Hvar kemur trúin til sögunnar?

Ég er um þessar mundir að vinna að bók fyrir starfsfólk í kristilegu starfi. Bókin er endurútgefin, nokkuð endurbætt. Hér birti ég einn af grundvallartextum bókarinnar.

Forsendur kristilegs starfs

Starfið hefur það að markmiði að gefa fólki kost á því að heyra um Jesú Krist. Um árabil hefur mikill fjöldi einstaklinga komið að starfinu með það að markmiði að uppfylla kristniboðsskipunina. Starfsfólk í dag þarf einnig að leitast við að ná þessu markmiði. Til að slíkt sé hægt þarf starfsfólkið sjálft að hafa góðan skilning á boðskap Krists, játast Kristi og vera tilbúið að flytja fagnaðarerindið áfram.

Sköpunin

Upphafsorð Biblíunnar segja okkur að Guð sé upphaf alls, skapari himins og jarðar. Kristið fólk trúir því að heimurinn eigi sér upphaf og endi, en handan tímans sé kærleiksríkur Guð sem hafi skapað allt og leiti eftir samfélagi við mannkynið. Hlutverk mannsins er að lifa í kærleiksríku sambandi við skaparann.

Um mannskilning Biblíunnar

Strax í sköpunarsögunni er lögð á það áhersla að við erum sköpuð í Guðs mynd. Hver og ein manneskja hefur eilíft gildi í augum skaparans. En við erum ekki aðeins viðfang elsku Guðs, hann hefur kallað okkur til ábyrgðar á sköpun sinni.

Allt mannkyn hefur brugðist þessari ábyrgð og einstaklingurinn hefur sett sjálfan sig í fyrsta sæti. Guð elskar manninn þrátt fyrir brot hans. Með því að gefa sjálfan sig að fullu fyrir aðra hefur Jesús sýnt okkur hvað það merkir vera sannur maður, takast á við ábyrgðina sem viðerum kölluð til að axla. Biblían útskýrir aldrei hvað persóna er, öðruvísi en í samskiptum við aðra. Af því leiðir sá kristni skilningur að við getum aldrei fundið okkar raunverulega sjálf, með því að kafa í okkar innri mann. Við erum sköpuð til samfélags hvort við annað og án samfélagsins erum við ekki þau sem Guð ætlar okkur að vera.

Hið illa

Mannkyn hefur ekki tekist á við ábyrgð sína, heldur fer sínu eigin fram. Það er í senn orsök og afleiðing syndafallsins. Maðurinn ákvað að taka einkahagsmuni sína fram yfir vilja Guðs. Oft er þessi ákvörðun persónugerð í freistaranum, Satan, þeim hinum sama og sagði við Evu:

Er það satt, að Guð hafi sagt?

Með því að persónugera hið illa, er auðvelt að varpa ábyrgð gjörða okkar annað. Slíkar tilraunir eru dæmdar til að mistakast. Við erum ábyrg gjörða okkar og þurfum að takast á við afleiðingar þeirra. Sú ábyrgð sem við berum gagnvart öðrum mönnum verður ekki fjarlægð, hvorki af freistaranum né Guði.

Guð fjarlægir ekki óþægindi og leiðindi, en hann hefur hins vegar lofað að ganga með okkur í gegnum dimma dali erfiðleika og sorgar.

Frelsunin

Með því að axla ekki ábyrgðina sem okkur er falin, höfum við brugðist Guði. Við höfum gengið frá honum á veg villunnar. Til að kalla okkur aftur til samfélags við sig og til að taka á sig brot okkar gagnvart sér, þá gaf hann son sinn til „lausnargjalds fyrir marga“. Jesús sjálfur orðar það svo í samtali sínu við Nikkódemus:

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Þrátt fyrir þessa hreinsun, erum við ekki laus allra mála. Ábyrgð okkar á umhverfinu er söm og skyldur gagnvart náunganum eru enn til staðar. Marteinn Lúther talar um að við séum hvít sem mjöll frammi fyrir Guði og fullkomlega frjáls, en á sama tíma séum við þrælar manna og beri að gera öðrum það sem gott er. Ekki þó til að hljóta himnavist, heldur í þakklæti vegna elsku Guðs til okkar.

Stutt um aðgerðir

Ólíkt flestum stærstu trúarbrögðum heims leggur Jesús á það áherslu að kristnir menn séu menn aðgerða.

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra.

Okkur er ætlað að lifa í samfélagi og kristnir menn eiga að hafa áhrif á það samfélag sem þeir lifa í. Kristnum mönnum er EKKI ætlað að standa hjá með hendur í skauti, heldur þvert á móti. Okkur kemur náunginn við og eigum að gera hvað við getum til að gera líf hans betra.

Stutt um Biblíuna

Segja má að tvær jaðar Biblíustefnur séu mest áberandi í umræðum umskilning kristinna manna Biblíunni og hlutverki hennar. Annars vegar er bókstafshyggjan sem lítur svo á að Biblían sé skrifuð af Guði sjálfum og sem slík sé hún endanlegur mælikvarði í öllum málum. Þessum skilningi fylgir meðal annars sú hugmynd að Sköpunarsaga fyrstu Mósebókar hljóti að vera lýsing á raunverulegum atburðum. Slíkar hugmyndir eiga enga samleið með hugmyndum lútherskrar kirkju. Með slíkum hugmyndum er Biblían gerð að skurðgoði og tignuð sem Guð. Það er hún alls ekki.

Hin hugmyndin byggir á því að Biblían sé gömul og kenningar hennar úreltar. Þessi hugmynd gengur út frá einhvers konar þróunarhyggju sem leggur áherslu á það að maðurinn, hugsanir hans og hugmyndir um heiminn séu fullkomnari og betri í dag en áður, á sama hátt og tækninni hefur fleygt fram. Ekkert bendir til að slíkt eigi við rök aðstyðjast og auðveldlega má benda á að grunnhugmyndir manna um lög og reglur eru þær sömu nú og löngu fyrir ritun Biblíunnar.

Viðhorf lútherskra manna er að Biblían sé vitnisburður um Jesús Krist. Orð hennar verði að lesa með hliðsjón af því. Þannig sé Biblíunni skipt upp í margar bækur sem hver hafi sinn stíl og sínar áherslur, en allar myndi þær samt heild í ljósi Jesú Krists. Þegar við lesum Biblíuna með þetta í huga, reynum við að sjá hvað textinn segir okkur um þann Guð sem skapar og þann Guð sem frelsar. Við biðjum heilagan anda að gefa okkur skilning á Guði, við berum saman það sem við lesum og reynum eftir mætti að setja okkur inn í aðstæður þeirra sem skrifa.Á þennan hátt nálgumst við persónuna Jesús Krist, en ekki lögmál eða gamalt ævintýri.

Heilagur andi

Þriðja persóna guðdómsins hefur oft verið skilin út undan í guðfræði lúthersku kirkjunnar. Þó má segja að orð Jesús Krists í Jóhannesarguðspjalli séu grundvallandi í skilningi lútherskra manna áheilögum anda.

En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

Þannig leggur lútherska kirkjan áherslu á að hlutverk andands sé að minna okkur á og kenna. Það er heilagur andi sem viðheldur trú okkar og byggir okkur upp. Hvað nákvæmlega felst í þeirri uppbyggingu er að mestu látið liggja á milli hluta, en minnt á að ekki er allt Guði þóknanlegt eða eins og stendur í I. Jóhannesarbréfi:

Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana,hvort þeir séu frá Guði.

Um samfélag trúaðra

Sú staðreynd að við erum sköpuð til samfélags við aðra, leiðir óhjákvæmilega til þess að samskipti okkar við Guð eru ekki okkar einkamál. Af þeim sökum þurfum við tækifæri til að eiga samfélag um trú okkar. Þannig þurfum við helgihald í samfélagi með lofgjörð, bænum, lestrum og altarisgöngu. Slíkt helgihald þarf að vera reglulegt.

16 thoughts on “Hvar kemur trúin til sögunnar?”

  1. Upphafsorð Biblíunnar segja okkur að Guð sé upphaf alls…

    Og hvað með það? Hvernig getur skynsamt, fullorðið fólk hrapað sjálfviljugt að þeirri niðurstöðu að Biblían hafi einhvern sannleik fram að færa í þessum efnum?

  2. Hin hugmyndin byggir á því að Biblían sé gömul og kenningar hennar úreltar. Þessi hugmynd gengur út frá einhvers konar þróunarhyggju sem leggur áherslu á það að maðurinn, hugsanir hans og hugmyndir um heiminn séu fullkomnari og betri í dag en áður, á sama hátt og tækninni hefur fleygt fram. Ekkert bendir til að slíkt eigi við rök aðstyðjast og auðveldlega má benda á að grunnhugmyndir manna um lög og reglur eru þær sömu nú og löngu fyrir ritun Biblíunnar.

    Og er Biblían þar af leiðandi sönn? Er það ályktunin sem þú dregur af þessu? Fyrir nú utan það að þetta er kolrangt. Hugmyndir okkar um heiminn *eru* fullkomnari en áður og hugmyndir okkar um lög, reglur og mannréttindi taka öllu því fram sem Biblían nokkurntíma boðar.

  3. Skynsamt fólk þekkir mörk skynseminnar og eins og við höfum rætt getur hún ekki sagt til um það hvað gerðist fyrir upphaf alls. Kristnir menn trúa því að Guð skapi heiminn og raunar hvert andartak.

  4. Grunnhugmyndir manna um lög og reglur hafa ekki breyst svo mjög. Ég vísa í Siðfræði lífs og dauða e. heimspekinginn Vilhjálm Árnason þar sem hann rekur virðinguna, eitt af tveimur greiningartækjum sínum í bókinni, til kristinnar siðfræði. Grunnhugmyndirnar eru m.a. gullna reglan, umhyggjan fyrir hinum minnsta osfrv. Annars er það hlægilegt að tefla nútímamanninum fram sem eitthvað skárri siðaveru en forfeðrunum. Í dag þykir það ekkert tiltökumál að setjast inn í fjögur tonn af stáli, ræsa sprengihreyfil til að færa eina mannveru á milli staða – oftast í fullkomnu tilgangsleysi! Upplýsingarnar sem við höfum snerta ekki við sinnuleysinu og kæruleysinu til náungans.

  5. Æ, hvað þetta var bögglaður texti hjá mér, biðst afsökunar! Ef Elli nennir má hann setja þ.t.g. forsetningar inn þar sem við á. 🙂

  6. Kæri Birgir, þú segir:

    Og er Biblían þar af leiðandi sönn? Er það ályktunin sem þú dregur af þessu? Fyrir nú utan það að þetta er kolrangt. Hugmyndir okkar um heiminn *eru* fullkomnari en áður og hugmyndir okkar um lög, reglur og mannréttindi taka öllu því fram sem Biblían nokkurntíma boðar.

    Og notar þau orð til að mótmæla fullyrðingu minni að grunnhugmyndir um gildi mannsins hafi lítið þróast frá því FYRIR ritunartíma Biblíunnar. Ég tek undir að mannréttindahugmyndir eru meira útfærðar en oft áður, en að þær séu á hærra stigi og þróaðri, slíkt er langt í frá augljóst. Orðum mínum sem þú vísar í, er ætlað að hafna ákveðnum Biblíuskilningi. Þeim er ekki ætlað að sanna annan skilningi. Þannig að, nei, Biblían er ekki sönn vegna þess að hugmyndir manna um lög og rétt eru eldri en Biblían.

  7. Skúli segir:

    Kristnir menn trúa því að Guð skapi heiminn og raunar hvert andartak.

    Ég spyr: Er það skynsamlegt? Halldór E: Afsakaðu ef ég hef gert þér upp skoðanir, en ég gat ekki lesið annað út úr textanum en einmitt þetta. Skoðum það aðeins: Þú segir: “Hin hugmyndin byggir á því að Biblían sé gömul og kenningar hennar úreltar. Þessi hugmynd gengur út frá einhvers konar þróunarhyggju sem leggur áherslu á það að maðurinn, hugsanir hans og hugmyndir um heiminn séu fullkomnari og betri í dag en áður, á sama hátt og tækninni hefur fleygt fram. Ekkert bendir til að slíkt eigi við rök aðstyðjast og auðveldlega má benda á að grunnhugmyndir manna um lög og reglur eru þær sömu nú og löngu fyrir ritun Biblíunnar.” Ertu ekki að gefa þér það að vegna þess að gamlar hugmyndir manna um lög og rétt séu *hugsanlega* sæmilega þroskaðar þá hljóti allt hitt í ritum þeirra að vera satt og rétt líka?

  8. Svo þú skiljir betur hvað ég er að fara þá líttu á þetta hér og þetta hér. Í báðum þessum greinum má finna “lög” þar sem hægt er að taka undir eitt og annað í siðferðilegum efnum. En það gerir hitt bullið ekki sannara.

  9. “Ég spyr: Er það skynsamlegt? ” Það stendur handan skynseminnar. Upphafspunktur sem menn ganga út frá.

  10. Svarið mitt við þessu er einfalt, NEI. Þú svarar þessu einfaldlega sjálfur með dæmunum þínum. Um er að ræða fullkomlega óskylda hluti. Þannig tel ég margt í ritum Plató áhugavert og eiga erindi við okkur í dag, en ég hafna tvíhyggjukenningu hans. Eitt þarf ekki að leiða að öðru. Hvort það sé skynsamlegt að trúa því að til sé skapari er fráleit spurning, þú veist það, ég veit það, Skúli bendir á það ítrekað og fullkomlega óþarft að eyða plássi í slíkt.

  11. Halldór E., mér finnst þessi texti ágætur að flestu leyti, en nokkrar spurningar vöknuðu við lestur kaflanna Stutt um Biblíuna og Heilagur andi. Mér finnst þeir skera sig svolítið úr, t.d. í stílnum (Jesús er t.d. beygður vitlaust í þolfalli og eignarfalli í báðum köflunum). En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að í fyrri kaflanum er afdráttarlaust rekinn fleygur á milli lútersku kirkjunnar og bókstafshyggjunnar með orðunum: Slíkar hugmyndir eiga enga samleið með hugmyndum lútherskrar kirkju. Heldurðu að þetta sé heppilegt orðalag? Er þjóðkirkjan ekki opin fyrir velflestar fríkirkjuhreyfingar landsins? Hvað um samkirkjulegt starf í ljósi þessara orða? Ég hef stundum viljað sjá kirkjuna kveða skýrar á um afstöðuna til bókstarfstrúarhópa, en í seinni tíð held ég að hún hafi notið þess fremur en goldið að vera hófstillt í því efni, því sannleikurinn er sá, að þessu er einmitt öfugt farið: hugmyndir lútersku kirkjunnar eiga enga samleið með bókstafstrúarmönnum.

  12. Guð sem skapari eða enginn Guð eru tveir ólíkir upphafspunktar sem gengið er út frá eins og Skúli bendir á. Það er út frá upphafspunktunum, grunnforsendunum sem við byggjum heimsmynd okkar. Hvort trú á skapara er skynsamleg eður ei veltur þannig á upphafspunktinum. Þannig svara ég: Já, Guð skapari er skynsemi enda grunnur heimsmyndar minnar. Sú mynd yrði marklaus en hans. Svar Guðleysingjans yrði hins vegar: Nei, guð sem skapar er markleysa. Enginn guð er til. Fyrir sæmilega grundvölluðum guðleysingja og hugsandi trúmanni væri þetta lok samtalsins enda sameiginlega umræðufletinum lokað.

  13. Blessaður Binni, takk fyrir að lesa textann. Það er rétt hjá þér að textinn er mjög skarpur þarna. Ástæðan að miklu leiti sú að textinn er skrifaður fyrir hóp sem er í miklum tengslum við fríkirkjuhreyfingarnar og eru í sífelldri glímu vegna þess. Vandi okkar sem tilheyrum lúthersku kirkjunni er að við höfum passað okkur á að stuða ekki og þannig leyft hugmyndum fríkirknanna að vaða uppi án andsvara. Slíkt er miskilið umburðarlyndi. Samkirkjustarf byggir á gagnkvæmri virðingu. Slík virðing kallar báða aðila til að gera grein fyrir skoðunum sínum og krefst þess að mismunandi skoðanir séu virtar, þó þær séu öndverðar okkar eigin.

  14. Svar til Binna (frh.): Bókstafstrúarmenn eru hins vegar ekki allir til í slíka gagnkvæma virðingu. Viðhorfið “Take It or Leave It” er það sem þjóðkirkjan mætir á tíðum og þeirri átt. Það er þó alls ekki algilt og ég vinn og hef unnið mjög náið með frábæru fólki t.d. úr Hvítasunnuhreyfingunni og Veginum.

  15. Þannig svara ég: Já, Guð skapari er skynsemi enda grunnur heimsmyndar minnar.

    Úff, þú hefur þig semsagt yfir spurninguna um skynsemi þess að trúa á skapara með því að innifela skynsemina í þeirri heimsmynd sem gerir ráð fyrir honum. Ég spyr: Hversu skynsamlegt er *það*?

Comments are closed.