Á trú.is er spurt um fjölda í þjóðkirkjunni nýlega. Ég verð að viðurkenna að mér brá þó nokkuð að hlutfallstalan sé komin undir 85%. Þar sem ég hef gaman af tölum og mér þykir þetta merkilega hröð (en eðlileg þróun). Þá ákvað ég að líta á aðra þætti varðandi trúfélagafjölda.
Það er fyrir það fyrsta áhugavert að sjá að það eru aðeins þrjú trúfélög sem fækkar í hlutfallslega miðað við fólksfjölda í landinu á árabilinu 1990-2005. Það er þjóðkirkjan þar sem fækkar um 8,53% sem hlutfall af íbúafjölda, Sjöunda dags aðventistar, sem fækkar um sama hlutfall um 0,05% og er um leið eini hópurinn sem er með færri félaga nú en 1990 og loks Bahaísamfélagið sem fækkar hlutfallslega um 0,02% en fjölgar þó um 11.
Það er áhugavert að rétt tæpur helmingur hlutfallsfækkunar í þjóðkirkjunni er vegna annarra trúfélaga (4,03%), 3,35% byggja á fjölgun í flokknum Önnur trúfélög/ótilgreint sem er væntanlega í flestum tilfellum einstaklingar sem eru ekki fæddir á Íslandi, eða eiga móður sem fæddist ekki á landinu og falla því til hliðar í skráningarkerfinu. Það sem þó er áhugaverðast að mínu mati í þessu er að einvörðungu 1,14% af þessari hlutfallsfækkun í þjóðkirkjunni er vegna fólks sem hefur tekið þá ákvörðun að skrá sig utan trúfélaga. Vissulega 4006 einstaklingar sem er ekki lág tala. En ef litið er til mannfjölgunar fáum við út að 3432 hafa skráð sig utan trúfélaga umfram línulegt samræmi milli mannfjölda og skráningar, en á sama tíma fáum við að 12.099 skráðu sig úr kirkjunni í önnur trúfélög. Rétt er að halda því til haga að ég tek ekki tillit til hópsins Önnur trúfélög/ótilgreint í þessum þönkum, en honum tilheyra rúmlega 10.000 manns umfram eðlilega línulega fjölgun.
Af ofangreindu má sjá að tiltölulega lítill fjöldi einstaklinga, hefur kosið að yfirgefa trúfélög þegar heilt yfir er litið, sem er ekki í samræmi við þá hugmynd eða þá þróun öllu heldur sem talað er um í Evrópu.
Ég held að nokkuð stór hópur trúleysingja hafi skráð sig í Önnur trúfélag/ótilgreind. A.m.k. hafa einhverjir þeirra sem Vantrú hefur aðstoðað við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína skráð sig á þann hátt. Einhverjir grínistar skrá sig t.d. í Jedi regluna eða eitthvað álíka gáfulegt.
Þegar ég sjálfur skráði mig utan trúfélaga datt mér í hug að skrá mig í „óskráð trúfélag“ og kalla það „samfélag guðlausra“ (félagafjöldi: 1) eða álíka, í anda þess að ég er allsterkt trúaður á mína guðlausu heimsmynd. Mörgum er mikið í mun að kalla þá heimsmynd „trúlausa“ en mér þykir það léttvægt hugtakapikk. Í öllu falli hefur Siðmennt ekki hlotið náð fyrir augum Þjóðskrár í þessu sambandi, enda þyrfti þá kannski að nefna hugtakið „lífsskoðunarfélag“ í stað trúfélags. Ég tók samt þessa hugmynd mína ekki alvarlega, fannst hún óþarfa tiktúra, svo að ég skráði mig bara utan trúfélaga í staðinn. Skráningin „Önnur trúfélög/ótilgreint“ samanstendur varla alfarið af fólki með guðlausa heimsmynd — en ég var varla sá eini sem datt þetta í hug. Hún er a.m.k. stór óvissuþáttur í athugun á því hvert allt þetta fólk fer úr þjóðkirkjunni.
Ég held að það sé rétt hjá ykkur að hluti þeirra sem hafa skráð sig í “Önnur trúfélög/ótilgreint” séu trúlausir en jafnframt veit ég að stór hluti í “ótilgreint” hlutanum er fólk af erlendum uppruna sem gefur ekkert upp. En takk fyrir athugasemdina. Við hana er auðvitað við að bæta að ég tek Ásatrúarfélagið með inn í tölur um trúfélög en um tíma var í tísku hjá trúlausum að skrá sig þangað.