Mikið er talað um Baug Group og yfirráð þeirra í íslensku viðskiptalífi. Hvað það er sem fyrirtækið á og hversu miklu þeir ráða hlýtur að vera áhugaverð spurning.
Fyrir venjulegan Íslending eins og mig eru dagleg samskipti mín við fyrirtækið sem koma fyrst upp í hugann. Hagkaup, Bónus, 10-11, Útilíf, Dótabúðin, Debenhams, TopShop, Miss Selfridge, Zara, Húsasmiðjan, Blómaval og Tæknival eru allt fyrirtæki sem eru að hluta í eigu Baugsmanna.
Meðal annarra eigna má nefna 20% hlut í Smáralindinni, Allianz á Íslandi, 30% hlut í Norðurljósum (Skífan, DV, Fréttablaðið, Stöð 2, Sýn, Fjölvarpið, PoppTV, FM957, Létt, Bylgjan og fleiri), helmingshlut í Verði vátryggingafélagi, hlut í Tryggingamiðstöðinni í gegnum Kaldbak, sömuleiðis hlut í Samherja og húseign í Vatnsmýrinni stundum kölluð BSÍ í gegnum sama fyrirtæki. Aðföng og vöruhótelið Hýsing eru hluti af eignum Baugs.
Baugur á mikið magn húseigna í gegnum Fasteignafélagið Stoðir. Þar má nefna Kringluna, Holtagarða, Spöngina í Grafarvogi, húsnæði flestra 10-11 verslananna, verslunarrými í Grímsbæ, skrifstofuhúsnæði í Glæsibæ, Hótel Loftleiðir, Nordica hótel og húsnæði Eddu miðlunar við Suðurlandsbraut svo eitthvað sé nefnt.
Fjöldi annarra fyrirtækja hefur um tíma heimsótt eignakörfu fyrirtækisins s.s. Lyfja, Icelandair og BabySam. Þess utan eiga þeir Baugsfeðgar fjárfestingafélagið Gaum sem á einhverjar eignir.
Þá eiga Baugur og fyrirtæki þeim tengd í fjölmörgum fyrirtækjum erlendis.