Sú hugmynd að fara í veffrí (web sabbatical) í miðri atvinnuleit var augljóslega mjög misráðin og óskynsamleg af fjölmörgum ástæðum. Af þeim sökum hef ég ákveðið að láta tæpa viku í veffrí duga að þessu sinni og lýk þessu veffríi formlega í dag, 25. febrúar.
Nú eru rúmlega 7 ár síðan ég tók veffrí (web sabbatical) í fyrsta sinn. Þau hafa gengið misvel fyrir sig en um leið hafa þau gert mér kleift að staldra við vefnotkun mína og endurskoða hefðir og venjur sem myndast yfir árið. Þannig hefði ekki mér ekki dottið í hug fyrir 7 árum að ég gæti orðið háður Sudoku tölvuleik. Að þessu sinni á veffríið sér stað í miðri atvinnuleit, sem eðli máls skv. er að einhverju leiti netháð. Veffríið að þessu sinni mun standa yfir alla föstuna frá 18. febrúar 2015 og fram til 2. apríl 2015. Að venju fylgir hér á eftir ýmsir fyrirvarar og skilgreiningar í tengslum við fríið.
- Ég mun ekki lesa Facebook, Twitter eða aðra félagsmiðla á þessu tímabili.
- Ég mun ekki skrifa blogg, stöður, tvíta, bæta við tumblr færslum, setja myndir á instagram né birta nokkuð annað á þessum tíma á félagsmiðlum.
- Ég mun ekki lesa blogg, fréttamiðla og almenna vefi.
- Ég mun ekki spila tölvuleiki á Kindle, DS, iPad eða iPhone né nokkru öðru tölvutengdu tæki.
- Ég mun líkt og áður notast við iCal í símanum mínum, en þar held ég utan um dagskrá allrar fjölskyldunnar. Eins mun ég nota Wunderlist minnismiðakerfið.
- Ég mun lesa tölvupóstinn minn reglulega og notast við fb-messenger og Skype til samskipta í gegnum símann minn.
- Þá mun ég nota Hulu Plus og iTunes í gegnum AppleTV til sjónvarpsáhorfs.
- Ég mun nota smáforrit í símanum mínum til að panta pizzur og ApplePay til að borga vörur.
- Ef áframhald verður á vefhönnunarverkefnum sem ég hef verið að sinna undanfarna mánuði mun ég sinna þeim í veffríinu.
- Þá mun ég að jafnaði vikulega nota vefinn til atvinnuleitar og upplýsingaöflunar í tengslum við mögulega vinnuveitendur.
- Meðan á fríinu stendur mun ég leggja til hliðar bæði MacBook Pro fartölvuna sem ég nota til að skrifa þessa færslu og auk þess iPadinn sem ég nota að öðru jöfnu til að vafra á netinu.
Ef svo skyldi fara að ég fái fast starf meðan á veffríinu stendur mun ég endurskoða veffríið a.m.k. tímabundið.