Þankar um þungunarrof

Langt fram yfir miðja síðustu öld var það tiltölulega algeng skoðun í evangelískum kirkjum í Bandaríkjunum að líf hæfist við fyrsta andardrátt. Byggði sú nálgun m.a. á hugtakinu lífsandinn sem kemur fyrir margoft í Biblíunni. Við sjáum þessar hugmyndir um lífsmörk endurspeglast m.a. í sálmum á Íslandi.

Einhvern tímann af “einhverri” ástæðu breyttist þessi nálgun í mörgum evangelísku kirkjunum og sönnunartextarnir um upphaf lífs urðu m.a. köllun Jeremía og Sálmur 139, sem virðast leggja áherslu á að Guð þekki okkur áður en við drögum andann í fyrsta sinn. Skilningur sem átti sér vissulega lengri sögu í rómversk katólskri hefð.

Það er nefnilega ekki til staðar einfaldur og einn Biblíulegur eða kristinn skilningur á upphafi lífs, sem afgreiðir umræður um þungunarrof. Nema jú, það er alveg ljóst að hugmyndir um að möguleikinn á að greina hjartslátt fósturvísis í móðurkviði sé mark um líf á sér engar Biblíulegar forsendur. En það er um þessar mundir tískunálgun sumra prédikara hér vestanhafs og sér þess merki í lagasetningu í sumum ríkjum.

Í umræðum um þungunarrof stöndum við því frammi fyrir vali milli þess að þröngva okkar trúarskilningi og túlkun á upphafi lífs upp á aðrar manneskjur eða virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Þegar við höfum í huga að túlkun á upphafi lífs er margbreytileg og Biblían virðist bjóða upp á fleiri en eina túlkun, þá er ég alla vega ekki nógu hrokafullur (lengur) til að krefjast þess að allir fari eftir því sem mér finnst. Eins hef ég tilhneigingu til að treysta fólki til að leitast við að gera það sem það sjálft telur rétt þegar kemur að erfiðum og flóknum ákvörðunum.

Hugmyndum um að stjórnvöld eigi að hafa síðasta orðið um að skerða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga þarf alltaf að nálgast með gagnrýnum huga og spyrja hvaða raunverulegar ástæður liggja að baki inngripinu. Trúarsannindi geta vissulega verið gild ástæða til að taka persónulega afstöðu í fjölmörgum málum og auka réttindi og lífsgæði fólks, en þau eru að öðru jöfnu ekki góð ástæða til að skerða réttindi. Sér í lagi ef trúarsannindi eru notuð til að skerða réttindi þeirra sem aðhyllast aðrar hugmyndir en ráðafólk.