Mikið hefur verið rætt um illu ofurlaunamennina og hvernig þeir hafa snuðað saklausan almenning og skilið hann eftir í eymd og volæði. Þar sem svona sögur virka vel og jafnvel betur ef hægt er að birta mynd af ofursumarbústöðum, þá flaug mér í hug að skoða hvaða áhrif yfirtakan á Kaupþingi hefði haft á eignastöðu bankastjórans fyrrverandi í Kaupþingi. Ég vissi sem var að stór hluti ofurlaunanna (ekki allt) fólust í kauprétti á hlutabréfum í bankanum og sögusagnir sögðu að til kaupanna hefði hann þurft að taka lán. Ég fletti því upp í fréttum um kauprétti í Kaupþingi og sá að í ágústbyrjun 2008 keypti hann 812.000 hluti á genginu 303 og lagði því út tæpar 250 milljónir króna. Skv. sömu frétt var heildareign Hreiðars rétt um 10 falt meiri og ef við gefum okkur að hann hafi fengið þá hluti einnig á genginu 303, þá hafði Hreiðar greitt fyrir hluti sína 2,4 milljarða króna (það er reyndar ekki svo, eitthvað keypti hann á markaðsvirði og eitthvað keypti hann á genginu 102,5). Þann 6. ágúst var þessi hlutur metinn á 5,7 milljarða króna og því ljóst að Hreiðar var milljarðamæringur. Sögusagnir herma að fjármögnun á þessum kaupum hafi verið með lánum. Því mætti ætla að öðru óbreyttu að Hreiðar hafi á einni nóttu, aðfararnótt 9. október, breyst úr milljarðamæringi í öreiga sem skuldar milljarða. Reyndar er rétt að nefna að 2006, fékk Hreiðar heimild til að færa hlutabréfaviðskipti sín og kauprétt á hlutafélag sem ber nafn hans að viðbættu ehf. Þannig verður væntanlega ekki um persónulegt gjaldþrot að ræða ef lánadrottnar gera kröfu um uppgreiðslu skuldanna sem stofnað var til vegna hlutabréfakaupanna. Ef ekkert óeðlilegt átti sér stað með hlutabréfakaup frá 6. ágúst og fram til 9. október, en enginn innherjaviðskipti í Kaupþingi voru tilkynnt til Kauphallarinnar á þeim tíma þá er ljóst að ekki allir verðbréfastrákarnir gengu frá borði með fullar hendur fjár. Þess utan er rétt að benda á að Hreiðar greiddi skatt af meintum hagnaði í tengslum við kaupréttarsamninginn sem hann hafði. Reyndar eru heimildir til að fresta skattgreiðslu af hluta kaupréttarbréfanna, en þær heimildir dekkuðu ekki Hreiðar nema hugsanlega að litlum hluta. Þannig hefur hluti ofurlauna Hreiðars eins og þau hafa verið birt í Frjálsri Verslun innifalið hagnað af hlutabréfakaupum, sem Hreiðar innleysti aldrei.
Þessi færsla er ekki tilraun til að hvítþvo Hreiðar á neinn hátt, einungis er um að ræða tilraun til að skilja hvað gerðist og hvaða áhrif það hefur haft á mann sem að mörgu leiti hefur verið ímynd ungu bankadrengjanna. Auðvitað veit ég líka að burtséð frá kaupréttum hafði Hreiðar sæmilegt kaup sem kemur sjálfsagt að góðum notum núna, þegar milljarðarnir sem hann hélt sig eiga hafa glatast.