Í guðfræðináminu á Íslandi, ólíkt náminu í BNA, var mikil áhersla lögð í nokkrum kúrsum á kenningar Erik Erikson um þroska og sjálfsmyndarmótun. Þessu tengt voru okkur kynntar hugmyndir um overgangs objekt og fjallað um samspil Guðsmyndar við þroska eða skort.
Í gömlum glósum frá þessum tíma, rakst ég á mjög hráa töflu með yfirliti yfir félagssálfræðilegar kreppur byggða á kenningum Erik Erikson (sem var Bandaríkjamaður, þrátt fyrir að í guðfræðideildinni við værum látin lesa hann á sænsku).
Ég fann töfluna í mun fyllra formi, m.a. á wikispaces, en þá útgáfu töflunnar má sjá hér að ofan.
Við fjölluðum ekki einvörðungu um þroskamótun skv. Erikson, við skoðuðum einnig kenningar James Fowler um stiggreindan trúarþroska, og lásum texta um kenningar Piaget og Kohlberg.
Við lærðum þannig að samspil trúar-, siðferðis-, félags- og vitsmunaþroska mótaði manneskjuna, og þrátt fyrir að ekki væri um að ræða tröppugang, enda gætum við sveiflast á milli stiga, m.a. í tengslum við áföll, þá virtist skv. þessum fræðimönnum vera til staðar einhvers konar æðra stig sáttar og ánægju, Nirvana. Ástand sem væri alhæfandi, sameinandi, gagnkvæmt, byggði á samkennd með öllu sem er og einingu, kallaði á samsömun við mannkyn sem heildar, algjörlega án eigingirni og með fullum skilningi á táknum og vitund.
Að þessar hugmyndir spretti úr menntafarvegi kristinnar hugsunar er um margt áhugaverð, enda kallast hugmyndirnar á við kenningar um nirvana eða uppljómun hindúismans. Forsenda þessarar þroskahugsunar er ef til vill fyrst og fremst byggð á afneitun þess að syndin er óumflýjanleg og allt um lykjandi. Æðsta stig kenninganna virðist enda ganga út frá að manninum sé mögulegt að frelsa sjálfan sig, sem útskýrir vinsældir þessara hugmynda t.d. í Unitarian kirkjum.
Hægt er að tengja hugmyndir um línulegan þroska, við ranghugmyndina um að fólk sé ýmist gott eða vont. Hugmynd sem löngum hefur gengur eins og rauður þráður í gegnum fjölmiðla og afþreyingarefni. Einhverjir halda því fram að það sé að breytast en ég held að það sé rangt. Vic í Shields er vondur, sleasy gaurinn í Mad Men líka, Dexter og Walt White eru skíthælar. Þó við höfum samúð og höldum með þeim, þá „vitum við“ innst inni að við myndum aldrei gera eins og þeir.
En alla vega. Þroskahugmyndirnar eru ef til vill ágætt tól í einhverjum aðstæðum og hafa e.t.v. einhvers konar forspárgildi um hegðun og atferli fólks í ákveðnum aðstæðum. En hættan við slíkar hugmyndir er höfnun syndarinnar og þeirrar staðreyndar að við erum öll heilagir syndarar.