Að vinna illa úr vondri stöðu

Það má Davíð Oddsson eiga að hann er farsæll maður. Eina skiptið sem hann hefur tapað í kosningum, þá hélt hann samt völdum.

En því miður fylgir oft svona mönnum að kunna ekki að tapa og bregðast mjög illa við mótlæti. Því kynnumst við þessa dagana. Sú aðferð að neita Norðurljósum um viðtöl, að velta upp spurningum um breytingar á stjórnarskrá og óheppilegar fullyrðingar hans um vanhæfi Ólafs Ragnars eru allt dæmi um hegðun þess sem kann ekki að tapa.

Þannig virðist mér sem hegðun Davíðs verði fjölmiðlalögunum verulegur fjötur um fót í kosningunum. Reyndar hafa sumir samflokksmenn hans tjáð sig furðulega. Björn Bjarnason hefur ítrekað ráðist að DV, hugsanlega með réttu, en það er samt ekki heppilegt á þessum tímum. Enda hafa Norðurljósafjölmiðlar verið duglegir að spyrða árásir hans við lögin.

Þessi óheppilega hegðun Sjálfstæðismanna, markviss áróður Norðurljósa og almenn þreyta á núverandi ríkisstjórn virðist ætla að skila því að fjölmiðlalögin verða ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar held ég að ummæli Sjálfstæðismanna vegi ekki síst.

7 thoughts on “Að vinna illa úr vondri stöðu”

  1. Við skulum bara vona að það séu fleiri menn eins og þú, Halldór Elías, sem taka málefnalega afstöðu til laganna. 😉

  2. Ég held að þú hafir alveg rétt fyrir þér. Ég velti því jafnframt fyrir mér hvort þú sért að benda á rót vandans: Getur hugsanlega verið að rekja megi þá stöðu sem upp er komin, til sambærilegrar “óheppilegrar hegðunar” stjórnarflokkanna, áróðurs og þreytu? Hvers vegna reynist t.d. svona auðvelt að gera Sjálfsstæðismenn og Davíð tortryggilega í þessu máli?

  3. Án nokkurs vafa er um undirliggjandi vanda að ræða, Davíð hefur gengið lengra og lengra. Það lýsir stjórnarandstöðunni vel að henni mistókst að nota stjórnunaraðferðir Davíðs gegn ríkisstjórninni í síðustu kosningum. Það er ekki fyrr en hún fær utanaðkomandi aðstoð að gagnrýni á Davíð nær í gegn. Við það grípur stjórnarandstaðan tækifærið og tekur þátt í að berja liggjandi mann. Því fjölmiðlum tókst vissulega að berja hann í gólfið. Það sem er hins vegar skrítið er að þörfin fyrir að berja Davíð er málstaðnum yfirsterkari. Ég er svekktur yfir því, mér finnst Davíð ekki verður þess að fórna hugmyndum mínum fyrir tækifæri til að sparka í hann.

  4. Ef fólk vill fara að tala um trúarstef í pólitík þá mætti benda á mjög sterka hliðstæðu á ferli Davíðs Oddsonar og Sáls í Fyrri Samúelsbók.

  5. Ágæt vangavelta Ólafur. Ég held að þetta sé helst til sterk samlýking. En ef við höldum henni áfram okkur til gleði og ánægju. Hver er þá Davíð Biblíunnar? Sá sem veitti Sál hugarró en lenti síðan í ónáð? Hreinn Loftsson kannski eða Jón Ásgeir sjálfur, hver veit?

  6. Góð spurning Halldór. Hver spilar á hörpuna?! Og hver tekur við hinum “karismtíska kyndli”?! Það á kannski eftir að koma í ljós í þeirri valdabaráttu sem verður fyrr eða síðar í Sjálfstæðisflokknum. Verður næsti leiðtogi flokksins ekki sá sem tekur af skarið og lætur rödd sína hljóma óháð því hvað Davíð Oddson segir. Nú er lag, myndi maður halda.

Comments are closed.