Það er ekki auðvelt að skilja hvað er í gangi í bankaheiminum þessa dagana. Íslensk fjármálafyrirtæki skila fínum hagnaði en virðast ekki njóta neins trausts utan landssteinanna. Hagnaðurinn er sagður byggjast á viðskiptum með íslensku krónuna, en á sama tíma vilja fjármálafyrirtækin krónuna feiga. Þegar svo við bætist að sparisjóðir eru að verða/hafi orðið gjaldþrota á landsbyggðinni þó hljótt fari, þá hlýtur hverjum vitibornum manni að bregða. Það að bankarnir sumir hverjir hafi fengið lán hjá lífeyrissjóðum til 5 ára og lánað áfram til 40 ára, er ekki til að auðvelda manni að skilja þetta allt saman. Enda skilst mér að nú þegar kemur að skuldadögum 5 ára lánanna séu fáir tilbúnir til að lána bönkunum aftur og hvað þá til langs tíma og því eigi þeir ekki hægt um vik að greiða lífeyrissjóðunum það sem þeim ber.
Eins og þetta sé ekki nóg. Þá bætist við að bankar og fjármálastofnanir virðast ganga kaupum og sölum þessa dagana. Bankinn minn breytir reglulega um nafn, þó ekki sé eins oft skipt um útlit og Búnaðarbanka/Kaupþings/SPM/KB bankamennirnir gera. Útibúið mitt er ekki lengur til, lenti í sameiningarhagræðingarferli og þegar ég notaði sumarleyfið til að kíkja á þjónustufulltrúana mína og gjaldkerana, var engin þeirra lengur við störf í sameinuðu útibúi. Vextir á frábæra hávaxta sparnaðarreikningnum okkar eru undir verðbólgutölum, þar sem við gátum ekki bundið peningana okkar í lengri tíma og því ljóst að sparnaðurinn okkar hverfur um síðir ef við bregðumst ekki við.
Í öllu þessu umróti heyrast líka af því sögur að það séu ekki bara sparisjóðir út á landi sem eiga það á hættu að geta ekki lengur staðið í skilum, sum af stóru fjármálafyrirtækjunum í Reykjavík glími við mikinn vanda, enda ekkert grín að þurfa að borga 10% tryggingavexti af lánum sem eru fengin út í hinum stóra heimi, til að fjármagna endurgreiðslu á lánum frá lífeyrisjóðunum sem voru í upphafi notuð til að lána húskaupendum á 5% vöxtum. Orðið á götunni fékk samt einhverjar skammir fyrir að vara sparifjáreigendur við fyrir nokkru, enda gæti það þýtt samfélagslegt hrun ef einstaklingar tækju upp á því að vernda eigur sínar og fjarlægja þær úr bönkunum áður en til gjaldþrots kæmi. Ég þykist þess samt fullviss að varnir þeirra sem mest eiga, eru til fyrirmyndar og við þurfum ekki að óttast að þeir sem meira vita en ég, skaðist mjög ef einhverjar fjármálastofnanir leggjast á hliðina. Við hin ættum að hafa í huga að skv. lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þá eru fyrstu 2.550.000 krónurnar (m.v. gengi Evrunnar 28. ágúst 2008), sem við eigum tryggðar og ef innistæðan okkar er lægri þá er enginn ástæða til að hlaupa af stað. Ef inneign okkar er hærri en þetta, er e.t.v. ástæða til að hugsa leiðir til að bregðast við.
Hafandi fjallað um þennan skrítna heim, þar sem peningar á 14,4% vöxtum fuðra upp í verðbólgubáli, þar sem sparisjóðir deyja án mikillar umræðu og bankar fá hvorki lán né lána. Þá er e.t.v. rétt að benda á að peningar þurfa ekki alltaf að vera uppspretta áhyggna. Ef einhver vill vernda fjármuni umfram fyrstu 2.550.000 krónur þá gæti verið spennandi fyrir viðkomandi að veita vaxtalaust lán í gegnum KIVA.ORG. Áhættan er sjálfsagt svipuð og felst í að eiga meira en 2.550.000 krónur hjá íslenskri fjármálastofnun, og ef verðbólga á Íslandi og gengisþróun helst svipuð og undanfarna mánuði er ávöxtunin ekki mikið verri. Þess utan er ákveðin vellíðan fólgin í því að vita að ef svo illa fer að peningarnir tapast, þá töpuðust þeir í viðleitni við að bæta heiminn, en ekki vegna löngunar nokkurra einstaklinga til að spila risa Matador.
Fyrst þú nefnir þetta með bankana, Halldór Elías, þá vil ég upplýsa þig um nokkuð sem kallað hefur verið Tobin-skattur og finnska hjálparstarfið hefur verið að kynna í fermingarstörfum finnsku kikrjunnar.
Hugmyndin er að leggja skatt á gjaldeyrisfærslur til að koma í veg fyrir brask með gjaldeyri rétt eins og íslensku bankarnir hafa verið að gera á ársfjórðungsfresti. Þetta brask hefur haft óðaverðbólgu og stórfellda vaxtahækkun í för með sér, sem bitnar á öllum almenningi eins og allir vita.
Tobin þessi sem skatturinn er kenndur við, er bandarískur hagfræðingur sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagræði árið 1981. Hann lagði upphaflega til að borgaður væri skattur upp á 0,1% af öllum stórum gjaldeyrisfærslum og að skatttekjurnar rynnu til Sameinuðu þjóðanna til að gera þær ekki eins háða framlagi frá ríku löndunum eins og USA – og til að gera þær þannig sjálfstæðari (já, eða til verkefna í þriðja heiminum á vegum annarra samtaka). Pósentutalan hefur víst minnkað eitthvað síðan.
Kynning á skattinum hefur m.a.s. rekist inn á Vísindavefinn (http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2108), auk þess sem lesa má um hann á Wikipedia (http://en.wikipedia.org/wiki/Tobin_tax.)
Þá eru tveir vefir ytra, í USA og UK, sem útbreiða þessar hugmyndir (http://www.ceedweb.org/iirp/ og http://www.waronwant.org/?lid=2)
Gaman væri ef íslenska hjálparstarfið tæki á sig rögg og berðist gegn þessu braski bankanna og alþjóðlega fjármálafyrirtækja, rétt eins og Finnarnir gera.
En líklega er áhrif KFUM og K of mikil innan hjálparstarfs kirkjunnar hér heima, og innprentuð pólitísk íhaldssemi þeirra sem þar hafa verið uppaldir.