Ég dreg yður til ábyrgðar fyrir verk yðar,
segir Drottinn,
og legg eld að skóginum.
Hann skal gleypa allt umhverfis sig.
Jeremía sér Drottinn sem geranda alls, allra hluta. Líkt og segir í Jobsbók: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Í því ljósi er hefndin, afleiðing óréttlætisins, verk Guðs sjálfs.
Það er Drottinn sjálfur sem sendir hersveitir Nebúkadresar til Jerúsalem til að hneppa þjóð Júda í ánauð. Ekkert er Drottni um megn.
Jeremía er skýr, þeir sem ekki eru teknir og færðir til Babýlon eiga litla framtíð í Jerúsalem, munu verða hungri, sjúkdómum og sverði að bráð. Tími Jerúsalemborgar er ekki núna.