Óformleg samfélagshlutverk hennar eru aftur á móti mörg, þau standa öllum til boða og eru endurgjaldslaus: Þjóðkirkjan rekur öflugt barna- og unglingastarf með tvímælalaust forvarnargildi. Með sálgæslu býður hún upp á stuðningsþjónustu fyrir þau sem glíma við lífsvanda af ýmsu tagi. Með kærleiksþjónustu (díakóníu) hefur hún á síðustu áratugum veitt þeim sem standa höllum fæti aukinn félagslegan stuðning. Með innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hefur hún byggt upp vaxandi efnahagsaðstoð við þau sem búa við skort. Í helgihaldi býður hún öllum sem þiggja vilja griðarstað og griðarstund í stríðum straumi áreita og krafna daglegs lífs. Þetta eru allt gild rök fyrir þjóðkirkjuskipan. #
Í annars góðri grein Hjalta Hugasonar um Ríki, samfélag, þjóð og þjóðkirkju bendir hann á ofangreint sem helstu rökin fyrir þjóðkirkjuskipaninni. Þessi rök eru hins vegar meingölluð, því það sem hann nefnir er einfaldlega það sem trúfélög um allan heim (og ekki einvörðungu kristin) bjóða náunga sínum, og það án stjórnarskrárverndar. Reyndar er þessi þjónusta alls ekki bundin við trúfélög.
Þess utan er það fremur vondur vitnisburður um kirkjuna ef hugmyndin um þjónustu við náungann þarf að tengjast á einhvern hátt stöðu kirkjunnar gagnvart ríkinu.
(Upphaflega birt á www.ispeculate.net)