Faraó tekur vel á móti fjölskyldu Jakobs, jafnvel þó Jakob tali um sig sem hjarðmann og segi flutninginn bara vera tímabundinn. Það er sagt að Jósef hafi þurft að styðja við fjölskylduna þrátt fyrir að þau fengu gott land og vinnu hjá Faraó, enda hópurinn stór og kreppan byrjuð að hafa áhrif í Egyptalandi þrátt fyrir undirbúninginn á góðæristímanum.
Afleiðingar kreppunnar fara að koma í ljós í Egyptalandi og uppskerubrestur verður enn á ný. Nú þarf Jósef að fara í innflutning á korni, með tilheyrandi verðhækkunum. Jósef með stuðningi Faraó er næstum alráðandi á markaðnum. Í krafti stærðar á kornmarkaði nær Jósef á sitt vald næstum allri kvikfjárrækt í landinu, síðar kaupir hann upp jarðir fólksins og að endingu kemur fólkið til Jósefs og býðst til að verða þrælar faraós gegn því að hann sjái þeim fyrir mat.
Það er mikilvægt að textinn nefnir sérstaklega að prestarnir fengu ekki sömu meðferð og almenningur, enda á föstum fjárlögum ríkisins og á þann hátt að mestu óháðir kreppusveiflum. Enda hafa trúarstofnanir oft á tíðum gegnt mikilvægu hlutverki í að hjálpa fólki að sætta sig við hlutskipti sitt, eða er það ekki kenning Marx?
Á öðrum nótum þá lærum við að Jakob getur ekki hugsað sér að vera jarðaður í Egyptalandi, og Jósef lofar að útför hans fari fram í fyrirheitna landinu.