Orð Jesú um helgihaldið er í anda spámannanna sem gagnrýndu áhersluna á rétt helgihald á kostnað réttlætis og miskunnsemi. Gagnrýnin á þann sem gefur til musterisins í stað þess að styðja við foreldra sína kallast á við orðin í Amos 5, sem ég hef svo sem vísað í áður.
Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.
Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.
Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir
lít ég ekki við þeim,
né heldur matfórnum yðar af alikálfum.
Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.
Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.
Réttvísi skal streyma fram sem vatn
og réttlæti sem sírennandi lækur.
Í kaflanum er vísað til hreinsunarlaga sem erfðavenja eða hefða. Jesús gagnrýnir faríseana og fræðimennina harðlega fyrir að hafa leyft hefðum og venjum samfélagsins að taka yfir hlutverk Guðs.
Varnaðarorð Jesú um að hið illa eigi sér fyrst og fremst uppsprettu í gjörðum og hugsunum manna, en felist ekki í utanaðkomandi áreiti eru einnig athygli verð.
Ein af „óþægilegu“ frásögunum af Jesú kemur fyrir í þessum kafla. Þegar Jesús mætir konu sem er ekki af gyðinglegum ættum, virðist Jesú hafna því að lækna dóttur hennar, enda eigi fagnaðarerindið ekki erindi út fyrir Ísraelsþjóðina, nema þá að öll Ísraelsþjóðin taki trú fyrst. Þegar konan mótmælir þessum skilningi Jesú þá gefur hann eftir og barnið læknast.
Frásagan gefur til kynna að orðspor Jesú hafi ekki verið bundið við gyðinga, hún virðist líka benda til ákveðinnar þróunar í boðun Jesú. Hún bendir líka til þess að Jesú hafi tekið út ákveðinn þroska í boðun sinni og starfi. Það rýmar við þá hugmynd guðspjallsins að Jesús hafi tekið á sig hlutverk sitt með iðrunarskírninni í 1. kafla, sem er eins og áður segir önnur nálgun en hin guðspjöllin hafa.