Hrós

Það er gaman að fá hrós, það gerist alltaf öðru hvoru að einhver sjái ástæðu til að þakka mér eitthvað sem ég hef skrifað. Þó það verði að segjast að oft tek ég frekar eftir skömmunum. En ég er að vinna í sjálfsmyndinni þannig að það lagast. En í tilefni þess að tveir Vantrúarstjórnarmenn höfðu uppi falleg orð um mig í dag, þá verð ég að segja að umræður mínar við Vantrúarmenn í gegnum tíðina, síðan á Strikinu forðum daga, þegar Krolli, Thew og Sobeggi réðu ríkjum, hafa haft þónokkur áhrif á hugsun mína um trúmál. Það er svo sem ekki allt af sama gæðastandard sem látið hefur verið flakka, ekki frekar en hér á annálnum mínum. En það var frekar sérstakt að ítrekað í umræðum í Gamla testamentisfræðum í Trinity í dag benti Dr. Mary Shields prófessor á frásagnir og guðsmyndir sem ég kannaðist við af skrifum Frelsarans og fleiri merkra manna. Þannig fóru tilraunir kennarans til að vera ögrandi og vekja upp viðbrögð fyrir ofangarð og neðan hjá mér, þar sem ég þekkti og hafði lesið mér til um Mýþrasar-innleiðinguna (kallað jól á íslensku) svo dæmi sé tekið.

Vantrúarlestur undanfarinna ára auðveldaði mér því að vera inn í umfjöllunarefni tímans og velta upp þeim kenningum sem kennarinn tæpti á. Ég nota tækifærið og þakka Vantrúarmönnum fyrir aðstoðina.

2 thoughts on “Hrós”

  1. Hrós eru sannarlega mikilvæg og víst er að margir mættu temja sér þann sið að hrósa reglulega því sem vel er gert. Hitt er ekki síður mikilvægt að sjá það jákvæða í öllu.

  2. Ég verð að viðurkenna að ég tilheyri þeim hópi sem gerir lítið af því að hrósa. Allavega eru hrósin ekki í jafnvægi við þá áráttu að finna stöðugt að hlutunum. En í dag ætla ég að hrósa og fyrsta hrósið færð þú Elli. Takk fyrir allar hugvekjurnar í gegnum tíðina. Þú ert uppspretta margra skemmtilegra pælinga og hefur þann eiginleika að geta talað um nánast hvað sem er og hlustað á nánast hvað sem er án þess að fara í fýlu eða eitthvað þaðan af verra. Takk Elli.

Comments are closed.