Ríkiskirkjan lifir

Dagur B. Eggertsson er í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Ástæðan er sú að stofna á fimm þjónustumiðstöðvar í hverfum Reykjavíkurborgar til að færa þjónustuna nær íbúum. Það vakti athygli mína að markmið miðstöðvanna er m.a. “efla samstarf stofnanna Reykjavíkurborgar annars vegar og ríkisins hins vegar í hverfunum, s.s. við kirkjuna, lögregluna og heilsugæsluna”.

Það er greinilegt að kirkjan á mikið verk eftir ef ætlunin er að sannfæra almenning um að hún sé ekki hluti af stjórnkerfi ríkisins.

6 thoughts on “Ríkiskirkjan lifir”

  1. Hún er partur af stjórnkerfinu, til dæmis skipar forseti Íslands í biskupsembættið.

  2. Það er rétt, hins vegar er honum óheimilt að ganga gegn niðurstöðu kosninga. M.ö.o. forseti hefur þarna svipað vald og þegar hann afhendir heiðursverðlaun Grímunnar. Honum ber að skipa þann sem kjörinn er. Því eru þessi tengsl ekki stjórnunarleg. þá er búið að afnema þann blett á starfsreglum kirkjunnar að Kirkjumálaráðherra skæri persónulega úr um hver yrði biskup ef tveir yrðu jafnir í kosningum. En á kirkjuþingi 2003 var samþykkt að ef..

    … tveir fá jafnmörg atkvæði skal kosið milli þeirra. Ef fleiri en tveir fá jafnmörg atkvæði skal hlutkesti ráða milli hverra tveggja kosið er.

    Í stað þess sem áður var að ráðherra réði einn og sjálfur.

  3. Mér finnst það jákvætt að í þessum áætlunum sé gert ráð fyrir kirkjunni sem mikilvægum þætti í þeirri þjónustu sem veitt er borgarbúum. Hvað varðar samanspyrðingu hennar við ríkisstofnanir þá væri kannski fróðlegt að horfa til þess með hvaða hætti einkavæðing ríkisstofnana hefur verið kynnt – hversu miklu var t.d. til kostað við kynningu á því að pósturinn væri ekki lengur ríkisstofnun og hvernig var þeim skilaboðum komið á framfæri?

  4. Ég get tekið undir ánægjuna af því að kirkjan sé tekin með inn í þetta módel. Ég hef hins vegar efasemdir um að við eigum að vera þar sem ríkisstofnun. Það er áhugavert að kirkjan hefur lítið gert til að minna á sjálfstæði sitt. Hvort það stafi af peningaleysi eða því að einstaklingar innan kirkjunnar hræðast sjálfstæði, það veit ég hins vegar ekki.

  5. Fróðlegast þætti mér að vita hvernig auknu samstarfi Reykjavíkurborgar við kirkjuna verði háttað. Í hverju felst það eiginlega? Og hvernig munu hinar fimm nýju þjónustumiðstöðvar stuðla að þessu aukna samstarfi? Var þessi ráðstöfun gerð í samráði við kirkjuna eða biskupsembættið?

Comments are closed.