Gunný veltir fyrir sér í ummælum um færsluna Árásir á Erfðagreiningu, hvort hugmyndir annálaskrifara og fleiri um bláeygða sakleysingja, feli ekki í sér vanmat á manneskjum almennt. Það virðist að okkur sé eðlislægt að ganga út frá því að fjöldinn sé fávís.
Ég tel hins vegar að valhæfni okkar sé ekki til staðar, nema valmöguleikarnir séu fyrir hendi. Tilfellið sem nefnt er í ofangreindri færslu hafði sérstök einkenni. Þar tóku sig saman fjölmiðlar, stjórnmálamenn, óháðir sérfræðingar og höfundar flökkusagna og héldu fram sannleika sem engir þorðu að draga í efa, alla vega ekki opinberlega. Allir dáðust því að efninu sem greindi á milli ríkra og fátækra, meðan litli drengurinn var að taka hádegisblundinn.
Þegar gengið var inn í mammonmusterið með silfurpeningana sem fengust fyrir að selja afa gamla, komu óháðu sérfræðingarnir og seldu þér eigin bréf eða bréf óháða bekkjarbróðurs þeirra sem var ráðgjafi í mammonsmusterinu í götunni á móti. Eftirlitið var lítið og þá sjaldan upp komst um svikin, var dómurinn á þá leið að um misskilning hlyti að hafa verið að ræða, enginn sérfræðingur myndi framkvæma svik sem hægt væri að koma upp um.
En stendur þá valið ekki eftir sem áður um það hvort peningunum er varið eða ekki? Eða viljanum til að láta sannfærast af orðfimi þeirra afla sem að sölunni stóðu? Veit ekki. Kannski er ekki til nein vörn gegn viljandi blekkingaröflum önnur en sú að draga hlut sinn til baka eða setja peningana sína í eitthvað annað en gróðafíkn og annað valdabrölt. En það er svo sannarlega val.
Að fara aðra leið en straumurinn, afþakka hagnaðinn er auðvitað fræðilega mögulegt. En krefst slíkt val, við ofangreindar aðstæður, ekki þess að við gefum okkur á vald efahyggjunnar. Fylgifiskur slíkrar efahyggju er fullkomið öryggisleysi, þar sem við höfnum því að taka nokkru sem gefnu. Ég myndi halda að flest forðuðumst við öryggisleysið í lengstu lög.
Þarf nú kannski ekki að vera í ökkla eða eyra. Öryggisleysið getur valdið býsna heilbrigðri varkárni og það er hægt að finna heilmikla öryggiskennd í því að efast. Eins og að reiða sig á aðferð. Þegar kemur að gróðahyggjunni held ég menn verði að vera meira en varkárir, ég held þeir verði að búa sig undir það versta, haga sér eins og við stríðsrekstur og búa sig ævinlega undir hugsanlegan bráðabana. Sumum finnst mest gaman að vera til í slíkum aðstæðum….áhættan og spennan aðal öryggiskenndin eða sælukenndin kannski. 🙂