Örn Bárður sér ástæðu til þess að ráðast harkalega að Íslenskri Erfðagreiningu í ummælum hér á vefsíðu minni fyrir nokkrum dögum. Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi þess félags en sé mig tilneyddan til að svara ummælum Arnar þar sem í þeim felast að mínu mati órökstuddar fullyrðingar og árásir sem ástæða er til að leiðrétta. (Inndregin texti eru ásakanir Arnar.)
Rökstuðningur fyrir máli mínu varðandi ÍE liggur þegar fyrir í fréttaflutningi undanfarinna ára. Manstu ekki eftir því þegar allir útlendingarnir seldu íslensku, bláeygu, fjárfestunum, þar með töldum lífeyrissjóðunum, allt sitt hlutafé á háu gengi sem síðan hrundi. Og fyrirtækið sem ÍE stofnaði í Lúx til þess eins og kýla upp gengið á gráa markaðnum, hvað varð um það?
Hér blandar Örn saman nokkrum atburðum og kemst að þeirri niðurstöðu að eigendur ÍE séu óheiðarlegir. Sú niðurstaða er vafasöm í besta lagi.
Fyrir það fyrsta áttu þessir atburðir sér stað þegar allir, jafnt ríkir útlendingar, ungir verðbréfabraskarar á Íslandi, stjórnarmenn lífeyrissjóða og almenningur sem átti sparifé, trúði því að lausnarorðið fælist í hlutabréfaeign í líftækni- eða tölvuiðnaði, sér í lagi hugbúnaðariðnaði. Þetta var á engan hátt tengt ÍE. Þó það sé vissulega eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem högnuðust á því. Fjárfestar fyrirtækisins í upphafi högnuðust einnig, hluti af þeim útlendingar.
Í ofurtrú á upplýsingaiðnað fjárfestu sveitarstjórnir og lífeyrissjóðir í hlutabréfum á gráa markaðnum þó þeim væri það ÓHEIMILT. Til þess notuðu lífeyrissjóðirnir m.a. skráða hlutabréfasjóði erlendis sem fjárfestu síðan á gráa markaðnum. Með þessu fóru stjórnarmenn lífeyrissjóða á svig við reglur í von um skyndigróða. Þetta var EKKI sök ÍE og vonandi að þeir stjórnarmenn sem þarna tóku þátt endi í fangelsi öðrum til viðvörunar.
Örn vísar til fyrirtækis í Lúxemburg. Það fyrirtæki hafði milligöngu um að selja bréf ÍE annars vegar í eigu erlendra fjárfesta og hins vegar í eigu ÍE sjálfs til íslenskra banka á genginu $17,25 sumarið 1999 sem þótti hagstætt á þeim tíma og er langt frá því ofurverði sem sögur gengu af síðar. Hér má benda á að verð í frumútboði við skráningu á Nasdaq var verðið $18 á hlut og fór á skráningardag upp í $31,50. Af því má sjá á hversu hagstæðu verði íslensku bankarnir keyptu. Eins má nefna að hæsta verð síðustu 12 mánaða er $13,80 sem er 80% af því gengi sem bankarnir greiddu á sínum tíma og m.v. væntingarnar sem einkenndu hátæknimarkaðinn um aldamótin er það ekki mikil rýrnun.
Söluhagnaðurinn af bréfunum rann til frumfjárfestanna sem voru erlendir það er rétt. Þeir héldu reyndar a.m.k. helmingi bréfa sinna, en einnig seldi ÍE eitthvað af eigin bréfum og tekjurnar af því fóru í að borga laun á Íslandi (fyrir utan commision sem lúxemburgskt ráðgjafafyrirtæki fékk fyrir aðstoð við söluna).
Þessi bréf sem bankarnir keyptu á $17,25 seldu þeir til bláeygðra viðskiptavina sinna. Hagnaður áframhaldandi sölu rann allur til íslensku bankanna, m.a. Íslandsbanka, FBA, Búnaðarbanka og Landsbanka. Væntanlega hafa einhverjir útlendingar nýtt sér tækifærið þegar bankarnir prönguðu bréfunum inn á viðskiptavini sína, en hér er ekki við stjórnarmenn ÍE að sakast. Glæpurinn í þessu ferli ef einhver er, var bankanna sem notuðu traust viðskiptavina sinna til að tryggja sjálfum sér söluhagnað.
Gufaði það ekki upp í einhverri skattaparadís á einhverri eyju í einhverju hafi langt í burtu? Hafa forsvarsmenn ÍE gefið fullnægjandi skýringar á þessu öllu? Svarið er: NEI!
Hér vísar Örn til ráðgjafarfyrirtækis í Lúxemburg. Skv. fréttum m.a. DV og skráningu ÍE á Nasdaq virðist vera sem áður nefnt fyrirtæki hafi annast milligöngu um sölu hlutabréfa ÍE til íslensku bankanna. Þegar fréttir frá þessum tíma eru skoðaðar og spurst fyrir kemur hins vegar í ljós að Hannes Smárason og Kári Stefánsson virðast hafa annast þessa milligöngu sjálfir. Þannig töldu bankarnir að þeir hefðu samið beint við ÍE, sem augljóslega var ekki rétt. Það virðist blasa við að Hannes og/eða Kári voru í þessum viðskiptum fyrir hönd lúxembúrgska ráðgjafafyrirtækisins, þó svo hafi viljað til að þeir væru á sama tíma starfsmenn ÍE. Hér er ekkert ólöglegt á ferðinni heldur umfram allt óheppilegt. Hafi launagreiðslur þeirra frá ráðgjafafyrirtækinu ekki verið gefnar upp, sem ég hef ekki hugmynd um, þá er þar fyrst um glæp að ræða.
Aftur og aftur var spilað með fjölmiðla og sagt frá tímamótauppgötvunum í læknisfræði, næstum hreinum kraftaverkum á sviði vísindanna, að því er virðist til þess eins og hækka gengið.
Enn á ný er hér um einkenni nýja hagkerfisins að ræða. Ég varð einu sinni vitni að samtali tveggja manna sem báðir starfa við að útvega hlutafé (það er gert enn í dag). Annar starfar hjá líftæknifyrirtæki í Evrópu, hinn í Kísildalnum í BNA. Samtalið sem var á margan hátt skemmtilegt enda ræddu þeir fjálglega um gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta og báru saman þau hugtök sem nauðsynlega þyrftu að koma fyrir svo fjárfestar féllu fyrir viðkomandi fyrirtækjum. Ég leyfi mér að fullyrða að ENGU hefur verið logið um árangur ÍE í rannsóknum. Hins vegar er ljóst að rannsóknirnar sem gerðar hafa verið skila líklegast ekki miklu í budduna. En ég fullyrði þeir uppgötvanir sem orðið hafa og sá árangur sem náðst hefur er mikill, en því miður ekki mikils virði fjárhagslega.
Þá er mikilvægt að átta sig á að fyrirtækið safnaði saman stórum hópi frábærra vísindamanna á einn stað og gaf þeim einstakt tækifæri til að þroskast og vinna með kollegum sínum. Tækifæri sem aldrei áður hefur náðst á Íslandi. Léleg stjórnun, óljósar hugmyndir um hvernig koma ætti vinnu þessa frábæra fólks í verð og óraunhæfar væntingar ollu hins vegar kollsteypunni sem fólst í uppsögnunum 2002-2003. ÍE er stærsti einstaki vinnustaður t.d. tölfræðinga og líffræðinga á Íslandi enn í dag og því má EKKI gleyma.
Og hver blés upp þessa sápukúlu með Kára í Perlunni forðum daga, og það áður en þingið hafði tekið gagnagrunnsfrumvarpið til umfjöllunar? Og hver vann ötullega að því að skaffa þessu fyrirtæki ríkisábyrgð?
Hér ræðst Örn Bárður á forsætisráðherra og ekki í fyrsta sinn. Það er ljóst að afskipti Davíðs af ÍE eru honum ekki til sóma. Það er enda ljóst að gagnagrunnurinn verður aldrei að veruleika, einfaldlega vegna þess að óljósar hugmyndir um rekstur hans náðu aldrei flugi. Hugmyndin góð, eins og margt annað hjá ÍE, en vonlaust að koma henni í verð á löglegan hátt. Þá liggur ljóst fyrir að ríkisábyrgðin var mjög slæm hugmynd. Þrátt fyrir margar ferðir starfsmanna Fjármálaráðuneytisins og starfsmanna ÍE til Brussel, hefði hún aldrei fengist samþykkt hjá ESA. Kári bjargaði Davíð frá frekari niðurlægingu en orðin var með því að afþakka ábyrgðina innan við mánuði áður en neitunin átti að koma út. Hér hefur því Örn Bárður ýmislegt til síns máls. Davíð hefur ekki gert það gott í samskiptum sínum við ÍE.
Og svo voru og eru ráðgjafar í kerfinu, bæði innan læknastéttar og a.m.k. einn hátt settur aðili í einu ráðuneyti sem allir hafa talað máli ÍE gangvart kollegum og öðrum aðilum án þess
a
Þessi pistill er alveg til fyrirmyndar. Grunar þó að það dugi ekki 😉
Elli minn. Farðu nú að hætta þessu. Þú snýrð öllu á hvolf. Það er þú sem hefur ráðist “harkalega” að Norðurljósafjölmiðlunum með órökstuddum fullyrðingum og árásum sem margoft er búið hrekja. Vertu ekki að klína sökinni á aðra. Ef þú heldur svona áfram missi ég allt álit á þér … Þú tókst þig á hér fyrir nokkru og drógst til baka ummæli um Ólaf Ragnar Grímsson. Ég met þig fyrir það. Please, ekki nota svona rök oftar :-))
Kæri Torfi, nú skil ég þig ekki. Hvað í málflutningi mínum hér er ómálefnalegt? Hvað í umfjöllun minni um fjölmiðla Norðurljósa hefur verið hrakið? Það getur verið að það hafi verið gert en ég minnist þess samt ekki. Vissulega túlka menn umhverfi sitt á mismunandi hátt, en ég sá mig tilneyddan til að bregðast við fullyrðingu Arnar um milljarðaþjófnað, sem hann setti fram hér á síðunni.
Já, Torfi, hættu þessu yfirlæti og láttu rökin tala. Matti hefur vart lokið svartsýnisspá sinni er þú kemur og uppfyllir hana í einni svipan! 😉
Hvorum ætti ég nú að svara fyrst? Elli! Hvar talar Örn Bárður um milljarðaþjófnað ÍE? Forsætisráðherra hefur hins vegar talað, ásamt mörgu öðru miður fögru, um mútutilboð Baugsmanna til sín upp á 300 milljónir. Málefnalegt? Löglegt? Skúli! Yfirlæti? Já, látum rökin tala ;-))
Í ummælum sínum við færslu á annálunum mínum undir yfirskriftinni Sigur fjármagnsins skrifar Örn Bárður…
Ég held að ég ítreki enn einu sinni hér á þessum vef, ég hyggst ekki verja gjörðir Davíðs Oddssonar (sjá einnig hér (21/07 12:08) og hér (20/5 20.35) og í færslunni að ofan). Þetta mútumál sem þú nefnir var hneisa, bæði fyrir hann og ekki síður Hrein Loftsson. Innlegg Davíðs ómálefnalegt og annað tveggja lögbrot – meiðyrði Davíðs eða mútutilraunin. En gjörðir Davíðs eiga EKKI að vera mælikvarði á samskipti okkar. Röksemdafærslan: “Davíð er vondur ergó það má níða allt sem hann styður” er EKKI haldbær.
Ég útskýri þetta með yfirlætið í færslunni á mínum annál, Torfi. Ég held þú vitir alveg hvað ég á við.
Tek undir með Matta. Þessi pistill er til fyrirmyndar. Eitt sem vekur mig til umhugsunar er bláeygði hópurinn. Mér er spurn hversu langt við getum gengið í því að telja fólk svona gjörsamlega vanhæft að meta stöðu sína og velja hvað það vill og hvað ekki. Er eins og við göngum út frá því að valdahlutföllin séu í ískyggilegu ójafnvægi alls staðar, hvort sem um er að ræða bláeyga kaupendur og seljendur, áhlýðendur guðsorðsins og flytjendur, nýtrúarkuklara og syrgjendur, Davíð og þjóðina. Er kannski efni í annan pistil en mér finnst þetta athyglisvert. Er hinn svokallaði almenningur raunverulega eins varnarlaus og skyni skroppinn? Getum við ekki öll þjálfað valhæfni okkar betur en svo að aðrir getir prangað inn á okkur svikamyllunni?
Færsla um Bláeygðu sakleysingjanna.