Það er ekki á hverjum degi gefið í skin að ég sigli undir fölsku flaggi, eða sé óheiðarlegur á einhvern hátt en það gerðist í ummælum í dag. En þar er ég sakaður um að gefa ekki upp tengsl við lykilmenn í Vinaleiðarmálinu, í þeim umræðum sem ég hef átt um leiðina. Hér er líkast til átt við hér og hér. Ég veit reyndar ekki um hvaða tengsl er verið að ræða, né hvernig þau eiga að skipta máli, en ég skal reyna.
Reynir Harðarson hefur sent mér tölvupósta, þar sem hann óskar eftir stuðningi við baráttu sína þar sem hann telur mig rödd skynseminnar í kirkjunni. Áður en ég flutti til BNA spilaði ég fótbolta 1-2 í viku með Halldóri Reynissyni og stundum Hans Guðberg. Jóna Hrönn kom oft í heimsókn á skrifstofu ÆSKR í Grensáskirkju, meðan ég var framkvæmdastjóri Grensáskirkju. Fjölskylda konunnar minnar býr í Garðabæ og bróðir minn og fjölskylda sömuleiðis, ég er djákni eins og Þórdís Ásgeirsdóttir og hún var um tíma formaður Djáknafélags Íslands, félagi sem ég tilheyri.
Allt þetta fólk, nema Reynir, fjölskylda konunnar minnar og fjölskylda bróður míns, vinna í kirkjunni eins og ég gerði. Ég hef unnið að verkefnum með þessu fólki og tek stundum að mér sérverkefni fyrir Biskupsstofu eins og kemur fram á þessum vef.
Alskonar fólk hefur haft samband við mig með fyrirspurnir um Vantrúarvefinn og hvað sé á seyði þar, enda er þekkt innan kirkjunnar að ég hef haft áhuga á þeim vef og þeim aðferðum sem þar er beitt. Þannig hef ég fengið tölvupósta frá kunningjum í kirkjunni þar sem mér hefur verið bent á hegðun baráttumanna gegn Vinaleið. Jafnframt hef ég stöku sinnum sent fyrirspurnir til kunningja utan og innan kirkju um hvað sé á seyði, eða til að gagnrýna aðferðir sem notaðar hafa verið.
Að lokum er rétt að geta þess að ég hef lengi hrifist af faglegri og yfirvegaðri framkomu Hans Guðbergs Alfreðssonar, meira að segja í knattspyrnu. Ég hef svo sem ekki þekkt manninn lengi, en við höfum stöku sinnum sinnt saman verkefnum og verið saman á námskeiðum, mótum og fundum. Ef virðing mín fyrir frábærum samstarfsfélaga er það sem ég er sakaður um að hafa haldið leyndu, þá er ég sekur um það. Enda hef ég ekki verið þekktur fyrir að hrósa fólki sem ég tel að standi sig vel.
Hvaða hegðun er það?
Finnst þér það algjört aukaatriði í umfjöllun þinni um Vinaleið að þú þekkir aðalmanninn í Vinaleið í Garðabæ? Finnst þér það engu máli skipta?
Ég get ekki að því gert Halldór, en mér finnst það skipta máli. T.d. þegar þú vitnar í hann í umræðunni, líkt og þú gerir hér.
Þarna höfum við annars vegar orð móður (sem hefur eftir barni sínu) og svo þín orð, þú veist hvað í raun átti sér stað.
Ég hef aldrei reynt á neinn hátt að fela það að ég þekki Hans. Ég er vígður starfsmaður kirkjunnar, ég vann í kirkjunni með börnum og unglingum, ég hef starfað fyrir Biskupstofu í sérverkefnum líkt og Hans. Það hefur margoft komið fram og ég hef ekkert gert til að leyna því. Auðvitað þekki ég til mannsins.
Annars varðandi hegðun ykkar, þá heyrði ég t.d. af því frá kunningja mínum að Vantrúarmenn hefðu látið sjá sig á AD-KFUM, glósað og sleppt kaffinu. En það er ekki eins og ég hafi ekki vitað af því enda les ég örvitinn.com. Eins heyrði ég annars staðar að Hjalti hefði verið á málþinginu í Garðabæ. Það eru ekki alvarlegri hlutir en þetta.
Það að ég skyldi hafa fengið það staðfest frá fleiri en einni heimild hvað átti sér stað, er það skyndilega óheiðarlegt?
Ég gleymdi spurningunni. Já, Matti mér finnst það algjört aukaatriði hvort ég þekki Hans Guðberg. Það breytir engu um það sem ég sagði hvort ég þekki hann eða ekki. Þegar ég heyrði um lýsingarnar í bréfinu hafði ég samband við einstaklinga sem hafa verið viðstaddir slíkar kynningar og það kemur fram í ummælum mínum og leitaðist við að finna út hvað var rétt. Mér brá að heyra af slíkri guðfræði innan þjóðkirkjunnar, það er alsendis óháð því hver hefði átt í hlut.
Þú hefur ekki verið að fela það en þú hefur heldur aldrei gefið það upp. Að mínu mati skiptir það máli í þessari umræðu ef það er kunningsskapur milli þín og þess einstaklings sem missir starf sitt ef Garðabær og Álftanes greiða ekki fyrir Vinaleið á næsta skólaári. Það skiptir líka máli þegar þú velur að trúa frekar honum og rengja móður. Þegar þú gerir það væri, að mínu mati, heiðarlegra að segja; “ég þekki Hans og trúi því sem hann segir”, það væri líka heiðarlegra að kommenta hjá mér með því að segja “Þarna vegur þú að Hans, kunningja mínum” í stað þess að koma með óskiljanlega fýluathugasemd.
Varla eru það fréttir að við mætum á áður auglýsta atburði sem fjalla um Vinaleið og eins og þú segir, þá erum við ekki að fela okkur, ég segi frá því þegar ég mæti í kirkju eða á atburði á vegum kirkjunnar. Það er gaman að því að nærvera okkar vekur athygli því hegðun okkar held ég að geti fullyrt hefur alltaf verið til fyrirmyndar, ólíkt t.d. ónefndum prestir sem fer alltaf á háa C-ið og hrópar á fólk í umræðum um Vinaleið.
Það má gera ráð fyrir okkur á öllum slíkum atburðum því við viljum heyra það sem Vinaleiðafólk hefur að segja. Því meira sem það tjáir sig því betra fyrir okkur!
Mér finnst samt skrítið að orða þetta eins og þú gerir “hegðun baráttumanna gegn Vinaleið”, slíkt gefur í skyn eitthvað meira en hefur átt sér stað. Ennþá.
En ekki þessa tilteknu kynningu.
Ég reyndar held að hér sé gert meira úr kunningskap mínum og Hans Guðbergs en ástæða er til. Ég minnist þess ekki að hafa hitt Hans utan kirkjulegs samhengis, nema þá í prestaboltanum. Ég verð reyndar að segja að það er eiginlega miður, þar sem ég tel Hans ágætan mann.
Hitt er að orðalagið “hegðun baráttumanna gegn Vinaleið”, var óheppilegt, en það er nú samt róttæk aðgerð að mæta á AD-fund hjá KFUM. Það er meira en ég hef gert eftir kristnitökuafmælið, þrátt fyrir að hafa verið félagsmaður síðan á síðustu öld.
Enda hefur verið haft á orði að hegðun ykkar hafi verið til fyrirmyndar, nema að þið skylduð sleppa kaffinu 🙂
Þeir kvittuðu meira segja í gestabókina og bættat þá í hóp þeirra mörgþúsund sem tóku þátt í starfi KFUM á þessu starfsári!
Að sjálfsögðu kvittuðum við. Ég átti reyndar ekki von á því að verða googlaður frá kfum daginn eftir 🙂
Eins og ég sagði í bloggfærslu, þá fannst okkur ekki viðeigandi að stoppa í kaffi því þarna held ég að hafi ekki verið rétti hópurinn til að rökræða við um Vinaleið, fyrir utan Hans Guðberg.