “núönsum” sem slík nálgun rangtúlkar alltaf. En ég held nú samt að þetta með illgresið sé örlítið flóknara en bara það hvort eitthvað fer vel í beði eður ei – eru ekki einhverjir eiginleikar viðkomandi jurta sem gera það að verkum að þær eru flokkaðar sem illgresi. Hvernig passa þær t.d. inn í vistkerfið?

  5. Af hverju ættu þær ekki að passa vel inn í vistkerfið, verandi partur af því? Og er ekki maðurinn algjört illgresi frá sjónarhóli þessa gróðurs, alltaf að koma og rífa þetta upp með rótum? Hvernig passar hann inn í vistkerfið frá þeim sjónarhóli? 🙂

  6. Kannski var þetta illa orðað hjá mér, ég var bara að velta því fyrir mér hvernig þessu sambandi jurtanna væri háttað. Auðvitað má líka skoða manninn í þessu samhengi, en mér finnst hitt meira áhugavert í svipinn 🙂

  7. Illgresi er bara jurtir sem eru staðsettar þar sem garðeigendur vilja ekki hafa þær. Plönturnar sjálfar eru ekki illar, hafa meira að segja margar hverjar heilmikið nytjagildi. Sumar henta vel til lækninga og aðrar til matar. Njóli er t.d. ljómandi góður í súpur og jafninga, bara passa að taka ung blöð og ekki mjög rikug.

Comments are closed.