Útvarpsprédikun Hildar Eir Bolladóttur vakti nokkra athygli í liðinni viku, enda leitaði Hildur eftir að skilja og túlka eitt helsta deilumál síðustu ára í ljósi kenninga kirkjunnar. Þessi viðleitni er að sjálfsögðu virðingarverð, minnir á mikilvægi þess að kirkjan sé “up to date, festist ekki í fortíðinni og varnar Guði frá því að verða rykfallinn forngripur.
Hildur hefur réttilega bent á að prédikunin var hennar eigin. Því er mikilvægt að takast á við guðfræðitúlkanir Hildar og leitast með því að greina á milli hennar eigin hugmynda og langanna annars vegar og vilja Guðs hins vegar. Af þeim sökum þarf kirkjan að opna umræðu í sínum ranni um innihald prédikunar Hildar og hvort við getum í raun tekið undir þann skilning sem hún varpar fram. Ef umræðan fer ekki fram er ljóst að kirkjan sem slík telur litlu við orð Hildar að bæta og þau standa því sem skilningur kirkjunnar á þessu deilumáli.
Mig langar því að leggja nokkur orð í belg. Ekki vegna visku minnar og gáfna heldur til að taka þátt í viðleitni Hildar til að finna vilja Guðs í þessu mikilvæga máli. Ég hyggst staldra við þrjú hugtök sem Hildur notast við í prédikun sinni og velta fyrir mér merkingu þeirra í þessari miklu og erfiðu deilu.
Heilög jörð
Það er talað um heilaga jörð í Biblíunni. Heilög jörð er notað um þann stað þar sem Guð mætir manninum. Við lesum í 2Mós 3.5 að runninn þar sem Guð mætti Móse hafi verið heilög jörð. Frátekinn mótsstaður Guðs og manns. Orðið heilagur merkir að vera frátekinn, ætlaður til ákveðins verks. Að tala um heilaga jörð á Kárahnjúkum merkir að svæðið hafi sértækt hlutverk í sköpuninni. Hvort það hlutverk sé að framleiða rafmagn til álframleiðslu eða vera mótstaður Guðs og manns, er hins vegar ekki svarað með hugtakinu heilög jörð. Annað þarf ekki endilega að útiloka hitt.
Fullkomið sköpunarverk
Við lesum í upphafi Biblíunnar að Guð hafi skapað. Við sjáum að sköpun Guðs er ekki endanleg. Guð kallaði ekki veröldina fram fullkomna og stöðuga. Þvert á móti lærum við í textum Biblíunnar í Genesis að sköpun Guðs þróast og mótast, er áframhaldandi. Sköpunin er góð, en hvergi lesum við að hún sé endanleg og óbreytanleg. Hún fær enda ekki umsögnina fullkomin, nema í orðum Krists á krossinum. Og ekki einu sinni þar er hún óbreytanleg. Þvert á móti, mótsögnin er að fullkomleikinn á krossinum er einmitt upphaf á einhverju alveg nýju. Fullkomleiki er eitthvað sem við stefnum að (Fil 3.2), en ekki eitthvað sem við höfum nú þegar höndlað. Þessi stöðuga sköpun Guðs ætti að vera öllum ljós sem búa á Íslandi. Landið er í mótun og verður í mótun til hinstu tíma.
Undirgefni og skylda okkar
Við mætum víða í Gamla Testamentinu þeim skilningi að Guð hafi fært okkur jörðina og allt sem á henni er. Við sjáum orðið undirgefni, við lærum að við ríkjum yfir sköpunarverkinu. Á síðustu árum hafa fræðimenn í Gamlatestamentisfræðum ítrekað bent á að undirgefnin væri betur þýdd með umboðshugtakinu. Skal það ekki dregið í efa hér. Spurningin hlýtur samt að vera hvað felst í þessu umboði.
Við mætum í einni af dæmisögum Jesús áhugaverðum texta um ráðsmennskuna (umboðið). Í Lúkasarguðpjalli 19.11-27 lesum við um tiginborinn mann sem lætur ráðsmönnum sínum í té tíu pund til ávöxtunar. Þegar komið er til baka er það sá sem tók enga áhættu, faldi féð og skilaði ósnertu til baka sem fær ummælin “illi þjónn.
Hlutverk okkar í heiminum er nefnilega ekki að viðhalda hinu ómögulega jafnvægi, heldur ber okkur að ávaxta þær gjafir sem Guð gefur.
Og hvað?
Að ofangreindu sögðu er ljóst að guðfræðin gefur okkur engin einföld svör. Hins vegar er ljóst að rökin um heilaga fullkomna óbreytanlega jörð og ákall um kyrrstöðu rýma ekki endilega við heimsmynd eða guðsmynd Biblíunnar.
Við lifum í síbreytilegum heimi og okkur ber að ávaxta það pund sem skapari okkar hefur látið okkur í té. En okkur ber að ávaxta það af ábyrgð. Sú hugmynd að við eigum að afsala okkur frekari ábyrgð nýtingu jarðarinnar fær ekki góða einkunn í dæmisögu Krists um ríka bóndann (Lk 12.19-20).
Er Kárahnjúkavirkjun brot á vilja Guðs?
Spurningin lifir en svarið er ekki einfalt já eða nei. Einhverjir myndu jafnvel segja að tilraunir til að fangelsa vilja Guðs til þjónkunar við eigin hugmyndir væri brot á öðru boðorðinu. Ég held þó að svo sé alls ekki. Okkur ber að leitast við að skilja Guð. Til að skilja vilja hans eigum við og verðum við að ræða opinskátt og af kærleik um þann Guð sem við trúum á og treystum. Aðeins í samfélagi og samskiptum er hægt að öðlast raunverulegan skilning á vilja Guðs.
Þetta kallast nú metafýsískar vangaveltur!! Er Kárahnúkavirkjun brot á “vilja Guðs”? Og ber okkur að leitast við að “skilja Guð”? Hvernig getum við skilið Guð? Mínir vegir eru ekki þínir vegir og mínar hugsanir ekki þínar stendur einhvers staðar. Og annars staðar segir: “Ég er sá sem ég er”. Hins vegar má umorða spurninguna um Kárahnúkavirkjun og spyrja sig ofur einfaldlega hvort tekjur af henni sé það miklar að þær séu þess virði að allt þetta landsvæði sé eyðilagt vegna þeirra. Spurningin er þannig algjörlega þessa heims og kemur Guði ekkert við, þó svo að sköpunarguðfræðileg rök eigi ágætlega við í þessu sambandi. Hildur hélt þessa prédikun á fundinum með Ómari, sem fannst mér nokkuð einkennilegt. Þetta var jú prédikun sem höfðaði til kristinna áheyrenda og átti því ekki heima á þessum fundi að mínum mati. Mér fannst að hún hefði átt að breyta prédikuninni, gera hana að ræðu í staðinn og fjarlægja allar skírskotanir til trúar áheyrenda. Það hefði gert töluna miklu áhrifaríkari en ræðan sem slík var mjög góð að öðru leyti.