Ég ákvað að nýta tækifærið í kvöld þar sem Sicko var forsýnd hér í bænum og skellti mér á þessa umdeildu mynd Michael Moore enda alltaf gaman að sjá ýkta framsetningu á veruleikanum. En framsetningin reyndist ekki svo ýkt. Myndin er hrikalega raunsönn, auðvitað fyndinn og pínulítið stílfærð á köflum, en eftir eitt ár í BNA á mín fjölskylda sögu um ömurleg samskipti við handónýtt heilbrigðiskerfi í þessu landi og því í sjálfu ekki óvænt að heyra sögurnar um gallana í kerfinu, galla sem ég hef séð. Það sama átti við um aðra í salnum, sögurnar virtust kunnuglegar fyrir fólki.
Þegar hins vegar kom að umfjöllun um Kanada, Frakkland og Bretland, heyrði maður undrunarviðbrögðin í salnum, vandræðalegur hlátur og andvörp eins og fólk trúði ekki eigin eyrum. En umfjöllunin kom mér svo sem ekki á óvart, reyndar eru komugjöld á Íslandi en við höfum greitt fæðingarorlof, 4-6 vikna sumarfrí, almannatryggingar og engum er kastað út úr sjúkrahúsum eða hafnað þjónustu vegna þess að tryggingafélagið er ekki með samning við rétt sjúkrahús.
Michael Moore er því í raun að varpa ljósi á heiminn eins og hann er, veruleika sem Evrópubúi með fjölskyldu mætir hér í BNA á fyrsta árinu sínu í landinu. Auðvitað eru einhver hægrisinnaðir strákar sem koma til með að gagnrýna efnistökin, benda á að laun lækna séu lág á Kúbu, eða að efnahagslífið í Frakklandi sé ekki frábært. En myndin fjallar ekki um þessi atriði og þau skipta engu máli.
Spurningin er einföld, á heilbrigðiskerfið að byggja á getunni til að borga eða á þörf einstaklinga í samfélaginu? Með öðrum orðum á að dreifa gæðum heilbrigðiskerfisins eftir þörf eða eftir getunni til að greiða?
Svarið er flestum ljóst, nema kannski ríkustu einstaklingunum ríkustu þjóðar heims.
Þetta er mjög áhugavert. Ég hef fylgst aðeins með myndinni og tók eftir markaðssetningarbrellum (eða upplifði ákveðna umræðu kannski bara á þann hátt). Umfjöllunarefnið er mikilvægt og það verður spennandi að sjá myndina og eins að fylgjast með umræðunni sem verður í kjölfar sýningar hennar.
Veit einhver hvort/hvenær þessi mynd verður sýnd hérna á Íslandi? Mig dauðlangar til að sjá hana.
Á IMDb stendur:
“Release dates for Sicko (2007): […] Iceland 15 August 2007 (Green Light Film Festival)”