Nú í vikunni hef ég hjálpað til sem sjálfboðaliði í stærðfræði(sumar)búðum. Stærðfræðibúðirnar eru í boði nú þegar þátttakendur eru í vorfríi í skólanum sínum og eru skipulagðar af tveimur söfnuðum og í samvinnu við grunnskóla barnanna sem taka þátt. Markhópurinn fyrir búðirnar eru krakkar í 3. og 5. bekk sem gætu hagnast á viðbótarþjálfun í stærðfræði fyrir samræmd próf í Ohio sem verða haldin núna í kringum mánaðarmótin.
Hlutverk mitt er að gera það sem umsjónarfólk búðanna segir mér að gera. Þannig hef ég séð um slökunarstöð, þjálfað krakkana í að reikna með peningum, fylgt hópum á milli stöðva, stjórnað leikjum og aðstoðað í matsal. Þau sem koma að verkefninu eru sjálfboðaliðar úr ýmsum áttum, kennarar, prestar, háskólanemar, unglingar í vorfríi, tölvuviðgerðamaður, ellilífeyrisþegar og listamenn svo dæmi séu tekin.
Börnin skemmta sér vel. Stærðfræðibúðirnar blanda saman leik og alvöru í hæfilegum skömmtum og krakkarnir eru þakklát fyrir tækifærið sem þau fá til að hafa gaman og læra um leið. Ég upplifði samt sterkt í dag, þrátt fyrir gamanið og stemmninguna, hversu harður heimur sumra af þessum börnum er.
Í gegnum tíðina hef ég ekki unnið með mörgum börnum sem eru sársvöng þegar ég hitti þau í upphafi dags. Það hafa ekki verið mörg sem bregðast við með hræðslu og ótta um að ég slái til þeirra þegar ég bið þau um að koma og tala við mig. Ég man ekki eftir því áður að börn borði hálfa samloku en stingi inn á sig hinum helmingnum til að fara með heim til systkina sinna. Auðvitað á ofangreint ekki við öll börnin á námskeiðinu, en fátæktin og úrræðaleysi foreldra sumra þeirra eru átakanleg.
Þessi sára fátækt í næsta nágrenni við milljón dollara hallir í hæðunum við Cleveland er sérlega stingandi, því vandamálið felst í misskiptingunni. Það er nefnilega ekki svo að auður Walton fjölskyldunnar felist í því að þau hafi stækkað kökuna sem við höfum til skiptanna. Foreldrar einhverra af börnunum sem koma svöng í stærðfræðibúðirnar vinna hugsanlega við að skapa auð Walton fjölskyldunnar, án þess þó að fá sinn skerf.
Þriðju og fimmtu bekkingarnir sem ég hef leikið og lært með undanfarna daga, hafa verið rænd tækifærum af þeim sem safna auði og geyma í stórum kornhlöðum. Hugsanlega munu þau ná árangri í lífinu, „meika það“, lifa ameríska drauminn. En það mun ekki gerast vegna misskiptingarinnar og óréttlætisins sem drífur áfram bandarískt samfélag, heldur þrátt fyrir misskiptinguna, auðsöfnunina, siðblinduna og óréttlætið.